„Honum hefur brugðið svo að sjá hvernig barnið var á litinn“ – Pistill frá Friðriki

Ég á tvær tengdamæður. Eða öllu heldur, mamma heldur að hún sé tengdamóðir mín. Sama hvað tilvonandi eiginkona mín gerir þá stendur mamma alltaf með henni. Af hverju? Jú, mamma segist þekkja mig svo vel, hvað sem það nú þýðir. Ef kærustu minni dettur í hug að minnast á að ég hafi til dæmis ekki flokkað þvottinn rétt, þá snýr mamma sér að mér með þennan svip á andlitinu, sama umvöndunarsvipinn og hún var vön að nota þegar hringt var úr skólanum til að láta vita ég hefði klifrað upp á þak eða hent grjóti í rúðu, og þá veit ég að hún mun hringja í mig næsta dag og ræða málin. Mamma er nefnilega alveg handviss um að það þurfi kraftaverkakonu til að þola mig, konu sem er í senn hörkutól og lætur ekki vaða yfir sig en líka blíð, góð og móðurleg. Nú er tilvonandi eiginkona mín og sambýlingur til 7 ára mörgum kostum gædd og eflaust er það rétt, að það sé kraftaverki líkast að hún skuli ekki enn hafa áttað sig og sparkað mér út, en ég held að mamma gangi stundum aðeins of langt í blindum stuðningi sínum við konuna mína.

Mamma er nefnilega ekkert alltaf skarpasti hnífurinn í skúffunni. Ok, þetta er kannski svolítið ljótt að segja um móður sína, en við skulum þá frekar segja að hún sé af annarri kynslóð. Ég er nefnilega örverpi, mamma var komin yfir fertugt þegar ég fæddist og pabbi lést þegar ég var 18 ára, hann var þá kominn á eftirlaun. Hvað um það, hún er samt ákaflega góð kona og hefur alltaf reynst mér vel. En hún er samt af allt annarri kynslóð. Allt sem hún segir, allar skoðanir hennar og hugsanir eru settar fram sem endanlegur sannleiki. Hún hikar ekkert við að alhæfa og treystir því sem aðrir segja út í ystu æsar, sem og virðist líta á það sem einhver hefur haft fyrir því að setja á blað eða prenta sem óhrekjanlegar staðreyndir.

Við konan mín eigum vinkonu (sem við skulum kalla Jónu) sem fyrir nokkrum árum svaf hjá bandarískum körfuboltamanni þannig að úr varð lítið þeldökkt barn, sem í dag er ekkert sérstaklega lítið. Þetta barn eða þennan unga mann ákváðum við konan að fá til að spila í brúðkaupinu okkar. Hann er helvíti flinkur á gítar og við viljum hafa tónlist þegar gestirnir mæta í veisluna. Jæja, hvað um það, um daginn var ég að segja henni ástkærri móður minni frá þessari ákvörðun okkar.

„Hvernig er það með hann stráksa?“ sagði mamma, en hún kallar son Jónu alltaf stráksa af því henni finnst nafnið hans svo ljótt, jább, mamma mín er nákvæmlega þannig persóna með öllum sínum yndisleika. „Hefur pabbi hans ekkert haft samband við hann?“

„Nei, ekki að mér vitandi,“ svaraði ég. Körfuboltamaðurinn hvarf af landi brott skömmu eftir að tímabilinu lauk og hefur lítið spurst til hans síðan, drengurinn var þá nokkurra mánaða. Það kemur reyndar ekki að sök, Jóna kynntist flottum manni þegar strákurinn var nýbyrjaður í grunnskóla og hefur hann alltaf litið á þann mann sem föður sinn.

„Það er enginn furða,“ sagði mamma og settist á móti mér við eldhúsborðið. „Honum hefur brugðið svo að sjá hvernig barnið var á litinn.“

Mér svelgdist á kaffinu og hellti niður á mig.

„Hvað áttu við? Pabbi hans ER svartur.“

„Nú, þá er þetta enn skiljanlegra,“ sagði mamma og sló með flötum lófa á eldhúsborðið, eins og hún gerir alltaf þegar hún vill leggja sérstaka áherslu á eitthvað. „Það vita allir að svartir menn þola ekki barnsgrátur! Þess vegna fara þeir alltaf frá konunum sínum.“

Á einu bretti afgreiddi sú gamla heila heimsálfu af fólki og gott betur en það. Ég varð algjörlega orðlaus og starði á konuna sem hafði alið mig upp.

