Heimafæðingar eru ekki endilega verri en spítalafæðingar – Pistill vegna umfjöllunar um heimafæðingar

Vegna umfjöllunar stöðvar tvö um heimafæðingar í vikunni, í kjölfar meingallaðrar bandarískrar rannsóknar um heimafæðingar og viðtals við Svein Kjartansson, barnalækni, get ég ekki orða bundist. Kem því hér með þennan langa pistil sem fáir nenna líklega að lesa: Ég vann á vökudeildinni í nokkur ár og skildi ekki heimafæðingar, ég sá bara veik börn. Hins vegar var það einfaldlega viðhorf sem ég ákvað að tileinka mér og datt ekki í hug að leggja mig fram um að kynna mér það neitt frekar. Svo fór ég í ljósmóðurfræði og þurfti svo sannarlega að éta ofan í mig mörg stóru orðin þegar ég lærði um lífeðlisfræði fæðingar og neyddist til að kynna mér rannsóknir og málin til hlítar. Ég get fullvissað ykkur um að ljósmæður, með sína 6 ára háskólamenntun eru fagmenn fram í fingurgóma en ekki kuklarar og fúskarar. Nú langar mig að benda á nokkur atriði.

 

1) Í þessu viðtali var Sveinn svo sannarlega ekki að tala af þekkingu, hvorki um bandarískt heilbrigðiskerfi, né fæðingar yfir höfuð. Hann færði engin haldbær rök fyrir máli sínu og leggur þarna allar fæðingar að jöfnu, áhættufæðingar sem og eðlilegar fæðingar. Það er ég ekki viss um að Sveinn hafi haft fyrir því að lesa margar rannsóknir um heimafæðingar á gagnrýninn hátt. Að bera saman bandarískt og íslenskt heilbrigðiskerfi er eins og að bera saman epli og appelsínur. Í USA var ljósmæðrum nánast útrýmt og koma þær einungis að 7-8% fæðinga þar. Því miður vegna þess og mismunandi löggjafa eftir fylkjum er menntun þeirra misjöfn. Heilbrigðiskerfið er þannig og misskipting mikil að sumar konur sjá sér ekki fært, fjárhagslega að fæða á sjúkrahúsi og jafnvel neita flutningi á sjúkrahús þegar ljósmæður telja að þær ættu að fara. Keisaratíðni er töluvert hærri en hér og fá konur sums staðar ekki að fæða eftir fyrri keisara og alls ekki ef þær eru með sitjanda. Þetta og svo margt annað í kerfinu þar fær konur til að gera skrítna hluti eins og að fæða heima í áhættufæðingu, jafnvel án þess að hafa nokkurn heilbrigðisstarfsmann sér til aðstoðar. Á Íslandi er menntun ljósmæðra hins vegar ákaflega góð og greiningarskilmerki fyrir heimafæðingu eru mjög skýr. Þau eru hraust kona, eðlileg meðganga, 37-42 vikur, sjálfkrafa sótt. Hjá þessum konum, staðfesta margar, vel unnar rannsóknir, skiptir fæðingarstaður ekki máli hvað varðar útkomu bæði mæðra og barna. Mjög mikilvægur punktur í þessu öllu er svo sá að ljósmæður taka enga áhættu í þessum efnum, ef eitthvað er ekki eins og það á að vera, fara þær með konur á sjúkrahús. Það er alveg óþolandi umræðan um að tölfræðin sé villandi varðandi góða útkomu heimafæðinga því að ekki sé tekið með þær sem eru fluttar á sjúkrahús. ÞAÐ Á EKKI AÐ TAKA ÞÆR MEÐ ÞVÍ ÞÆR FÆDDU EKKI HEIMA AF ÞVÍ AÐ LJÓSMÆÐURNAR MÁTU ÞAÐ SVO AÐ ÞAÐ VÆRI EKKI ÓHÆTT!!! Einnig umræðan sem maður heyrir hjá konum. “Ef ég hefði fætt heima, þá hefði ég eða barnið dáið” Margar þeirra kvenna sem tala þannig hefðu aldrei uppfyllt skilyrði til að fæða heima fyrir það fyrsta og svo eru fæðingar þeirra kannski uppfullar af inngripum sem þær gera sér enga grein fyrir að væru ekki heima og gera sér enga grein fyrir að eru líka áhættuþáttur fyrir slæmri útkomu fæðinga!!!

