Heilsusamleg súkkulaðisæla

Helgin er nýliðin og allir heilsumegin í lífinu núna, ekki rétt? Þá er nú aldeilis bráðnauðsynlegt að geta gripið í hollan sætan bita – þessi uppskrift er fengin af blogginu hennar Tinnu Bjargar.  Þessi súkkulaðisæla er einföld, fljótleg og ægilega gómsæt.

Sjá einnig: Æðisleg frönsk súkkulaðikaka með hnetusmjörskremi

IMG_8140

Heilsusamleg súkkulaðisæla

200 g gróft hnetusmjör

100 g hunang

90 g kókosolía

1 1/2 tsk vanilludropar

3-4 msk kakó

140 g tröllahafrar

30 g kókosflögur

  • Bræðið saman gróft hnetusmjör, hunang, kókosolíu, vanilludropa og kakó. Athugið að blandan brennur auðveldlega við svo hafið hitann tiltölulega lágan verið dugleg að hræra. Takið pottinn af hellunni og blandið tröllahöfrum og kókosflögum vandlega saman við.
  • Ég brýt kókosflögurnar aðeins með fingrunum svo þær dreifist betur þannig að maður fái nú eins og eina litla kókosflögu í hverjum bita.
  • Þrýstið súkkulaðiblöndunni ofan í bökunarpappírsklætt form, ég notaði ílangt nestisbox, og kælið í ísskáp í 1-2 klst.
  • Óþolinmóða fólkið (ég) skellir sælunni bara inn í frysti í 30 mínútur.
  • Losið súkkulaðisæluna úr forminu og skerið í ferninga.
  • Raðið á fallegan disk og njótið með rjúkandi heitu kaffi í fallegum bolla. Það er betra fyrir sálina að drekka og borða af fallegum borðbúnaði, svo einfalt er það.
  • Mér finnst mjög mikilvægt að hafa hnetusmjörið gróft því hnetubrotin gera svo mikið fyrir súkkulaðisæluna. Í þessa uppskrift finnst mér best að nota Original hnetusmjörið frá Whole Earth. Hnetubrotin eru frekar stór og hnetusmjörið er gert úr hnetum með hýði svo það er dekkra og svolítið öðruvísi á bragðið.
SHARE