„Ég reikna ekki með að geta hlaupið aftur“

Spretthlaupadrottningin Silja Úlfarsdóttir lauk farsælum hlaupaferli árið 2008, en þá var hún búin að vera fráasta kona landsins í rúm 10 ár. Litlu mátti muna að hún kæmist á Ólympíuleikana í Peking, sem var markmið sem hún stefndi að. En æfingar gengu upp og niður árið á undan þar sem hún glímdi við erfiða ofþjálfun. „Ég endaði ferilinn bókstaflega í miðju hlaupi í Hollandi. Ég var að rífast við hausinn á mér í hlaupinu, sagði sjálfri mér að halda áfram, en eftir 300 metra af 400 þá stoppaði ég bara allt í einu. Og það tók mig smá tíma að átta mig á að ég var ekki að hlaupa eins og hinir. Ég vissi þarna að þetta var búið. Það var ótrúlega skrýtið. Svo labbaði ég í mark og fagnaði,“ segir Silja um það hvernig ferlinum lauk, með örlítið dramatískum hætti. Hún tók þó þátt í Íslandsmeistaramótinu sama ár og fékk sína kveðjustund. „Mér fannst allt rétt við þetta. Ég hætti því ég var orðin södd, ekki vegna meiðsla eða neitt slíkt. Mínu verki var einfaldlega lokið.“ Silja sneri sér í kjölfarið að því að þjálfa íþróttalið, ásamt því að þjálfa íþróttamenn á öllum aldri að hlaupa hraðar.

 

Fóturinn mölbrotnaði

 

Þrátt fyrir að hlaupin séu Silju enn mjög hugleikin hleypur hún sjálf ekki mikið þessa dagana og óvíst er hvort hún komi til með að geta hlaupið aftur eftir að hún fótbrotnaði illa í janúar í fyrra. „Ég var að leika mér í handbolta og eftir fjórar mínútur þar sem ég var auðvitað langbest í leiknum – þá brotnaði ég svona illa. Læknarnir útskrifuðu mig reyndar þrisvar fótbrotna, sá fyrsti sem ég hitti sagði að ég væri tognuð, en ég hvæsti bara á hann. Ég vissi að ég var mölbrotin og daginn eftir kom það í ljós. Ég var brotin á fjórum stöðum í ristinni og eitt bein hafði færst til,“ segir Silja sem væri mikið til í að hitta aftur lækninn sem sagði hana einungis hafa tognað.

Hleypur líklega ekki meira

 

„Ég mátti ekki stíga í fótinn í fimm mánuði. Ég bý á þriðju hæð í blokk og á tvö börn. Veðrið í fyrra var líka glatað. Það var bara hálka og vindur á hlið. Ég er þannig búin að liggja flöt á bílastæðum fyrir utan mörg hús í Hafnarfirði. Það er ekki auðvelt að vera á öðrum fæti, með tvær hækjur að reyna að standa upp í hálku. Ég var svolítið eins og Bambi að læra að ganga.“

[pullquote]Ég mátti ekki stíga í fótinn í fimm mánuði. Ég bý á þriðju hæð í blokk og á tvö börn. Veðrið í fyrra var líka glatað.[/pullquote]

Læknirinn gerði Silju það strax ljóst að hugsanlega gæti hún ekki hlaupið aftur, sérstaklega ekki ef það þyrfti að negla fótinn. Þau ákváðu því í sameiningu að freista þess að láta brotið gróa án þess að negla. „Ég gat ekki gert neitt á þessum tíma. Ég gat ekki farið með börnunum mínum út að hjóla eða labbað með þeim út í búð,“ segir Silja en hún á tvo drengi, fimm og sjö ára á þessu ári. „Það varð því óhjákvæmilegt að ég færi í slíka aðgerð, og var hún gerð í desember. Þá fékk ég fjóra nagla í fótinn. Einn þeirra fór í gegn og kíkir út hinumegin, svo ég geng aðeins á honum. Ég reikna því ekki með að geta hlaupið aftur en það væri gaman ef það væri hægt,“ segir hún raunsæ.

Dauðsfallið er verkefni

 

En hvernig er það fyrir fyrrverandi afrekskonu í spretthlaupum að fá slíkar fréttir? „Draumurinn minn var að hlaupa hálfmaraþon, þó ég segði engum frá því. Og markmiðið mitt á þessu ári var að láta verða af því. Þannig ég var vissulega svekkt.“ segir Silja hreinskilin. „En ég hef komist að því að við fáum öll okkar verkefni í lífinu og við fengum okkar þegar það varð dauðsfall í fjölskyldunni. Ég get kannski ekki hlaupið á næstunni, en ég get farið út að leika með strákunum og skrúfunum mínum,“ segir Silja sem hefur lært að meta lífið enn betur eftir að hafa tekist á við áðurnefnt verkefni.

