“Hæ! Sjáðu myndina af mér og segðu mér að þig líki vel við mig”

Fyrirsögnin segir ekki allt, en innihaldið segir meira.

Ég sit í herbergi með einhleypum vinum og vinkonum. Við erum að tala saman og það kemur örstutt þögn, sem er þó nógu löng til þess að fólk dregur upp símann sinn til að fylla upp í tómið. Tómleikatilfinningin og einskis virði tilfinningin er svo mikið rétt handan við hornið, að við þurfum að finna einhvern tilgang. Finnast við vera eitthvað sem við vitum ekki einu sinni hvað er eða hvað til þarf til þess að fylla upp í holuna sem virðist stundum vera botnlaus pyttur innra með okkur.

Sjá einnig: Barnið mitt fékk krabbamein

Vá, þetta hljóma aðeins of háfleygt, en bíðið aðeins við.

Þannig er nefnilega málið, já í stuttu máli, að við þurfum í sífellt auknum mæli, að fá meira og meira samþykki frá öðrum um ágæti okkar. Það sem við skiljum ekki er, að þeim mun meiri athygli og aðdáun sem við sækjumst í að fá frá öðrum, þeim mun minna álit hefur þú á þér, vegna þess að þú ert að gefa frá þér valdið af þér.

Hafið þið ekki tekið eftir því að sama hversu mikið þér er hrósað, þá er þitt eigið álit á sjálfum þér sem stjórnar líðan þinni? Ef aðdáun þín á þér krefst samþykkis frá öðrum, hvað ertu þá ef þú hefur ekki þetta pepp um að þú ert nógu góð eða góður?

Já, það sem hefur gefið mér þetta til umhugsunar er mín eigin innri vinna og lífsreynsla. Ég fattaði nefnilega að það er sama hversu oft mér eru færð falleg orð í minn garð eða einhverskonar aðdáun, þá er það eins og það skoppi um leið af mér og hverfi út í buskann og ég tek það ekki inn. En hvers vegna? Það er vegna þess að ef ég trúi því ekki sjálf, þá gagnast orðin, aðdáunin, hyllingin og hrósin mér ekki neitt. Ef það virkar, þá virkar það í hálfa mínútu.

Það sem ég er að meina er að þeim mun meira sem þú ert á samfélagsmiðlum að markaðssetja sjálfan þig eða í leit að einhverns konar hyllingu, þeim mun meira augljóst er að þú hafir ekki sömu aðdáun á þér.

Ég hef spurt nokkra í óvísindalegri könnun minni um það hvers vegna þau nota samfélagsmiðla til að markaðssetja sína persónu, eða þessa sem þau vilja að heimurinn sjái. Ertu í leit að skyndikynnum, ástarsambandi, ást lífs þíns, ertu að missa af einhverju, eða vantar þig bara smá egóbúst til að fleyta þér aðeins áfram út í daginn?

Samantekt mín leiddi í ljós að allir þeir einstaklingar sem ég hef talað við og nota þessa aðferð til að gleðja sig eða fylla upp í tilveruna sína, hafa töluvert tóm innra með sér. Sjálfsmat almennt lægra en þau sýna öðrum, treysta sjálfum sér og sínu áliti á sjálfum sér ekki nægilega mikið til að trúa því sjálf að þau séu þess virði að vera elskuð af öðrum eða sjálfum sér. Einmanaleikinn og tilfinning um að það gangi aldrei neitt upp hjá þeim, en óbilandi draumórar að einn daginn muni einhver koma og bjarga þeim úr þessari líðan, er ríkjandi –  þá verður allt svo æðislegt, er það ekki?

Sjá einnig: Kynferðisafbrotamenn í múgsefjandi smábæjum

Ég veit það ekki… en það eru fleiri en ein ástæða fyrir því að ég forðast að setja sjálfa mig sem val fyrir einhvern annan en sjálfa mig. Mér er nokkurn veginn orðið sama um það hvað öðrum finnst um mig, því mitt eigið álit skiptir mig meira máli og hefur það í rauninni alltaf verið þannig. Ég meðtók eða meðtek hrósin ekki ef ég trúi þeim ekki sjálf, en þá einmitt gerðist eitthvað innan í mér.

Það varð þannig að þegar mér varð sama um hvað öðrum fannst… eða svona innan venjulegra marka, þá hækkaði sjálfsmat mitt og fyrir mig varð það stór vinningur. Bara það að ég þurfti ekki að láta einhvern hrósa mér, dást að mér eða jafnvel girnast mig, til þess að vita mitt eigið virði er klárlega vanmetin líðan.

Ég hef sjálf átt í ástar/haturs sambandi við samfélagsmiðla. Ég er mikið á facebook, þó að ég segi kannski ekki allt sem gengur á í lífi mínu á veggnum mínum. Birti stundum selfies… einhverjar vel valdar og filteraðar og gervilegar til þess að upphefja sjálfa mig, vitandi að ég er ekki að kasta algjörlega sannri mynd af sjálfri mér út í kosmósinn. Ég hef náð í þetta “dásemdar app” Tinder nokkrum sinnum til að tjekka á því hvort að einhverjum finnist ég álitleg. Það gerist þó kannski þegar ég er einmitt ein og hálf tóm að innan , jafnvel með “ljótuna” og líka vegna þess að á þessari þöglu stund með vinum mínum, er það einmitt appið sem er opnað og ég hef viljað vera ekki eini einhleypi asninn sem er öðruvísi.

Sjá einnig: Samfélagsmiðlar og eftirsjá

Þetta verkfæri djöfsins, er sérhannað til að koma í veg fyrir að litlar sálir vaxi hreinlega. Ómægod, hvað þetta “hljómaði” eins og bitur röflandi kelling. En sem betur fer veit ég alveg að ég er ekki bitur og ég þarf ekki að gera eitthvað sem ég vil í rauninni ekki og finnst algjörlega stangast á við manneskjuna mig. Einu sinni var ég lítil og hafði ekki nógu mikla trú á sjálfa mig, svo ég varð að stóla á aðra til að halda mér á floti að svo mörgu leiti, en ætlaði ég að vera þannig bara að eilífu eða?

Hvernig mér líður þegar ég er á Tinder eða í sambærilegum aðstæðum, úti á djamminu eða í einhverjum öðrum tilviljanakenndum aðstæðum? Þar sem viðkomandi þekkir mig ekki og leyfir sér að segja sitt álit á mér eða láta í ljós girnd sína í minn garð? Ég er bara ekki einhver kökusneið fyrir ókunnuga til að smakka á og það er einmitt þess vegna sem ég fæ þessa glötuðu tilfinningu í magann minn þegar ég tek þátt í þessu.

Kannski kviknar hugmynd í kollinum á sumum sem hljómar svo þegar þau lesa þetta: “Ji, þessi á eftir að enda ein og fá sér ketti”, en það er ekki það sem ég held. Ég held að ef ég held áfram að vera sönn við sjálfa mig, að þá muni ég hreinlega laða að mér manneskjurnar sem ég vil hafa í lífi mínu. Mig finnst ekki og hefur aldrei fundist æðislegt að kyssa marga froska og í bili eru froskakossarnir ekki til á lager, því ég er búin að klára þá alla. Ef ég enda ein, þá get ég allavega huggað mig við það að ég þarf engan, en góð manneskja er alltaf plús í tilveruna. Allir hinir geta bara haldið áfram leit sinni að þeim sem þau halda að muni fullkomna sjálfan sig.

Tilgangurinn með þessum skrifum er að þið verðið að vita sjálf að þið eruð nógu góð. Að hafa traust og trú á sjálfum sér er, þegar allt kemur til alls, það eina sem þú þarft í lífi þínu. Það að vita að þú getur alltaf gert betur og sleppt því að hafa endalausan kvíðahnút og samviskupúkann hangandi yfir öxlinni þinni er gulls ígildi. Taktu ákvarðanir í takt við sjálfa/n þig og engan annan. Þitt eigið karma ert þú, algjörlega óháð öðrum. Flest fólk er fallegt og fegurðin kemur að innan og það vita allir sem láta sér fátt um finnast um skelina eða ytra byrðið.

Fegurðin kemur ekki í farða, filterum eða úr fjölmiðlum og það vill enginn vera innantómt krumpað gamalmenni. Lífið er meira en það og ekki eyða tímanum í að gefa öðrum vald yfir sjálfum þér.

SHARE