Hrá súkkulaðisæla með espressobragði

Súkkulaðikökur er einfaldlega dýrðlegar og þeirra ætti að njóta til hins ýtrasta með reglulegu millibili. Ekki spillir að þessi er í hollari kantinum enda ekki bökuð heldur fryst og telst því til hráfæðis sem hljómar líka eitthvað svo vel. Enda er hún er stútfull af góðri fitu sem þakka má kókosolíunni og avókadóinu en það síðarnefnda inniheldur m.a. líka kalíum og prótein. Lífræna kakóið er líka fullt af magnesíum og andoxunarefnum. Eins og sjá má getið þið notið þessarar súkkulaðisælu án samviskubits.

Botn

 • 1/2 bolli möndlur
 • 1/2 bolli lífrænt kakó
 • 4 döðlur

Döðlur og möndlur eru lagðar í bleyti yfir nótt. Öllu blandað saman í matvinnsluvél. Þjappað vel saman ofan í form, mér finnst þægilegt að nota smelliform.

Miðja

 • 2 avókadó
 • 1/2 bolli hnetusmjör
 • 1 bolli möndlumjólk
 • 1/2 bolli lífrænt kakó
 • 1/2 bolli agave síróp
 • 1 msk instant espresso duft
 • 1 msk vanillusykur eða vanilludropar
 • 1/4 tsk sjávarsalt

Setjið allt í matvinnsluvél og balndið þangað til orðið mjúkt og loftkennt. Hellið yfir botninn og setjið í frystinn á meðan þið útbúið efsta lagið.

Toppur

 • 1/2 bolli agave síróp
 • 1/2 bolli lífrænt kakó
 • 1/4 bolli brædd kókosolía
 • 3/4 bolli heslihnetur
 • 2 tsk espresso duft

Hrærið vel saman agave sírópi, kakói, bræddri kókosolíu og espressodufti. Hellið hálfum bolla af heslihnetunum úti og blandið saman við, restin er sett efst til skreytingar.  Látið standa í frysti í allaveganna 1 tíma. Borið fram með rjóma.

* Fyrir þá sem þykir kaffi ekki gott má sleppa espresso duftinu.

Ef þið eruð hrifin af þessari getið þið kíkt HÉR á fleiri hráfæðisuppskriftir.

 

 

SHARE