Guði sé lof að nær enginn skilur íslensku!

Ég varð svo undrandi þegar umræðuna bar upp í heimalandi mínu rétt fyrir nýyfirstaðnar sveitarstjórnarkosningar að lengi vel trúði ég ekki mínum eigin augum. Taldi víst að fámennur öfgahópur með afbakaðar skoðanir hlyti að vera að hefja upp raust sína; að fljótlega yrði umræðan skotin í kaf af siðmenntuðum meirihlutanum.

 

Að orð mín myndu engu skipta. Ég lagði engan trúnað á að kjarni umræðunnar væri byggður á svo frumstæðum grunni að upplýst inngrip af minni hálfu gæti mögulega haft áhrif. Sjálf er ég búsett i útjaðri norrænnar höfuðborgar – þar sem innflytjendur frá öllum heimshornum eru í yfirgnæfandi meirihluta og öllum trúbrotum heims ægir saman á ágætum sumardegi á leikvöllum, skrúðgörðum og verslunarmiðstöðvum.

 

Leyfið mér að setja þetta fram á aðgengilegu mannamáli:

 

„Ég er N-evrópsk, kristin, einstæð móðir og er búsett er í annáluðu múslimahverfi innan norrænnar höfuðborgar. Þar sem hvítar konur í aðsniðnum klæðum fara vart á stjá og hefðbundinn höfuðklæðnaður arabískra hvenna (hijab) er algengari ásýndar en blásið hár, stutt pils, gloss á vör og fastar fléttur”.

 

Sjálf kæri ég mig kollótta um siðferðislegar reglur um val á klæðaburði, ég á gnægð af aðsniðnum gallabuxum, ég set á mig slæðu ef það á við og gott ef í klæðaskápnum leynast ekki líka stutt pils. Áður en ég festi kaup á bíl sat ég gjarna við hlið kvenna í skósíðum kuflum í lestinni og hvorugri okkar þótti að siðferði okkar vegið.

 

„Konurnar á leikskólanum” eru af ólíku bergi brotnar. Þar starfar fagfólk af norrænum, arabískum, afrískum og evrópskum uppruna. Konur með slæður og konur með slegið hár. Börnin og foreldrarnir eru af ólíkum uppruna; sjálf er ég af norrænu bergi brotin og fell einnig undir hóp „útlendinga” í höfuðborginni. Ég er íslensk, af heiðnum uppruna en kristinnar trúar. Sonur minn er hugfanginn af Jésú og hefur oftar en ekki tekið Jésú-glansmyndir með sér á leikskólann, þar sem Múhameð spámaður á einnig öruggt athvarf.

 

Á leikskóla sonar míns er nefnilega rými fyrir alla. Við Rassi litli héldum sannkristin jól hér í norska ævintýraskóginum fyrir skömmu og „leikskólakonurnar” sem sumar hverjar eru af arabískum uppruna og aðhyllast orð Múhameðs tóku þátt í jólaföndri barnsins. Með gleði í hjarta, bros á vör og einlæga umhyggju fyrir persónulegu trúfrelsi að leiðarljósi.

 

Á vinnustað mínum einum má finna einstaklinga frá flestum heimshlutum, fólk með ólíkan menningarlegan bakgrunn og fjölbreyttar trúarskoðanir. Ég snæði hádegisverð fimm daga vikunnar með kristnum, heiðingjum, múslimum, iðkendum búddatrúar, gyðingum, Vottum Jehova og svo meðlimum rétttrúnaðarkirkjunnar.

 

Innan sjálfrar borgarinnar má finna bænahús sem hýsa flest trúarbrögð heims. Hér standa kristnar kirkjur keikar við hlið bænahúsa múslima, í Osló má finna Orthodox kirkjuna (Rétttrúnaðarkirkjuna) – hér biðja Gyðingar við hlið Búddista, Kaþólikkar halda sín boðorð í heiðri og svona mætti lengi telja.

 

Enginn hefur nokkru sinni brugðist harkalega við tilvísunum mínum í Guð kristinna manna.

 

Stolt hef ég ítrekað greint frá þjóðerni mínu yfir ristuðu brauði og kaffi, í félagi við fulltrúa fyrrgreindra trúarbrota og það oftar en ég kæri mig um að muna. Ég komi frá eyjunni í norðri, segi ég oft og vísa til skyldleika norskrar þjóðtungu og svo íslenskunnar, sem er óumdeilanlega elsta tungumál álfunnar.

