Gott að hafa í huga við kaup á vetrarfatnaði fyrir börn

Það er ansi margt sem þarf að hafa í huga þegar kemur að því að velja útiföt á börn. Margir foreldrar kannast eflaust við að hafa keypt fatnað sem hentaði svo alls ekki þegar farið var að nota hann. Það er nefnilega ekki alltaf samasemmerki á milli þess sem lítur vel út og þess sem er praktískt og þægilegt.

KULDAGALLAR

Það er lykilatriði að börn eigi góðan kuldagalla þegar veturinn gengur í garð og mikilvægt er að vanda valið svo barninu líði vel og sé hlýtt. Hér eru nokkur atriði sem gott er að gefa gaum að þegar nýr galli er keyptur á barnið:

Vatnsheldni
Þar sem snjór og slabb er viðvarandi ástand nánast allan veturinn hér á landi er mikilvægt að gallinn sé vel vatnsheldur svo barnið haldist þurrt. Á sumum göllum er auka vatnsheld styrking á álagssvæðum, eins og rassi, hnjám og olnbogum.

Mýkt
Það er mikill kostur að gallinn sé úr mjúku og léttu efni sem gerir barninu auðveldra fyrir að hreyfa sig þegar búið er að dúða það í mörg lög af fötum. Af sömu ástæðu henta gallar með víðu sniði litlum börnum betur.

28813 - strákur

Tvískiptur eða heill galli
Fyrir yngstu börnin er yfirleitt bara í boði að kaupa heilgalla, en þegar komið er upp í stærð 98 er oft hægt að fá tvískipta galla; snjóbuxur og úlpu. Foreldrar verða einfaldlega að vega og meta hvort hentar þeirra barni. Kosturinn við heilgallann er vissulega sá að enginn snjór kemst upp undir úlpuna eins og getur gerst þegar gallinn er tvískiptur. Þá er auðveldara fyrir barnið sjálft að klæða sig eina flík heldur en tvær. Kosturinn við tvískiptan galla er að notagildið er meira, þar sem hægt er að nota úlpuna sér.

Rennilás
Eins einkennilega og það kann að hljóma þá er gott að huga vel að því hvernig rennlás er á nýja gallanum. Það er til dæmis mikill kostur, sérstaklega fyrir yngstu börnin, ef gallinn er tvírenndur, með tveimur rennilásum að framan, frekar en einum. Bæði er það auðveldara fyrir barnið að fara sjálft í gallann og foreldrana að klæða það. Þá eru líka minni líkur á því að rennilásinn nuddist við hökuna eða hálsinn og barnið meiði sig. Það er líka kostur ef hægt er að renna upp skálmunum á gallanum til að auðveldra sé fyrir barnið að fara í skó.

Stroff
Gott er að huga að stroffinu á gallanum. Er það of vítt eða of þröngt. Of þröngt stroff getur valdið erfiðleikum þegar kemur að því að klæða barnið í þykkar lúffur og heft hreyfingar barnsins. Of vítt stroff getur hins vegar gert það að verkum að ermarnar á síga fram fyrir hendur barnsins, sérstaklega ef gallinn er í stærra lagi. Þá eru meiri líkur á því að snjór komist inn í gallann.
KULDASKÓR

Mikilvægt er að vanda valið á kuldaskóm fyrir börn, ekki síður fyrir þau yngri en eldri. Börnin eru í þessum skóm allan veturinn og þeir þurfa því að vera þægilegir og hlýir. Nú er líka hægt að fá loðfóðruð stígvél sem sumir kaupa í staðinn fyrir kuldaskó. Ókosturinn við slík stígvél er hins vegar sá að börnunum er hættara við að svitna á fótunum þar sem þau anda minna.
Vatnsheldni
Númer eitt, tvö og þrjú þurfa skórnir að vera vel vatnsheldir í slabbinu og snjónum. Gott er að spreyja skó með sílíkonvörn áður en þeir eru notaðir í fyrsta skipta og svo reglulega yfir veturinn. Við það eykst vatnsheldnin og ending verður betri.

Stærð
Gott er að kaupa kuldaskó vel stóra svo hægt sé að vera í ullarsokkum í þeim. Þá vaxa litlir fætur líka hratt og skórnir þurfa helst að passa út veturinn.

Sóli
Grófur sóli er mikilvægur svo barnið renni ekki í hálkunni. Þá er gott ef sólinn nær aðeins upp á sjálfan skóinn til að auka vatnsheldnina enn frekar.

Stuðningur
Það er mikill kostur ef skórnir veita fætinum góðan stuðning og eru ekki of harðir, annars er hætt við að barninu verði illt í fótunum.

28813 - stelpur

Ullarfatnaður
Það er fátt betra innan undir kuldagallann en góður ullarfatnaður. Hann heldur hita á barninu jafnvel þó gallinn nái að blotna í gegn. Best er að hafa ullina sem næst líkamanum og því eru aðsniðin ullarföt, sem hægt er að klæðast innanundir fötum, hentugust. Lopapeysurnar standa líka alltaf fyrir sínu, en barninu gæti þó orðið of heitt að vera í slíkri peysu innanundir kuldagallanum. Það verður að vega og meta eftir veðri og hitastigi hverju barnið klæðist innan undir kuldagallanum.

Húfur
Mikilvægt er að barninu sé hlýtt á höfðinu og þar kemur ullin sterk inn. Lambhúshettur eru góður kostur á veturna enda koma þær í veg fyrir að kuldinn nái að smjúga ofan í hálsakotið á litlum krílum. Þá haldast þær vel á höfðinu og eru ekki líklegar til að detta af þrátt fyrir mikinn ærslagang. Hægt er að fá mjúkar lambúshettur úr ull sem stinga ekki í fjölmörgum barnafata- og útivistarverslunum.

28813 - krakkar
Vettlingar
Það er mjög vont þegar litlir fingur verða kaldir, þess vegna eru góðir vettlingar eða lúffur alveg nauðsynlegar í vetrarkuldanum. Ullarvettlingar standa alltaf fyrir sínu, eru hlýir og góðir. Ókosturinn við þá er hins vegar sá að snjórinn vill festast við ullina og barnið fær hramma eins og snjómaðurinn ógurlegi, eftir smá leik í snjónum. Þá blotnar ullin í gegn, þó hún sé hlý og fljót að þorna. Vatnsheldar lúffur eru því góður kostur í kulda og bleytu. Hreyfigeta fingranna verður vissulega minni en þeir haldast þurrir og minni líkur á því að þeir verði kaldir. Þar fyrir utan er miklu auðveldara að hnoða snjóbolta í góðum lúffum en ullarvettlingum.

 

SHARE