Hjálpræðisherinn var stökkpallur aftur út í lífið

Hlín Einarsdóttir veit enn ekki hvort hún verður ákærð fyrir að senda fyrrverandi forsætisráðherra fjárkúgunarbréf á síðasta ári. Hún reynir að hugsa ekki of mikið um hvernig málið fer. Hægt og rólega hefur hún fikrað sig aftur út í lífið og er nú aftur farin að vinna við það sem hún elskar.

 

„Ég er á mjög góðum stað í dag. En ég var virkilega veik á þessum tíma og mjög langt niðri andlega. Ég glími við jaðar persónuleikaröskun sem getur orðið mjög slæm. En það er samt alls ekki afsökun,“ segir Hlín Einarsdóttir, ritstjóri Sykur.is, og vísar þar til atburðarásar sem átti sér stað fyrir ári þegar hún og Malín Brand sendu Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, fjárkúgunarbréf. Þær voru handteknar í kjölfarið og bíða þess nú hvort ákært verði í málinu eða ekki.

Langaði til að gera eitthvað

Skömmu síðar kom svo upp annað mál í tengslum við nauðgun sem Hlín segist hafa orðið fyrir af hálfu fyrrum samstarfsfélaga síns. Hinn meinti nauðgari kærði þær systur fyrir fjárkúgun en hann greiddi þeim sjö hundruð þúsund krónur fyrir að kæra sig ekki. Hlín lagði þó að lokum fram nauðgunarkæru á hendur honum. Bæði málin eru enn til rannsóknar.

Hlín hefur hins vegar ekki setið auðum höndum og beðið eftir málalyktum. Fyrst um sinn dró hún sig reyndar alveg í hlé, horfði ekki á fréttir og útilokaði sig alveg frá samfélaginu, en vissi að það gat ekki gengið til lengdar. Eftir að hafa dvalið á geðdeild í viku og fengið viðeigandi aðstoð fór hún á endurhæfingarlífeyri, enda metin óvinnufær. Hún hafði samt löngun til að gera eitthvað og leitaði sér að verkefnum.

Fékk ástæðu til að fara á fætur

„Það sem bjargaði mér í rauninni var að í september 2015 fór ég niður í Hertex, sem er nytjamarkaður Hjálpræðishersins, staðsettur rétt hjá heimili mínu, og bauð fram krafta mína. Ég veit ekki ennþá af hverju ég fór þangað, en verkefnastjórinn tók mér fagnandi og bauð mig velkomna. Ég hef nú verið í sjálfboðavinnu þar í marga mánuði og sinnt ýmsum verkefnum. Það var það sem kom mér aftur af stað. Ég hafði ástæðu til að fara á fætur og fara út úr húsi. Hjálpræðisherinn var minn stökkpallur aftur út í lífið. Svo þróaðist þetta þannig að ég fór meira að sinna markaðsstörfum heldur en að vera í versluninni. Út frá því fór ég svo að skrifa á Sykur.is, hjá Kvennablaðinu og nú er ég orðin ritstjóri þar,“ segir Hlín sem er mjög þakklát Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, ritstjóra Kvennablaðsins, fyrir að hafa trú á sér og hafa treyst henni fyrir þessu verkefni.

Dómari í spurningaþætti

„Ég er aftur farin að vinna við það sem ég elska. Vinnutíminn minn er sveigjanlegur og ég vinn mikið heima, sem styrkir sambandið við börnin mín. Ég held ég myndi ekki treysta mér í að vinna hefðbundinn vinnutíma, frá 9 til 5, ekki í dag,“ viðurkennir Hlín sem tekur jafnframt fram að hún sé dugleg að vinna í sjálfri sér og þiggja þá hjálp sem henni býðst.

Hlín tekur annars öllum verkefnum fagnandi og þau hafa ýmsum toga komið inn á borð til hennar á síðustu mánuðum. Hún fer til að mynda með hlutverk dómara í nýjum spurningaþáttum sem nefnast Ghettó betur og eru í umsjón Steinda jr. og verða sýndir á Stöð 2 í sumar, en í þáttunum gerir Hlín svolítið grín að sjálfri sér.

„Steindi hafði samband við mig og þetta er bara fyndið. Ég verð að geta hlegið að þessu. Ég hef mikinn húmor og hlæ mikið alla daga. Ef ég get gert grín að sjálfri mér svona þá er það bara gott.“

„Fólk horfir ekki undarlega á mig“

Aðspurð hvernig viðmóti hún hafi mætt frá fólki eftir atburðina síðasta sumar, segir Hlín ekki nokkurn mann hafa minnst á málið við sig. „Það er eiginlega alveg ótrúlegt. Sama hvar ég kem þá eru allir ótrúlega almennilegir og fólk horfir ekki undarlega á mig,“ segir Hlín og brosir. „Góður vinur minn ráðlagði mér að bera höfuðið átt og brosa framan í alla. Og ég hef gert það. Ég vil bara reyna að halda áfram.“
Hlín veit sjálf ekki hver staðan á málum hennar er hjá lögreglunni, en hún segist ekki óttast niðurstöðuna, hver sem hún verður. „Ég verð að taka því sem koma skal. Ég get ekki breytt neinu, nema sjálfri mér og reynt að verða betri manneskja. Leggja mitt af mörkum til samfélagsins. Ég er að gera það mikið af frábærum hlutum núna að ég hugsa ekki of mikið um þetta. Fyrir sex til átta mánuðum fór ég ekki út úr húsi en hingað er ég komin í dag. Það er eiginlega alveg ótrúlegt.“

Missti alla tengingu

Hlín hafði verið veik í þó nokkurn tíma áður en atburðarásin með bréfið fór af stað. En veikindin ágerðust mjög hratt síðasta vor. „Ég var búin að vera í sambandi með manni um tíma og ég var mjög lasin í því sambandi. Virkilega lasin. Sambandinu lauk en svo var mér nauðgað í apríl og þá missti ég alla tengingu við raunveruleikann. Þegar ég lít til baka þá veit ég ekki hvaða kona þetta var. Mér finnst ég vera að horfa á bíómynd. Þetta var auðvitað ég, en samt ekki.“

Þorir ekki aftur í samband

Hlín hefur verið á lyfjum vegna veikindanna en er nú hægt og rólega að minnka skammtinn. „Ég vil helst ekki taka lyf. Dagsdaglega er ég ekki lasin. Þetta brýst fram þegar ég þarf að takast á við erfiðar tilfinningar. Þá veikist ég. Ég held ég fari aldrei aftur í samband. Ég er mjög hrædd við það. Stundum fer ég inn á Tinder en spyr sjálfa mig strax hvað ég sé eiginlega að gera. Ég hef engan áhuga á þessu. Það hentar mér mjög vel að vera einhleyp þó vissulega sé það stundum erfitt fjárhagslega.“
Hlín á tvö börn, 10 og 12 ára, sem eru að mestu leyti hjá henni. Hún segir þau hafa verið ótrúlega skilningsrík vegna veikinda móður sinnar. „Börnin mín hafa lítið þurft að finna fyrir þessu, sem betur fer. Það tækluðu allir í kringum mig þetta mál rosalega vel og ég og börnin mín erum bestu vinir.“

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE