Gjaldskrá vegna krabbameinsleitar hækkar verulega

„Það deilir engin um mikilvægi þess að konur og karlar fari í reglubundna krabbameinsleit enda hafa fjölmörg mannslíf bjargast eftir að krabbamein hefur uppgötvast á byrjunarstigi.  Hins vegar er full ástæða til að gera alvarlegar athugsemdir við nýja gjaldskrá fyrir krabbameinsleit hjá konum sem tók gildi um síðustu áramót,“ segir Aðalsteinn Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar í Þingeyjarsýslum á síðu félagsins.

Gjaldið hefur hækkað úr 3.700 kr í 6.000 kr á milli ára og er það umtalsverð hækkun.

Aðalsteinn segir mörgum vera brugðið við þessa miklu hækkun og konur hafi sett sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna vegna þessa, en hefð er fyrir því að stéttarfélög niðurgreiði krabbameinsleitina fyrir sína félagsmenn.

„Þá er jafnframt athyglisvert að skoða nýju gjaldskrána en þar er sérstaklega tekið fram að mörg stéttarfélög endurgreiði hópskoðunargjaldið. Skyldi það vera þess vegna sem gjaldskráin er hækkuð svona gífurlega milli ára?,“ spyr Aðalsteinn en segir jafnfram, sem rétt er, að ekki séu allar konur í stéttarfélögum og það sé heldur ekki skylda stéttarfélaga að niðurgreiða krabbameinsleit fyrir félagsmenn. „Þess vegna er full ástæða til þess að hafa verulegar áhyggjur af þessum taktlausu og glórulausu hækkunum“.

„Það eiga allir að sitja við sama borð enda um mikilvægar forvarnir að ræða. Það er skelfilegt til þess að vita hækkanirnar munu án efa draga úr ásókn kvenna í krabbameinsleit, sérstaklega þeirra efnaminni sem hafa hreinlega ekki efni á því að takast á við þessar miklu hækkanir,“ segir Aðalsteinn og segir eðlilegt að krefjast þess að hlutaðeigandi aðilar endurskoði gjaldskrárbreytingarnar þegar í stað.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here