Grænmetisbuff með gulrótum og jógúrtsósu – Uppskrift

Alltaf svo gaman af svona hollum og góðum réttum. Hér er ein uppskrift frá vefsíðunni EvaBrink.com

img_4517

Grænmetisbuff með gulrótum og hvítlaukssósu

Buffin:
18-20 stk. gulrætur
8 stk. brauðsneiðar
2 fersk chili-aldin
10 stk. fínt saxaðir vorlaukar
100 gr. furuhnetur
2 egg
4 kreist hvítlauksrif
6 msk. söxuð steinselja
Hveiti
Chiliduft

Skerið gulræturnar í tvo hluta og gufusjóðið (eða sjóðið í potti) þar til þær eru soðnar í gegn. Á meðan er skorpan skorin af brauðsneiðunum og þær rifnar smátt ofan í skál. Saxið chili-aldinið smátt niður en ef þið viljið ekki að buffin verði sterk mæli ég með að þið kjarnhreinsið þau fyrst. Bætið restinni af hráefnunum ofan í skálina og blandið saman. Þegar gulræturnar hafa soðnað í gegn eru þær maukaðar og settar ofan í skálina. Kryddið með chilidufti eftir smekk en passið ykkur þó á því að setja ekki of mikið.

Setjið hveitið ofan í skál. Mótið buffin (ca. 15 stk.), veltið þeim upp úr hveitinu og steikið svo upp úr olíu á pönnu í ca. 5 mínútur á hvorri hlið eða þar til þau hafa brúnast vel. Berið gjarnan fram með jógúrtsósu og salati.

Jógúrtsósa:
180 gr. hreint jógúrt
180 gr. sýrður rjómi
1 tsk. borðedik
3/4 af gúrku
1 stk. fínt saxaður vorlaukur
2 kreist hvítlauksrif
1/6 af sítrónu (einn bátur)
Ca. 3 msk. feta-ostur
1 tsk. oregano
Salt og pipar

Takið hýðið af gúrkunni, skerið kjarnann úr, saxið smátt og setjið ofan í skál. Bætið jógúrtinu, sýrða rjómanum, borðedikinu, saxaða vorlauknum og hvítlauksrifunum ofan í. Stappið feta-ostinn örlítið með gaffli og bætið honum svo ofan í. Kreistið safann úr sítrónubátnum og rífið sítrónubörkinn ofan í. Hrærið vel og bætið oregano-inu við. Kryddið með salti og pipar eftir smekk. Kælið yfir nótt eða í a.m.k. 6 klst. Æðisleg sósa sem kemur vel út með nánast hvaða rétti sem er!

img_4525

img_4530

SHARE