 

Ég kann að segja „flýttu þér” á arabísku (Borið fram: JALLE!) og kenndi vinnufélaga mínum, sem er frá Pakistan og drekkur te við hvert tækifæri, að segja „Já” á hreinni íslensku fyrir stuttu. Við deilum gjarna munntóbaki, flissum ofan í vinnuklæðnaðinn og reykjum stundum eina sígarettu bak við hús á góðviðrisdögum. Hann drekkur áfengt öl við hátíðleg tækifæri, sanntrúaður músliminn en bragðar ekki á svínakjöti. Og raular stundum lagstúfa úr þekktum Bollywood myndum meðan við tuðrumst gegnum verkefni dagsins.

 

Vegna alls þessa gaf ég honum viðurnefnið „Arabíska Þjóðlagatónlistin”.

 

Hann hefur litla humynd um hvar Ísland er. „Hjá Grænlandi” útskýrði ég fyrir stuttu. „Mjög kalt” bætti ég svo við og hló. „Mjög heitt í Pakistan” svaraði hann mér á brotinni norsku. „Allir drekka te. Alls staðar. Matur á borðum í hverju húsi. Segðu frá ef þér langar að heimsækja landið. Ég verð leiðsögumaður þinn”.

 

Þess vegna varð ég svo undrandi þegar umræðuna bar upp í heimalandi mínu rétt fyrir nýyfirstaðnar sveitarstjórnarkosningar að lengi vel trúði ég ekki mínum eigin augum þegar ég renndi augunum yfir fréttamiðla í heimalandi mínu. Taldi, eins og segir hér að ofan, víst að fámennur öfgahópur með afbakaðar trúarskoðanir hlyti að standa að baki umræðunni, sem hlyti að vera skotin í kaf af upplýstum meirihlutanum.

 

Það væri með öðrum orðum ekki á mínu valdi að fræða fávísan almenning; að Íslendingar væru heimsborgarar upp til hópa, víðsýnir einstaklingar sem, með umburðarlyndi að leiðarljósi og næman skilning á fjölbreytileika mannlífsins og af takmarkalausri virðingu fyrir persónulegu vali hvers einstaklings gætu hæglega greint á milli þess sem telst til „mannréttindabrota” á grundvelli   persónulegu vali á Guðstrú og þá einnig á einstaklingsbundnu vali á klæðaburði.

 

Níðyrðin „Gúrka” og „Moskva” hafa þó flögrað fyrir augunum á mér undanfarna daga; dansað gegnum fréttaveitu Facebook – orð sem hrundið hafa af vörum kærra vina sem heimalandið hýsir; ástkær fósturjörðin, íslensk grund sem ég sárt sakna.

 

Og ég skammast mín. Þegar ég mæti til vinnu hvern dag. Með kristna Guðstrú í hjarta; brennandi áhuga á landfræðilegum staðreyndum um fjarlægar heimsálfur og næsta eðlilegt umburðarlyndi fyrir persónulegu trúarvali annarra einstaklinga.

 

Hvernig á ég að útskýra fyrir forvitnum vinnufélögum mínum af arabískum uppruna, fylgjendum Múhameðs spámanns að „múslimar séu ekki velkomnir til heimalands míns” – að þeim væri hollara að halda sér á meginlandi Skandinavíu, innan landamæra þeirra norrænu þjóða sem lengra eru á veg komnar og hafa næmari skilning á einstaklingsbundu vali hvers og eins til trúariðkunar?

 

Á ég kannski að segja „Hey, ekki koma til Íslands – félagar mínir þola ekki múslima.”

 

Fyrirverð mig fyrir opinbera umræðuna í heimalandi mínu og þakka mínum kristna Guði fyrir að íslenskan er ein elsta þjóðtunga Norðurlanda í dag, að orðin eru ekki skiljanleg nema í augum örfárra sem hafa lagt það þrekvirki á sig að læra flókna málfræðina til hlítar og skilja orðin sem látin eru falla í andlegu ölæði og það í skjóli heiftar, vanþekkingar og blóðþorsta.

 

Já, gott fólk. Ég sakna fóstjarðarinnar sáran. En að ég skuli að undanförnu hafa skammast mín fyrir einstrengingsleg viðhorf samlanda minna, sem einkennast af barnslegum bábiljum og skammarlegri fáfræði – að ég ekki lengur skuli vera stolt af þjóðtungu minni og meðför félaga minna á íslensku máli – að ég skuli fyrirverða mig fyrir viðhorf þeirra sem sumir standa mér næst. Og þakka Guði kristinna manna fyrir að vinnufélagar mínir skilja ekki orð í íslenskri tungu.

 

Því átti ég ekki von á þegar ég tók saman föggur mínar og flutti yfir hafið fyrir fáeinum misserum síðan.

 

SHARE