Mad Men leikkonan Alexis Bledel, sem margir muna líka eftir úr þáttunum Gilmore Girls sem nutu mikilla vinsælda hér á landi á sínum tíma, og eiginmaður hennar, Vincent Kartheiser, virðast vera snillingar að halda einkalífi sínu frá fjölmiðlum. Það er ekki nóg með að þau hafi gift sig í laumi árið 2014, heldur virðist þeim líka hafa tekist að halda því leyndu að hafa eignast barn síðasta haust. Um er að ræða dreng sem er orðinn sex mánaða, ef marka má orð Scott Patterson, mótleikara Bledel úr Gilmore Girls þáttunum, sem virðist hafa misst það út úr sér í viðtali við tímaritið Glamour að hún ætti barn.

Hann var að segja frá því hvað það hefði verið gott að sjá Bledel aftur þegar Gilmore Girls leikarahópurinn kom saman vegna fyrirhugaðrar endurkomu þáttanna á Netflix. „Hún hefur virkilega blómstrað sem kona síðustu ár. Nú er hún hamingjusamlega gift og orðin móðir,“ sagði Patterson í viðtalinu og hélt áfram: „Við höfum verið að bera saman bækur okkar því sonur minn er einu og hálfu ári eldri en hennar. Ég hef verið að sýna henni myndir og myndbönd af syni mínum til að leyfa henni að sjá hvers hún má vænta.“ Það er vonandi að þessi óvænta opinberun Patterson á einkalífi mótleikkonu sinnar verði ekki til þess að það kastist í kekki á milli þeirra.

 

SHARE