Greindist með krabbamein og er alveg tekjulaus í dag – Veikindi og Tryggingastofnun

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

 

Þannig er mál með vexti að ég veikist alvarlega núna fyrir bráðum 8 vikum, greinist með krabbamein. Ég hafði áður verið verktaki og hafði því haft stopular tekjur en alltaf náð endum saman.

Í dag er ég alveg tekjulaus þar sem TR tekur sér allt að 8 vikum til að greina hvort ég eigi rétt á tryggingarbótum einhvers konar sem ég hefði haldið að væri borðleggjandi þar sem um mjög alvarlegt krabbamein er að ræða. Nei þeir þurfa að meta hvort ég sé virkilega óvinnufær.

Ég er búin að selja allt sem getur talist aukreitis hjá mér og lifi mjög svo einföldu lífi, bíllinn var seldur fyrir leigunni þennan mánuðinn, enginn fékk jólagjafir frá mér og svo framvegis.
Að sjálfsögðu get ég verið afskaplega vitur eftir á og bölvað sjálfri mér í sand og ösku fyrir að hafa ekki lagt fyrir meira þegar ég gat en það vill svo til að ég tæplega þrítug sá aldrei fram á að veikjast og lenda í þessari aðstöðu. Skil núna þegar eldra fólk segir þegar ég var ung/ur og ósigrandi.
Ég hef alltaf verið dugleg og unnið, borgað mína skatta og svo framvegis en finnst mjög erfitt að vera jákvæð í kringum þennan langa afgreiðslufrest TR. Reyni samt alltaf að vera jákvæð. Ég er með góðan viðskiptabanka sem hefur þó getað teygt sig þannig að greiðslur og annað er ekki komið í alvarleg vanskil.
Tilgangurinn með þessum skrifum er hreinlega hvað útskýrir þennan langa afgreiðslutíma hjá TR?

Vona svo sannarlega að þetta komi ekki út sem einhver væll enda ekki meint þannig, örugglega margir í sambærilegri aðstöðu eða verri.

SHARE