Glútenóþol: Hvað er glútenóþol?

Glútenóþol er sjaldgæfur sjúkdómur þar sem einstaklingurinn hefur óþol fyrir ákveðnum hluta glútens, sem finna má í korni, sérstaklega hveiti, byggi og rúgkorni.

Glútenóþol hefur áhrif á slímhúð smáþarmanna og leiðir til minnkunar á starfsemi þeirra. Upptaka næringarefna (vítamína, steinefna, kolvetna og fitu) verður því ekki með eðlilegum hætti og minnkar mikið.

Glútenóþol er langvinnur sjúkdómur sem getur herjað á alla aldurshópa. Algengast er að sjúkdómurinn greinist hjá fólki á aldrinum 1-5 ára og svo aftur í kringum þrítugt. Hægt er að ná upp fyrri starfsemi slímhúðarinnar og halda henni við með réttu mataræði, þar sem ofnangreindum korntegundum er sleppt.

Hver er orsökin?

Sjúkdómurinn er í sumum tilfellum ættgengur. Þar að auki eykur neysla á fæðu sem inniheldur ofnagreindar korntegundir hættuna á glútenóþoli.

  • Því fyrr sem ungbörn fá brauð og grauta þeim mun meiri hætta er á að þau fái glútenóþol.
  • Í sumum löndum er glútenóþol mjög algengt (Svíþjóð, Írland).

Hjá sjúklingum með glútenóþol verða einkennandi breytingar í slímhúð smáþarmanna m.a. bólgubreytingar. Þessar breytingar leiða svo af sér ýmsa vanstarfsemi þarmanna.

Hver eru einkennin?

Minnkun á starfsemi þarmanna í þá veru að upptaka næringarefna er ekki nægilega mikil hefur áhrif á heilbrigði einstaklingsins.

  • Vaxtarstöðvun og vanlíðan hjá börnum, þau „þrífast“ ekki.
  • Vítamin- og steinefnaskortur (sérstaklega járn, kalk og fólínsýra)
  • Þreyta og almennur slappleiki (vegna járn- eða blóðleysis)
  • Langvinnur niðurgangur.
  • Þyngdartap.

Hvað er til ráða?

Fylgja leiðbeiningum frá heilbrigðisstarfsfólki (s.s. læknum,hjúkrunarfræðingum og næringarfræðingum) um mataræði barna (þannig að þau fái ekki mat sem inniheldur glúten of snemma á lifsleiðinni). Reyna að forðast fæðutegundir sem innihalda glúten fram að 6 mánaða aldri.

 

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

  • Tekin eru slímhúðarsýni frá smáþörmunum við magaspeglun.
  • Hægðir geta sýnt óeðlilega hátt fituinnihald.
  • Blóðprufur geta gefið vísbendingu um almennt ástand einstaklingsins, svo sem járnskort, B-12, fólinsýruskort og blóðleysi. Einnig er hægt að mæla ákveðin mótefni, IgA vöðvanetjumótefni og gliadin sem koma fram þegar sjúkdómurinn er virkur (þ.e. þegar bólgubreytingar eru til staðar í þarminum).

Hver er meðferðin?

  • Glútensnautt fæði. Sjúklingurinn þarf að neyta glútensnauðs fæðis ævilangt samkvæmt ráðgjöf næringarfræðings. Hveiti, rúgkorn og bygg innihalda mikið glúten.
  • Hrísgrjón, hirsi og maís innihalda ekki glúten.
  • Fjölvítamín og jafnvel steinefna- og vítamíngjöf.

Batahorfur

  • Glútenóþol er ekki lífshættulegt.
  • Fylgist vel með mataræði barna, þar sem rangt mataræði getur haft áhrif á vöxt þeirra.
  • Ef fullorðnir fylgja ekki réttu mataræði getur það haft blóðleysi og beinþynningu (osteoporosis) í för með sér.
  • Hættan á því að fá ákv. tegundir krabbameins og þá helst krabbamein í smáþarma eykst eitthvað ef réttu mataræði er ekki fylgt. Krabbamein í smáþörmum er hins vegar afar sjaldgæft.
  • Í framtíðinni verður sennilega hægt að framleiða korntegundir (hveiti, bygg og rúgkorn) sem ekki innihalda þann hluta glútens sem veldur óþoli.
Heimild: doktor.is
SHARE