Holl ráð um pilluna

Pillan hefur verið vinsælasta getnaðarvörnin á Íslandi í 20 ár.

Getnaðarvarnapillur innihalda hormón sem geta komið í veg fyrir egglos og þar með hindrað getnað á meðan pillan er tekin – en ekki lengur!

Fyrsta getnaðarvarnapillan í Evrópu hét Anovlar. Hún kom fram fyrir rúmum 25 árum. Hún heyrir nú sögunni til. Meðal annars vegna þess að tekist hefur að framleiða nýja gerð pillunnar með lágu hormónainnihaldi sem veldur færri aukaverkunum en er jafn örugg.

Anovlar innihélt 85 milligrömm af hórmóni fyrir hvert tímabil. Hormónainnihaldið í nýjustu tegundunum er komið niður í 2,2 milligrömm á mánuði. Það er innan við 3% af upprunalegu magni hormóna.

Hverjum hentar pillan?

Flest allar konur geta notað pilluna. Erfitt er að vita fyrirfram hvort pillan hentar, en reynslan leiðir það í ljós. Raunhæft er að prófa hana í þrjá mánuði áður en konur gera það upp við sig. Fyrir kemur að konu er ráðið frá því að nota pilluna af ýmsum ástæðum. Ræða skal um hugsanlega notkun pillunnar við lækni ef ástæða er til.

Hvaða aukaverkanir tengjast pillunni?

Aukaverkanir eru yfirleitt fáar og smávægilegar. Enn eru menn þó ósammála um skaðsemi langvarandi notkunar. Þó að grunsemdir hafi verið um tengsl hennar við brjóstakrabbamein og leghálskrabbamein hefur engin sönnun fundist. Reykingar og notkun pillunnar er ekki talið fara saman. Því ættu konur sem eru eldri en 35 ára og reykja að íhuga hvort þær eigi að hætta að reykja eða hætta á pillunni. Það val ætti að vera augljóst. Ekki er talið að pillan valdi minnkaðri frjósemi en slíkar raddir heyrast öðru hverju.

Hvaða kostir eru við pilluna?

Það sem styður notkun pillunnar eru á hinn bóginn lækkaðar líkur á krabbameini í eggjastokkum og legi. Hættan á þessum sjúkdómum lækkar um liðlega helming. Minna verður vart við góðkynja æxli í brjóstum og eggjastokkum hjá konum sem eru á pilunni. Einnig minnkar notkun á pillunni hættu á móðurlífsbólgum. Þar að auki er blóðleysi sjáldgæfara þar sem blæðingar eru minni hjá konum sem nota pilluna.

Hvernig er pillan notuð?

Mikilvægasta atriðið við notkun pillunnar er að muna að taka hana. Ef gleymist að taka pilluna oftar en einu sinni getur konan ekki verið örugg það sem eftir er tímabilsins og verður þá að nota aðra getnaðarvörn. Tekin er ein pilla á dag í þrjár vikur og síðan er viku hlé á meðan blæðingar standa yfir. Yfirleitt eru blæðingarnar og vanlíðan minni hjá konum sem taka pilluna. það er kostur fyrir þær sem áður hafa þjást af öflugum, kvalafullum blæðingum.

Þegar hætt er að taka pilluna, verður fljótlega egglos og eðlilegar blæðingar hefjast á ný. Konur geta átt á hættu að verða strax barnshafandi ef þær hætta töku pillunnar slík hlé eru því ekki æskileg, nema þær hafi í hyggju að verða þungaðar.

Sumar konur kæra sig ekki um pilluna vegna þess að þeim finnst pillan raski eðlilegri starfsemi líkamans. Aðrar reyna en hætta vegna aukaverkana. Pillan er engu að síður efst á lista flestra kvenna yfir bestu getnaðarvarnirnar. Milljónir kvenna sem hafa notað pilluna um árabil geta borið því vitni.

Hafið hugfast: PILLAN ER EKKI VÖRN GEGN KYNSJÚKDÓMUM.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE