Góð ráð við rauðum bossum

Bleiusár er yfirleitt ekki sjúkdómur heldur særindi í húðinni. Það er alvanalegt að börn fái afrifu á bleiusvæðinu. Sum þeirra fá þetta aðeins einu sinni, önnur eru sífellt að lenda í þessu. Ekki er vitað hvers vegna sum börn virðast vera viðkvæmari enn önnur.

Hvers vegna fær barn bleiusár?

Margt getur sært húð barnsins. Algengast er að það sé þvag eða saur ef slíkt liggur of lengi við húð barnsins. Þessi mannlegu úrgangsefni ummyndast í ammóníak ef þau eru of lengi í bleiunni og það brennir húðina. Ef barnið er með afrifu er mikill sviði í húðinni.

Annað sem getur gerst er að rakinn undan bleiunni getur skapað aðstæður fyrir sveppasýkingu. Við erum öll með sveppagróður á húðinni en sérstakar aðstæður þarf til að sveppurinn fari að fjölga sér svo mikið að það valdi sýkingu. Sveppasýking er því ekki endilega merki um sóðaskap. Hún getur verið vegna raka eða annarra breyttra aðstæðna (sýrustigs) í húðinni. Sveppasýking ertir barnið mjög, enda svíður mjög undan henni, sérstaklega þegar við bætist þvag eða saur.

Sjá einnig: Sveppasýkingar, magaverkir, höfuðverkir, brjóstsviði, bjúgur og fleira úr sögunni?

Barnið getur líka fengið bakteríusýkingu á bleiusvæðinu. Þetta getur gerst ef lítið sár hefur myndast á húð barnsins eða ef það hefur verið lengi með afrifu þannig að húðin er sködduð og því greið leið fyrir bakteríurnar. Húð barnsins verður þá heit, rauð og bólgin. Barnið getur líka fengið hita. Ef barnið er með þessi einkenni á að hafa samband við lækni.

Hvaða ráð eru við bleiusári?

Ef þetta er venjuleg afrifa er best að láta loft leika um bossann. Því er góð hugmynd að leyfa barninu að vera bleiulaust í klukkutíma nokkrum sinnum á dag. Auk þess er mikilvægt að skipta oft á barninu. Barnið getur þurft upp undir 12 bleiuskipti á sólarhring meðan því líður verst. Stundum hjálpar að skipta um bleiutegund. Ef notaðar eru taubleiur, er reynandi að skipta yfir í bréfbleiur. Bréfbleiur sjúga í sig meiri raka. Ef notaðar eru pappírsbleiur, má prófa að skipta yfir í taubleiur. Bara það að breyta um bleiutegund getur haft sitt að segja. Ef notaðar eru taubleiur má líka reyna að láta barnið í ullarbuxur í staðinn fyrir plast.

Mikilvægt er að þvo bleiusvæðið í hvert sinn sem skipt er á barninu. Ef barnið hefur bara pissað er nóg að nota volgt vatn. Ef það hefur haft hægðir má nota svolitla sápu en muna þarf að skola alltaf vel með hreinu volgu vatni svo að sápan verði ekki eftir á húð barnsins. Ef húð barnsins er mjög viðkvæm er ráðlegt að verja hana með kremi eftir hvern þvott.

Sjá einnig: Einföld lausn við sveppasýkingum í leggöngum

Sinkáburður sem fæst í apótekum er notaður til að verja skaddaða húð. Einnig fást önnur krem sem eru sótthreinsandi og innihalda sink. Sink hentar vel því að það myndar varnarlag á húðina.

Ef húðin grær ekki á nokkrum dögum eða versnar á að láta heilsugæsluhjúkrunarfræðing eða lækni vita.

Hvað á að gera ef sveppasýking veldur afrifunni?

Það er gott að viðra bossann oft á dag til að raki liggi ekki á húðinni. Reyna skal að skipta um bleiutegund, eins og lýst er hér að ofan. Nota skal volgt vatn þegar skipt er á barninu og aðeins sápu ef barnið hefur haft hægðir. Ævinlega skal skola vel með volgu vatni. Ef barnið er með sveppasýkingu svíður mikið undan henni og barnið getur verið mjög ergilegt. Í lausasölu má fá ungbarnaáburð sem er sveppaeyðandi krem með sinki. Fylgt leiðbeiningunum á umbúðunum. Ef sveppasýkingin lagast ekki, heldur versar á nokkrum dögum, skal hafa samband við lækni.

Hvað ef barninu versnar?

Ef roðinn, hitinn og þrotinn í húð barnsins eykst og barnið fær hita skal strax hafa samband við lækni þar sem þá er líklega á ferðinni bakteríusýking sem þarf læknismeðferð.

Hvernig greinir maður á milli bleiusára?

 

  • Venjulegt bleiusár er hárautt, ekki eldrautt. Barnið er frískt og heilbrigt en svíður svolítið undan þvagi og hægðum. Roðinn fer ekki niður í húðfellingar barnsins. Roðinn hverfur á nokkrum dögum með viðrun, kremi og tíðum bleiuskiptum. Ef þetta verður viðvarandi skaltu hafa samband við lækni eða heilsugæsluhjúkrunarfræðing.
  • Sveppasýking er eldrauð. Gæta skal að því hvort roðinn nái líka niður í húðfellingar barnsins. Sveppurinn vex nefnilega líka niðri í húðfellingum. Barnið er oftast ergilegt og grætur við bleiuskipti. Venjuleg ráð eins og viðrun og ör bleiuskipti duga ekki til að losna við þetta.

Ef ungbarnaáburðurinn dugir ekki skaltu hafa samband við lækni.

Bleiusár sem er logandi rautt, heitt og bólgið getur verið af völdum bakteríusýkingar. Barnið er oftast mjög ergilegt og með hita. Hafa skal samband við lækni.

 

SHARE