Grilluð tikka masala kjúklingapizza – Uppskrift

img_1666Ég er ákaflega spennt að setja inn þessa uppskrift en í henni mætast tveir gómsætir matarheimar, sá ítalski annars vegar og hins vegar sá indverski. Þeir sem hafa prófað að grilla venjulega pizzu á útigrilli vita hversu góðar slíkar pizzur eru. Hér nota ég naan-brauð sem botn og ofan á þennan indversk ættaða pizzubotn bjó ég til gómsæta indversk/ítalska pizzusósu og  karamelluseraðan lauk. Einnig setti ég á naan-pizzuna papriku, mozzarella ost og tikka masala kjúkling auk tandoori kjúklings. Með þessum fáu hráefnum og einföldu matargerð skapaði ég himneskar naan-pizzur sem bæði börn og fullorðnir á heimilinu kolféllu fyrir. Naan pizzurnar eru ljúfengar á bragðið og það kemur á óvart hversu vel passar að nota naan brauðin sem pizzubotn. Með því að grilla brauðin fæst gómsætur botn sem er passlega mjúkur í miðjunni, með mátulega stökkum köntum og smellpassar við áleggið. Ég prófaði að nota bæði tikka masala kjúkling og tandoori kjúkling.

img_1573

Hráefnið í Tandoori pizzuna

Hvor tveggja var ákaflega gott, mér fannst fyrrnefnda útgáfan aðeins betri en það voru skiptar skoðanir í fjölskyldunni hvor sósan væri betri. Það tekur smá tíma að karamellusera laukinn en það er alveg þess virði, bragðið af honum verður svo sætt og gott.

img_1632 (1)

Tandoori kjúklingapizza

Ég er mikið búin að nota innfluttan frosinn kjúkling frá Rose Poultry undanfarið. Þegar ég bjó í Svíþjóð notaði ég alltaf frystan kjúkling og fannst hann afar bragðgóður en umfram allt meyr. Mér finnst kjúklingurinn frá Rose Poultry í sambærilegum gæðaflokki, hann er ofsalega mjúkur og meyr. Svo finnst mér æðislega þægilegt að eiga alltaf frystar kjúklingalundir, úrbeinuð innanlæri eða aðra kjúklingabita tilbúna í frystinum. Kjúklingalundirnar þiðna á örskömmum tíma og þær smellpassa á þessar gómsætu naan-pizzur.

kjc3baklingur1

Uppskrift fyrir 4-5:
  • 700 g kjúklingalundir (ég notaði 1 poka af frystum kjúklingalundum frá Rose Poultry)
  • 1/2 krukka Tandoori paste eða Tikka masala paste frá Patak’s
  • 1/2 dós grísk jógúrt (eða ca. 170 g)
  • ca 1 1/2 msk ólífuolía
  • 2/3 tsk salt
  • 1 stór laukur
  • 1/2 dós niðursoðnir tómatar (ca. 200 g)
  • 1/2 rauð paprika
  • ca. 200 g rifinn mozzarella ostur
  • 3 Naan brauð (ég notaði “garlic & coriander” naan brauð frá Patak’s)
  • ólífuolía til að pensla naan brauðið
Kjúklingalundirnar eru afþýddar og skornar í hæfilega stóra bita. Tandoori eða tikka masala maukið og gríska jógúrtin eru hrærð saman í skál og kjúklingnum blandað út í. Látið standa við stofuhita á meðan laukurinn er skorinn í sneiðar og paprikan skorin í fremur þunna strimla. Ólífuolía er sett á pönnu eða í pott við meðalhita og lauknum og saltinu bætt út í. Laukurinn er látinn malla við vægan hita í ca. 20-30 mínútur. Lauknum er snúið reglulega, hann á að brúnast en ekki brenna. Olíu er bætt við ef með þarf og jafnvel örlitlu vatni. Á meðan laukurinn mallar er kjúklingurinn í sósunni steiktur upp úr ólífuolíu á pönnu þar til hann er steiktur í gegn. Þá er kjúklingurinn veiddur af pönnunni en eins mikið af sósunni og hægt er, skilin eftir á pönnunni. Tómötunum er bætt út á pönnuna og þeir hrærðir vel saman við sósuna. Sósan er látin malla við meðalhita í nokkrar mínútur þar til hún hefur þykknað dálítið. Naan brauðið er smurt með ólífuolíu á báðum hliðum og sett á grillið í 2-3 mínútur á hvora hlið við góðan hita eða þar til grillrenndur eru komnar í brauðið.
Þá er brauðið tekið af grillinu og það er smurt með sósunni. Því næst er sett dálítið af rifnum osti, þá er kjúklingnum dreift yfir, því næst lauki og papriku og endað á rifna ostinum.
Naan-bauðið er sett aftur á grillið og slökkt undir þeim brennara sem er beint undir brauðinu en annar og/eða þriðji brennarinn stilltur á fremur háan hita. Grillinu er lokað og naan-pizzan grillað í um það bil 8-10 mínútur. Fylgast þarf með hitanum og færa bauðið til ef það fer að verða of dökkt. Njótið!
img_1650
Tikka masala kjúklingapizza
Hér er smá myndasería af pizzugerðinni:
img_1583
Naan-brauðið grillaðimg_1596
Smurt með tikka masala sósu
img_1584
eða tandoori sósu
img_1605
Rifnum osti dreift yfir sósuna og því næst kjúklingnum
img_1607
Þá er lauk og papriku dreift yfir (gott að hafa meiri lauk en á myndinni).
img_1593
Það er endað á rifnum osti
img_1645
Grillað við óbeinan hita í ca. 10 mínútur
img_1666
Njótið vel!

 

SHARE