Hjartamakinn – Öldur hafsins

 

iStock 000015395445SmallÖldur hafsins eru fallegar og gefa hugarró. Nánast í hugleiðslu gefur flaumurinn mér takt til að ganga eftir og hljóðin hugga sálina og veita frið. Bara það að sjá sjóinn gefur eitthvað jafnvægi. Ég tók eftir því þegar ég sá ekki sjóinn í rúmt hálft ár eitt sinn þegar ég var skiptinemi í Bandaríkjunum. Ég veit það samt að þessi magnþrungna náttúra getur verið vægðarlaus, getur bæði gefið og tekið. Á ákveðnum stundum býður hún uppá fegurð og líf en aðra rífur hún í sundur og tekur með óstjórnlegu afli sínu.

Öldur lífsins veita lífsgæði. Á háum glæstum öldum verður lífið undursamlegt og ekkert er ómögulegt. Þakklæti og gleði verður allsráðandi og maður myndar með sér þol fyrir verri veðrum. Á reiðum hörðum öldum er engin stjórn og maður má sín lítils í nálægð þess sem meira er. Í dag er öldugangurinn mér meiri.

Ég sit í vinnunni. Það er fallegt veður og ég tek símtal frá manninum mínum. Hann var að koma frá lækni. Ég horfi á hafið út um gluggann á meðan hann segir mér fréttirnar. Það ausast yfir mig öldurnar og það dimmir yfir.

Þegar maður hefur gengið veginn með sjúkdómi langa leið, þá myndast á göngunni ákveðinn vinskapur, eða virðing. Það auðvitað slettist upp á vinskapinn á stundum og þá oftast þegar mér finnst sjúkdómurinn ósanngjarn og óvæginn. Í dag finnst mér það.

Fréttirnar voru að einn fylgifiskur hjartasjúkdómsins væri farinn að láta á sér kræla í auknu mæli. Í kjölfar hjartans fékk hann nefnilega ólæknandi sjálfsónæmissjúkdóm sem leggst á lifrina og hamast á henni, rífur í sig hægt og rólega þar til sjúkdómurinn óumflýjanlega nær yfirhöndinni. Þá er eina mögulega lausnin til að halda lífi að fara í líffæraskipti en þá aðgerð bæði óttast ég vegna ástandsins á hjartanu hans Bjössa og vegna þess að hér sem annars staðar er skortur á fólki sem tekur afstöðu til líffæragjafa.

Þessi sjúkdómur hefur truflað hann lengi. Fyrst var hann á fyrsta stigi. Svo á því öðru. Nú er svo komið að Bjössi fékk þau skilaboð að njóta sumarsins og í lok þess myndi hann fara í lifrarástungu til að meta stöðuna sem vonandi væri ekki of slæm. Vonandi… Það er samt ljóst að sjúkdómurinn sækir í sig veðrið, einkennin eru meiri og óljóst hvað tekur við að sumri loknu.

Bjössi heldur ró sinni á magnaðan hátt. Kannski eru þetta ekki eins slæmar fréttir og ég ímynda mér. Kannski stígur hann ölduna bara vel, hann er vanur maður. Það kemur í ljós í sumarlok. En kannski breytast lífsgæði okkar enn á ný. Ég get ekki annað en hugsað til allra hinna hversdagslegu málanna sem líka þarf að takast á við. Sem slá okkur líka úr takti og raska hugarró. Eins og þau mál væru ekki nóg.

Ég lít til hafs og bið öldurnar um huggun, vindinn um að róa sig. Stundum finnst mér verkefni okkar óyfirstíganleg. Stundum finnst mér þau of mörg og mikil og mig langar að leggjast í sandinn og slaka á, finna fyrir sólinni og heyra rólegan öldunið hafsins. Ég veit að veður skipast fljótt í lofti og þess vegna held ég áfram, stika eitt skref í einu eftir ströndinni á meðan vindur og sjór lemur á mér. Ég verð samt að viðurkenna að mér finnst sólin skemmtilegri. Mér finnst ströndin meira gefandi þegar hún iðar af lífi í léttum blæ.

En svona er gangan með sjúkdómi og ég herði upp hugann. Ég anda að mér útsýninu út um gluggann minn þar sem sjórinn er lygn og bátarnir vagga voldugir í höfninni. Finn ró í fegurðinni. Sæki bros djúpt ofan í iðrin. Dagurinn minn og verkefni bíða ekki. Ég sest aftur í stólinn minn, hripa þessi orð niður á blað og tek símtal frá viðskiptavini. Ég held áfram.

Mjöll Jónsdóttir
Hjartamaki
mjoll@hjartalif.is

SHARE