Hlustaðu á Grétu Salóme taka smellinn Halo

Fiðluleikarinn og söngkonan Gréta Salóme Stefánsdóttir tekur hér lagið Halo í eigin útgáfu en Beyoncé átti vinsældum að fagna upphaflega með smellinum sem kom út árið 2009.

Var með tónleika á Disney Dream skipinu

Gréta Salóme hefur verið að koma fram í Bandaríkjunum síðastliðið hálft ár og er nýkomin heim fyrir jólin.

„Ég er búin að vera á samningi hjá Disney síðan í júlí þar sem ég hef verið með tónleika á Disney Dream skipinu þeirra. Ég er nýkomin heim og er að undirbúa næsta samning hjá Disney. Það eru mjög spennandi og skemmtilegir hlutir að gerast þar sem verður vonandi skrifað undir fljótlega. Þeir eru búnir að bjóða mér mjög spennandi samning fyrir næsta sumar.“

Stefnir á tónleikahald og jazz í Colorado

„Ég fer til Denver Colorado til að koma fram sem gestur á stórum jazztónleikum auk þess að koma fram í sjónvarpsþættinum The Everyday show. Þar á eftir hefst næsti Disney samningur í Flórída í janúar sem er í rauninni undirbúningur undir stóra samninginn næsta sumar. Þar fyrir utan er ég á miljón að taka upp nýtt efni sem ég er búin að vera að vinna í úti á Disney núna síðasta árið.“

Gréta Salóme tók ásamt Jónsa þátt í Eurovision með sigurlag Íslendinga „Never Forget“ árið 2012. Hún gaf út plötuna Everything Around Me sama ár og stefnir á að gefa út nýtt efni á næsta ári.

Hér syngur Gréta Salóme lagið Halo en útsetningu annaðist hún sjálf.

Margir tónlistarmenn bæði erlendis og hérlendis hafa freistast til þess að gera eigin útgáfu af þessu gullfallega lagi en Sigríður Thorlacius, söngkona í hljómsveitinni Hjaltalín, gerði eigin útgáfu af laginu í fyrra.

SHARE