Gullfallegur samlokusími – Samsung Flip

Nýjasta ástin í lífi mínu, Samsung Flip síminn minn, er kominn á markað. Ég var auðvitað fljót að ná mér í hann enda hafði ég beðið hans með vandræðalega mikilli eftirvæntingu.

Fyrir þá sem eru ekki jafn miklir Samsung lúðar og ég, þá er Samsung Flip, ný týpa af snjallsíma sem er með alla kosti venjulegs snjallsíma og svo er hann líka gæddur þeim kosti að það er hægt að brjóta hann saman.

Ég var alltaf frekar veik fyrir „samlokusímum“ þegar þeir voru það flottasta á markaðnum, svo hjarta mitt tók smávegis aukaslag þegar ég sá þennan. Ég fékk mér ljósfjólubláan og Galaxy Bud heyrnartól í stíl. Já þið lásuð rétt. Ég ákvað að fara ekki í þennan venjulega og örugga svarta lit sem heillar okkur Íslendinga svo mikið og vera svolítið villt. Einhverjir kynnu að segja að þetta væri byrjunin á „midlife crisis“ en ég segi „piff, látið mig í friði!“

En víkjum okkur aftur að símanum. Það er ótal margt sem hægt er að elska við þennan síma. Ég er kona með smáar hendur en ég á ekki í neinum vandræðum með þennan. Þegar ég loka símanum er hann á stærð við púðurdós og það er algjör snilld. Passar í alla vasa og fer ekki neitt. Hann er líka breiðari/þykkari en venjulegur sími þegar ég loka honum, þannig að hann smýgur ekki svo auðveldlega upp úr vasanum eða hólfi á töskunni þó ég beygi mig.

Viðmótið elska ég en ég er alltaf með allt á hreinu því ég hef verið með Samsung í svo mörg ár. Ég gat notað það sem heitir „Smart Switch“ til að færa allt úr gamla símanum yfir í nýja símann og það er endalaust þægilegt. Legg bara símana hlið við hlið og þetta færist á nokkrum mínútum. Afskaplega einfalt!

Ég hélt að samskeytin myndu trufla mig, þ.e.a.s. þar sem ég loka símanum, kemur smá beygja inn á við í skjáinn. Það pirrar mig ekki neitt! Um leið og ég er með eitthvað á skjánum sést þetta ekki og ég tek ekkert eftir þessu. Ég er líka oft með hann svona hálfopinn því mér finnst það aðeins meira prívat þegar ég er í kringum mikið af fólki.

Það er lítill skjár á símanum þegar hann er brotinn saman og þessi litli skjár er svo frábær. Í fyrsta lagi, þá get ég notað hann þegar ég er að taka myndir af fólki. Þá smelli ég á lítið tákn í hægra horninu og þá sjá þeir/þær sem ég er að taka mynd af, sig á litla skjánum og geta „pósað“ eftir því. Það er eiginlega frekar fyndið að sjá fólk þegar það sér sjálft sig á skjánum. Lifnar yfir andlitunum og svo fara þau að pósa og brosa miklu meira en fyrir, áður en þau sáu sig á skjánum.

Hér má sjá símann í hulstrinu sem ég er með utan um hann til að verja hann.

Hitt sem er svo gott við þennan skjá er að ég get alltaf tékkað hvað klukkan er með því að setja fingurinn á skjáinn. Ég get alveg haft það þannig að klukkan sé alltaf á en mér finnst hitt bara meira „kúl“. Svo get ég verið með nokkur „widget“ á skjánum sem ég get notað án þess að opna símann. Þið verðið að afsaka orðið „widget“ en eina þýðingin sem ég fann af því orði var „græja“ sem mér finnst ekki alveg lýsandi fyrir það sem „widget“ er.

Ég get semsagt verið með hluti eins og dagatalið mitt, vekjaraklukku, Spotify og fleira á litla skjánum, sem ég get stillt án þess að opna símann. Dásamlegt! Svo auðvitað kemur allt upp á skjáinn sem ég þarf að vita hverju sinni eins og t.d. hver er að hringja, ef ég fæ snapp og skilaboð og fleira. Ég get svarað í símann án þess að opna hann ef ég er með „buds-in“ í eyrunum. Og talandi um þau, þá eru þau algjörlega geggjuð. Það er „noice canceling“ á þeim, sem ég var að dýrka um daginn þegar ég fór til Bandaríkjanna. Ég var bara að hlusta í flugvélinni og þegar ég tók þau úr eyrunum tók ég eftir hvað hávaðinn er ærandi í vélinni, en ég heyrði ekkert í henni með „buds-in“ í eyrunum. Maðurinn minn kvartaði reyndar stundum yfir því að ég heyrði EKKERT, því hann var kannski búin að halda 15 mínútna einræðu og bjóst svo við viðbrögðum frá mér, en ég var bara á kafi í einhverju sakamála- eða sagnfræðilegu hlaðvarpi.

Gæðin á myndunum sem ég tek með símanum eru líka stórkostleg, eins og sjá má á myndunum hér að neðan og möguleikarnir eru endalausir í myndavéla-forritinu.

Ég er því afar sátt með nýja gripinn og hann vekur mikla athygli hvar sem ég er.

SHARE