„Hvernig geturðu sagt það?“ stundi ég loks.

„Jú, Friðrik, ég skal nú segja þér það, þetta hef ég lesið í bók. Svartir menn þola ekki barnsgrátur,“ sagði hún og stóð á fætur. Hún tók upp kaffikönnuna og losaði tappann. „Meira kaffi, vinur?“

Ég gæti sagt þér svo margar svona sögur, en hvað um það, mamma er ekki kynþáttahatari eða með fordóma sem slíka, hún er bara af þeirri kynslóð að hlutirnir voru einfaldari í den tid. Maður treysti Mogganum, RÚV og Veðurstofunni og þurfti ekkert endilega mikið ítarlegri upplýsingar um einhver mál en þessir miðlar veittu manni. Símanúmerið var tvær stuttar og ein löng og aðeins ein útvarpsrás.

Þessi ágæta kona tekur sem sagt alltaf upp hanskann fyrir tilvonandi eiginkonu mína og nú fyrir nokkrum dögum kom hún í heimsókn til okkar hjónaleysanna. Hún var ekki fyrr stigin inn um dyrnar en hún rak augun í það að peran í forstofunni var sprungin.

„Friðrik, þér ætti nú ekki að reynast erfitt að skipta um peru, eða ertu ekki rafvirki?“ sagði hún dæsti. „Þið iðnaðarmenn gerið aldrei neitt heima hjá ykkur, þarf nú konan þín að fara greiða þér fyrir að skipta um peru, svo að það sé gert?“

„Tja, hún gerir það nú,“ sagði ég og gaf konunni minni létt olnbogaskot. Mamma leit á mig með svip á andlitinu sem hefði yfirbugað franska herinn. Í heild sinni.

Jæja, hún hélt samt áfram að finna svona ýmis verk fyrir mig þar til við settumst loks við matarborðið. Í matnum þá ákvað mamma að segja sögur af því að ég hafi þurft að sofa með pissulak allt þar til ég byrjaði í grunnskóla, því mér hætti til að pissa undir í svefni. Elskuleg tilvonandi eiginkona mín leit á mig og sagði svo undurblítt að sögu mömmu lokinni:

„Þú ættir kannski að fá þér svona lak, þá þyrfti ég ekki að skipta jafn oft um á rúminu okkar.“

Mamma sagði ekki neitt, en leit á mig, þannig að annað augað reis upp fyrir gleraugun og setti stút á varirnar. Ég vissi upp á hár hvað þetta þýddi. Ég hef sjaldan elskað konuna mína jafn heitt. Gallinn er nefnilega sá, að konan mín átti ekki við að ég pissi ennþá undir (ok, þú sem ert að hugsa: Já, einmitt og glottir út í annað, þykist vita betur, já, þú, einmitt, þú getur átt þig!) heldur svitna ég mikið þegar ég sef. Ef glugginn er ekki opinn, er sem ég hafi sofið í gufubaði og það fer ekki lítið í taugarnar á konunni minni, því eins og gefur að skilja, þá þarf að skipta oft á rúminu okkar.

Þegar ég var að aka mömmu heim síðar um kvöldið sneri hún sér að mér og sagði:

„Veistu, Friðrik, ef þetta er enn vandamál hjá þér þarftu bara að fara til læknis. Það hlýtur að vera til einhver pilla við þessu.“ Hún talaði í þessum móðurlega tón sem ég held að allir kannist við. „Þú þarft samt ekkert að skammast þín. Napóleon og Júlíus Sesar pissuðu báðir undir.“

Ég ákvað að vera ekkert að leiðrétta þetta við mömmu, ég nennti hreinlega ekki að reyna útskýra fyrir henni í hverju misskilningurinn væri fólginn, enda væri hættan sú að hún myndi ekki taka mig alvarlega og telja sér trú um að ég væri að reyna breiða yfir það sem hún hafði gripið í sig sem einhvern sannleika. Ég hefði kannski betur átt að gera það, því að daginn eftir hringdi eldri bróðir minn og vildi ólmur benda mér á einhver þvagfærasérfræðing sem hefði hjálpað sér þegar hann lenti í þessu!

 

SHARE