Grænir hýrlingar og dívur á Hinsegin dögum

Hinsegin dagar í Reykjavík hófust í gær, en þrír viðburðir voru á dagskrá gærdagsins og voru þeir allir vel sóttir. Hátíðin hófst með blóðgjöf, því næst mætti blaklið Styrmis liði borgarfulltrúa, en hinir síðarnefndu lutu í lægra haldi​ og loks var heimildarmyndin Intersexion sýnd fyrir troðfullum sal í Bíó Paradís.

 

Hátíðin heldur áfram með pompi og prakt í dag en nú á töluvert menningarlegri nótum. Klukkan 17:00 mun Hjörtur Þorbjörnsson forstöðumaður Grasagarðsins leiða göngu um garðinn þar sem farið verður yfir hinsegin sögu og tengingar við plönturíkið en finna má fjölmargar plöntur með tengingu í hinsegin sögu og þjóðtrú, allt frá tíð Forn-Grikkja til nútímans.

 

sundhöllin

 

Klukkan 20:00 í kvöld standa Hinsegin dagar fyrir tónleikunum Dívur og dýfur í Sundhöll Reykjavíkur. Þar munu dívurnar Elín Ey, Helga Möller, Felix Bergsson og Josefin Winther stíga á stokk á bakka laugarinnar á meðan sundgarpar taka dýfur af brettinu. Tónleikagestir geta notið ljúfra tóna í notalegu umhverfi, hvort sem er úr lauginni eða af bakkanum. Miðaverð er 1.500 kr. en forsala miða fer fram í Kaupfélagi Hinsegin daga, Suðurgötu 3, sem opið er milli kl. 12 og 20.

 

helgamöller

 

Á morgun fimmtudag standa Hinsegin dagar fyrir tveimur fræðsluviðburðum á Loft Hostel. Auk þess fer opnunarhátíð Hinsegin daga fram í Hörpu annað kvöld en þar kemur meðal annars fram Willam sem að undanförnu hefur notið mikilla vinsælda víða um heim eftir þátttöku í þáttunum RuPaul’s Dragrace. Enn má tryggja sér miða á opnunarhátíðina á www.harpa.is og í Kaupfélagi Hinsegin daga.

SHARE