Hin fullkomna helgi með dætrunum

„Ef ég ætti að lýsa fullkominni helgi með dætrum mínum þá væri það bara venjuleg helgi þar sem við náum að vera sem mest saman fjölskyldan. Það eru bestu helgarnar,“ segir Árni Helgason, lögmaður og tveggja dætra faðir. Hann er duglegur að leika við dæturnar og taka virkan þátt í því sem þær eru að gera.

Beðinn um að lýsa dæmigerðri helgi nánar segir Árni að öfugt við það sem gerist á virkum dögum, þegar pabbinn vekur dæturnar, oft við litlar undirtektir, snúist taflið við um helgar.

„Sigga Dögg, konan mín, hefur undanfarið tekið upp á þeirri góðmennsku að vakna á undan mér um helgar og leyfa mér að sofa áfram. Þetta ástand fær að viðgangast þar til stelpurnar koma og vekja mig með látum og dagurinn byrjar. Við fjölskyldan reynum að vera dugleg að fara í sund og hjólatúra, sérstaklega núna þegar það er farið að hlýna aðeins og hitinn kominn alveg upp í 3-4 gráður, sem jafngildir íslenskri vorblíðu. Við förum stundum út á róló í Bakkagarði, sem er rétt hjá okkur, en þar er vinsælasta tækið klárlega aparólan og yfirleitt þónokkuð margar ferðir farnar í henni. Ég sjálfur fer yfirleitt nokkrar slíkar og læt reyna verulega á þanþol rólunnar – sem hefur haldið hingað til,“ segir Árni sposkur, en dætrunum finnst skemmtilegt að fylgjast með pabba leika sér í rólunni. „Svo reynum við að vera dugleg að hitta fjölskylduna, en stelpurnar eru svo heppnar að eiga ömmu og afa bæði í Vesturbænum og á Selfossi.“

Árni segir það gaman að upplifa hvað dæturnar dafni og þroskist hratt. „Sú eldri, Auður Freyja, er orðin 8 ára og er vinamörg og allajafna með nóg að gera en gefur sér þó alltaf tíma fyrir fjölskylduna. Við erum góðir vinir, spilum fótbolta saman og stundum sokka-handbolta, lesum saman og ræðum málin. Hún er athugul og stálminnug og fljót að reka mann á gat ef skýringar og svör eru ekki fullnægjandi. Sú yngri, Sólveig Katla, verður 3 ára í sumar og er ákaflega lífsglöð ung stúlka. Staðlað svar hennar við spurningunni um hvernig dagurinn hennar var er: „Mjög góður“ og yfirleitt fylgir með að hún hafi leikið við bestu vinkonu sína á leikskólanum,“ segir Árni.

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans

SHARE