 

2) Þessi blessaða rannsókn sem búið er að hrópa upp titilinn á en enginn fjölmiðill leggur það á sig að lesa hana eða fá einhvern til að gera það fyrir sig sem hefur vit á málunum er líka alveg meingölluð. Ég veit um fagfólk, bæði ljósmæður og lækna(sem einnig eru vísindamenn fram í fingurgóma og engir sérstakir talsmenn heimafæðinga) sem hafa lesið hana vel og gefa ekki mikið fyrir þennan pappír. Vissuð þið til dæmis að í rannsókninni kemur fram að það er öruggara að fæða á sjúkrahúsi undir umsjón ljósmæðra en lækna!!! Þetta er hvergi hrópað upp!!! Einnig eru engar upplýsingar um það hvernig meðgöngueftirliti var háttað eða hvort þær voru yfir höfuð í eftirliti á meðgöngunni. Það kemur hvergi fram hvort áhættuþættir væru til staðar hjá konunum, hvernig eftirliti með börnunum var háttað í fæðingunni, hvernig aðstæður til sjúkraflutinga voru og ekki gerður greinarmunur á hvort börn voru dáin áður en fæðing hófst eða í fæðingunni.

 

3) Annað sem varðar inngrip. Því miður eru ekki allir læknar heldur sem gera sér grein fyrir áhættu inngripa. Ég hef lesið barnablað, skrifað af barnalækni sem skrifar “Gangsetning. Eðlileg fæðing án inngripa”. Kona sem hafði verið gangsett með tveimur tegundum lyfja og svo gert belgjarof. Þeir telja það ekki inngrip og heldur ekki epiduraldeyfinu. Hvað er rangt við það??

Ef við myndum skoða vel meðgöngu og fæðingarsögu hjá þeim börnum sem leggjast inn á vökudeild eftir fæðingu, er ég sannfærð um að það er ekki stór hluti þeirra sem flokkast undir heilbrigð kona í eðlilegri meðgöngu, 37-42 vikur, sjáfkrafa sótt …og engin inngrip! Það mikilvægasta er svo að þegar fæðing hættir að vera eðlileg, hættir hún að vera í heimahúsi því ljósmæður hafa lágan þröskuld fyrir að flytja þær á sjúkrahús.

 

4) Ekki misskilja mig. Ég elska lækna og sér í lagi barnalækna og fæðingalækna og gæti ekki hugsað mér að vera án þeirra þegar það á við. Ég ber fyrir þeim og þeirra störfum mikla virðingu og vildi óska að þeir bæru sömu virðingu fyrir mínum störfum og minni sérfræðiþekkingu á eðlilegu barnseignarferli.

 

5) Ég vil taka það fram að ég starfa ekki við heimafæðingar og hef þannig engra hagsmuna að gæta í þeim efnum. Það er mér heldur ekkert hjartans mál að konur fæði heima frekar en á sjúkrahúsi. Það er mér hins vegar hjartans mál að konur hafi val og að ekki sé yfir þær valtað. Einnig að þær fái tækifæri til að taka upplýsta ákvörðun, byggða á réttum upplýsingum en ekki sleggjudómum og tilfinningum.

 

6) Nú hef ég létt heilmikilli gremju af brjósti mér og vonast svo sannarlega til að umræðan um þessi mál verði málefnaleg og að talað sé af þekkingu og kunnáttu.

Með kærri kveðju, vinsemd og virðingu

Birna Málmfríður Guðmundsdóttir, ljósmóðir

 

SHARE