„Sem betur fer er ég týpan sem er alltaf með hálffullt glasið, strákarnir mínir hafa verið mjög duglegir og þurft að hjálpa mikið til heima fyrir, en þeir eru mjög spenntir fyrir því þegar mamma hættir að vera fótbrotin.“

 

Á hlaupahjóli í maraþonið

 

Silja er ennþá með naglana í fætinum, en þeir verða ekki fjarlægðir fyrr en í sumar. Henni er ennþá illt og þarf að notast við stuðningsstígvél reglulega. Hún er einmitt í því þegar viðtalið fer fram og vill meina að slíkur búnaður sé alveg að detta í tísku. Hún sé bara aðeins á undan sinni samtíð. Svo fær hún væntanlega hlaupahjól á næstunni sem atvinnurekandinn hennar ætlar að redda, en hún starfar hjá Sportmönnum þar sem heldur utan um Adidas og Reebok á Íslandi. Hún vonast einmitt til að geta farið kannski tíu kílómetra á því í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar. En líkt og áður sagði var draumurinn að fara hálft maraþon.

 

Sjá einnig: „Með kærleikann að vopni eru manni allir vegir færir“

 

Ældi eftir fimm kílómetra

 

Langhlaup hafa þó aldrei verið sterkasta hlið Silju, enda var hennar sérgrein 400 metra hlaup og grindahlaup. „Ég er svo mikill spretthlaupari og átti alltaf erfitt með að skokka. Eftir að ég hætti að keppa hugsaði alltaf að mig langaði einhvern tíma til að geta hlaupið fimm kílómetra. Einn daginn fór ég svo ein upp í Kaplakrika og hljóp þessa fimm kílómetra. Ég held ég hafi hlaupið á 35 mínútum, sem er ömurlegur tími, en ég ældi eftir á, mér fannst þetta svo erfitt. Svo hló ég og hló, á milli þess sem ég ældi. En í mínum huga var þetta geggjað afrek,“ segir Silja hlæjandi. En hún lét ekki þar við sitja. Eftir að hafa tekist á við fimm kílómetrana vildi hún reyna við tíu. Helst án þess æla. „Ég fór í Ármannshlaupið og stemningin var svo skemmtileg, allir að gefa fimmur og svona. Ég er svo mikil stemningstýpa og þetta var frábært. Ég gaf öllum fimmu, alsæl, alveg eins og ég væri að vinna einhver verðlaun.“ Silju tókst að klára hlaupið á innan við klukkutíma sem verður nú að teljast ágætt.

[pullquote]Ég er svo mikill spretthlaupari og átti alltaf erfitt með að skokka. Eftir að ég hætti að keppa hugsaði alltaf að mig langaði einhvern tíma til að geta hlaupið fimm kílómetra[/pullquote]

„Það er rosalega gaman að taka þátt í þessum hlaupum, stemningin er skemmtileg og verkefni fyrir alla, þú getur keppt við aðra, sjálfa þig eða notið þess að taka þátt. Ég hef svolítið verið að læra að það þarf ekki allt alltaf að vera keppni, stundum á maður bara að brosa njóta sín og gefa fimmur.“
Screen Shot 2016-05-06 at 9.29.32 AM

Mömmusamviskubitið skammt undan

 

Silja er nýbyrjuð að hreyfa sig aftur eftir að hún brotnaði. „Mér líður allri betur í líkamanum, þó ég taki ekki nema 20 mínútur á spinninghjólinu í stofunni. Hérna áður var æfing að lágmarki 60 mínútur og þá var ég á fullu allan tímann. Nú hef ég ekkert æft í eitt og hálft ár og ég saknaði þess ekki neitt. Ég átti svolítið erfitt með það og það hræddi mig hvað mér var sama. Ég hafði líka miklar áhyggjur af því að ég myndi fitna, enda hef ég bara borðað það sem mig hefur langað í.“ Hún viðurkennir að það sé ekki auðvelt að fara aftur af stað eftir allan þennan tíma. Hún er mjög meðvituð um að hún er ekki jafn mössuð og sterk og hún var, og finnst skrýtið að mæta þannig í ræktina. „En ég hef líklega gott af því að prófa það. Mér finnst allavega alveg frábært að finna vellíðunartilfinninguna og hvernig orkan eykst þegar ég byrja að hreyfa mig.”

Sjá einnig: Brjóst Heiðrúnar sprakk vegna sýkingar

Hún bendir á að fyrir móður með tvö börn geti verið erfitt að finna tíma fyrir æfingar. „Mömmusamviskubitið er aldrei langt undan. Ég reyni að fara stundum í ræktina, en annars hef ég búið til æfingahringi sem ég nota heima hjá mér og taka stuttan tíma. Það þarf víst alltaf að hafa plan B. Það er ekki sjálfsagður hlutur að komast á æfingu, því þarf að hugsa í lausnum. Í sumar verð ég með hlaupahóp fyrir Reykjavíkurmaraþonið þar sem áherslan verður ekki aðeins á hlaup, heldur vellíðan og að gera eitthvað fyrir sjálfan sig. Við þurfum jú að setja okkur í fyrsta sætið.“

 

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans

SHARE