Grunnurinn að góðri heilsu er jákvætt hugarfar og heilbrigt líferni

Nýtt ár er gengið í garð og margir farnir að huga að því að koma heilsunni í lag. Rykinu er dustað af íþróttaskónum og innkaupakörfurnar fylltar af ávöxtum og grænmeti. En þó að mataræði og hreyfing hafi gríðarleg áhrif á heilsufar okkar gleymist oft mikilvægasti þátturinn, hugurinn. Hugurinn er ekki síður mikilvægur þáttur til að koma heilsunni í gott horf en hreyfing og mataræði.

„Þú ert það sem þú borðar“, hafa eflaust margir heyrt, en færri kannast sennilega við „þú ert það sem þú hugsar“. Tenging hugar og líkama er enn mörgum ókunnug og einnig hvernig hugurinn hefur áhrif á heilsuna. Allt of margir hugsa aðeins um líkamann þegar kemur að heilsufari og vinna því með það sem snertir líkamann þegar heilsan brestur. Hver kannast ekki við að leita sér lækninga einungis með lyfjum þegar kemur að streitu einkennum eins og vöðvaspennu, höfuðverk, hækkuðum blóðþrýstingi og jafnvel exemi, magavandmálum og síendurteknum pestum, svo dæmi séu nefnd? Fæstum dettur í hug að með því að vinna með hugann geti þeir stórdregið úr einkennum og jafnvel náð fullum bata. Það er því ásetningur minn með þessari grein að útskýra hvernig hugur og líkami tengjast og hvernig við getum, með því að vinna með hvoru tveggja, unnið gegn sjúkdómum og bætt heilsuna.

  • Prófaðu að loka augunum og hugsaðu um eitthvað sem veldur þér áhyggjum. Haltu í hugsunina og taktu eftir því hvernig tilfinningar þínar breytast. Ef þú heldur lengi í hugsunina finnur þú eflaust fyrir því hvernig líkaminn bregst við. Hugsunin kemur af stað framleiðslu á ákveðnum efnum sem tengjast tilfinningum þínum, svonefndum „neuropeptides“.Þessi efni berast síðan með blóðinu og tengjast umfrymi frumanna þar sem þau hafa áhrif á starfsemi þeirra. Sumir finna fyrir hnút í maganum, ógleði, spennu í öxlum og jafnvel auknum hjartslætti. Allt eru þetta viðbrögð líkamans við hugsuninni um áhyggjurnar. Þau áhrif sem þú upplifir eru þó smávægileg miðað við það sem er að gerast innra með þér. Streituhormónin bæla ekki einungis niður ónæmiskerfið, þau hafa líka áhrif á efnaskipti líkamans, heilastarfsemina; niðurbrot á vöðvum á sér stað, kólesteról- og insúlínframleiðsla eykst og hættan á að fá margar tegundir sjúkdóma eykst um leið. Samkvæmt World Health Organization, WHO, tengjast 75% allra sjúkdóma streitu á einn að annan hátt, sem þýðir að flesta sjúkdóma megi tengja andlegri vanlíðan.
  • Til að upplifa hið gagnstæða skaltu loka aftur augunum og í þetta skipti hugsa um eitthvað sem vekur með þér gleði. Ein leið er að minnast hamingjustunda sem eru þér kærar. Því meira sem þú manst af smáatriðum, því meiri áhrif hefur það á tilfinningarnar, og þar með á framleiðslu á „neuropeptides“, efnunum sem minnst var á áður. Yfirleitt tekur það ekki meira en nokkrar sekúndur að finna hvernig tilfinningarnar breytast en því lengur sem þú heldur í minninguna og því skýrari sem hún er, því sterkari verða tilfinningarnar. Á sama hátt og streitan eða neikvæðar hugsanir hafa áhrif á líkamsstarfsemina hafa jákvæðar hugsanir það líka, en á annan hátt. Í stað þess að framleiða streituhormón fer líkaminn að framleiða hamingjuhormón sem byggja upp ónæmiskerfið, líkamsstyrk og hafa almennt jákvæð áhrif á líkamann og heilsuna.

Niðurstaða:

Grunnurinn að góðri heilsu er jákvætt hugarfar og heilbrigt líferni. Þú getur því ekki aðeins einblínt á annaðhvort líkamann eða hugann til að bæta heilsuna. Að rækta líkamann án þess að rækta hugann er hálfunnið starf og skilar litlum árangri. Fyrir utan að hafa áhrif á alla líkamsstarfsemina hefur hugurinn líka áhrif á hvað við erum tilbúin að leggja á okkur til að bæta heilsu og hreysti. Drifkrafturinn sem kemur okkur af stað inn í heilbrigt lífsmunstur er algjörlega hugarfarinu háð sem gerir hugrækt mikilvægasta þáttinn í bættri heilsu og betri líðan.

Höfundur: Helga Marin Bergsteinsdóttir.

Helga Marin er heilsu og íþróttafræðingur,sem búsett er í Dubai er komin hingað til lands í stuttan tíma til að vera með fyrirlestra og námskeið. Síðustu þrjú skipti sem Helga var á landinu hélt hún yfir 90 fyrirlestra og námskeið með metaðsókn.  Helga rekur sitt eigið fyrirtæki, Health, Mind and Body í Dubai og hefur unnið sér þar sess sem þekktur heilsufræðingur fyrir þær óhefðbundnu leiðir sem hún fer.  Helga hefur útbúið fjölda námskeiða sem fyrirbyggja og veita lausnir gegn sjúkdómum, sjálfseflingarnámskeið, streitu-lausnir og aðhaldsnámskeið.

SHARE