Grunaður um að hafa banað eiginkonu sinni í nótt

28 ára gamall karlmaður situr nú í varðhaldi lögreglu, grunaður um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana í Stelkshólum í Breiðholti í nótt.

Talið er að maðurinn hafi þrengt að öndunarvegi konunnar þannig að hún lést. Þetta kemur fram á fréttavefnum Vísi.

Á Vísi kemur einnig fram að maðurinn hafi haft samband við annan aðila skömmu eftir miðnætti í nótt, en sá lét lögreglu vita samstundis. Við komu lögreglu á vettvang vaknaði strax grunur um að andlát konunnar hefði borið að með saknæmum hætti.

Yfirheyrslur yfir hinum grunaða standa nú yfir og lögð verður fram krafa um gæsluverðahald seinna í dag.

Tvö börn þeirra hjóna voru á heimilinu, en þau eru tveggja og fimm ára gömul og hefur þeim verið komið í viðeigandi umönnun hjá barnaverndaryfirvöldum.

Konan sem lést var 26 ára gömul.

SHARE