Kjartan hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, er einn þeirra sem kemur að skipulagninu Tour of Reykjavík sem verður haldin í fyrsta skipti þann 11. september næstkomandi.

„Við erum að taka hjólreiðakeppni yfir á Reykjavíkurmaraþonplan,“ segir Kjartan Freyr Ásmundsson, markaðs og þróunarstjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur sem stendur fyrir hjólreiðakeppninni Tour of Reykjavík sem fer fram þann 11. september næstkomandi. En skráning hófst í vikunni. Boðið verður upp á þrjár vegalengdir í keppninni; 110 km, 40 km og 13 km, ásamt sérstakri barnabraut, þannig allir ættu að geta tekið fundið erfiðleikastig við sitt hæfi.

Lítil börn og keppnisfólk

„Við minntumst á þetta við borgina, hvort það væri áhugi á því að halda svona viðburð og áhuginn var svo mikill, bæði frá borgarstjóra og höfuðborgarstofu, að það var ákveðið að slá strax til, en ekki bíða fram til 2017, eins upphaflega til stóð. Áhuginn á hjólreiðum er á landi er líka gríðalegur en það hefur aldrei áður verið haldinn hjólreiðaviðburður af þessu tagi á Íslandi.“

Götum lokað í fyrsta skipti

Kjartan bendir á að vissulega séu margir hjólaviðburðir af ýmsu tagi haldnir víða um land, en hann segir tvennt einkenna þennan nýja viðburð, sem ekki hefur verið gert áður. „Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það eru lítil börn eða keppnisfólk, eða almenningur sem langar að taka hjólið sitt fram og hjóla 13 kílómetra á lokaðri braut í miðborg Reykjavíkur. Sem gerist mjög sjaldan.“

En að sögn Kjartans verður einmitt ráðist í götulokanir í Reykjavíkurborg af áður óþekktri stærðargráðu. „Þessi borgarhringur sem allir fara er þannig að það er verið að fara að loka götum sem aldrei hefur verið lokað áður. Við hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, sem höfum haldið marga viðburði, erum því mjög ánægð með viðbrögð hjólreiðafólks sem virðist vera mjög ánægt með að geta fengið að hjóla á götum borgararinnar með þessum hætti. Ég persónulega hef aldrei fundið fyrir meiri áhuga á einum viðburði áður,“ segir Kjartan sem mjög spenntur fyrir keppninni. Hann mun þó sjálfur ekki geta tekið þátt, enda þarf hann að sjá um að allt skipulag gangi upp. „Þetta er svo að sjálfsögðu allt unnið í góðu samstarfi við hjólreiðafélögin,“ bætir hann við.

Verðlaun renna til Hjólakrafts

Andvirði þátttökuverðlauna í Tour of Reykjavík munu renna til Hjólakrafts, sem stendur fyrir hjólanámskeiðum fyrir ungt fólk sem vill taka upp heilbrigðaari lífsstíl. En Hjólakraftur hefur einmitt umsjón með barnabrautinni sem verður staðsett í Laugardalnum. „Við byrjum og endum í Laugardalnum og ætlum að búa til góða fjölskyldustemningu þar. Vonandi verða einhverjir básar, tjöld og fjör. Þannig fólk getur komið þar saman, fjölskyldur og áhorfendur.“

Kjartan vonast líka til þess að það að hafa keppnina í september verði til að lengja hjólasumarið fyrir Íslendinga. „Fólk hættir oft að hjóla þegar skólarnir byrja, enda er þetta mikið fjölskyldusport. Við vonum að með þessu lengist tímabilið um þrjár til fjórar vikur og þetta verði hátíð hjólreiðafólks, eins og Reykjavíkurmararþon er fyrir hlaupara.
27810 - Hjólaleið

110 kílómetrar
Hér má sjá leiðina sem farin er í lengstu vegalengdinni.

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE