Hreyfing fyrir alla hjá Hreyfilandi – Opið hús í dag

Hreyfiland er fjölskylduvæn líkamsræktarstöð á Seltjarnarnesi. Hreyfiland er á Eiðistorgi 17, þar sem áður var Tröllavídeó. Stundarskráin fyrir haustið einkennist af fjölbreytni og tímum fyrir alla aldurshópa en eitt helsta markmið Hreyfilands er að koma til móts við þarfir sem flestra.

Hreyfiland er með opið hús í dag á milli klukkan 11 og 13

“Hreyfiland leitast við að sinna allri fjölskyldunni” segir Krisztina Agueda, eigandi Hreyfilands. Við leggjum áherslu á hreyfingu sem hentar öllum, á mismunandi þroskastigum, allt frá mæðrafimi til Zumba.  Vinsælustu tímarnir hafa verið mæðrafimi en það eru tímar þar sem nýbakaðar mæður koma þrisvar í viku með börn frá 6 vikna aldri. Kenndar eru styrkjandi brennslu og þolæfingar, sérstaklega hannaðar fyrir nýbakaða mæður. Mæðurnar æfa með börnin hjá sér en þau eru þó á öruggu, litríku og örvandi svæði inni í salnum. Í lok tímans fá börnin að vera með í fjörinu og taka þátt í æfingunum. Það eykur enn á sérstöðu mæðrafimi að Krisztina kennir stöðugt nýjar æfingar. Boðið verður upp á mæðrafimi á Eiðistorgi á mánudags, miðvikudags og föstudagsmorgnum kl: 9.

Snillingafimi er sérhannað æfingarkerfi fyrir börn á aldrinum 3 til 12 mánaða. Snillingafimi er kennd á föstudögum. Foreldrum eru kenndar æfingar til að stuðla að auknum þroska barna sinna. Foreldrahópar með börn á áþekkum aldri geta bókað einkatíma hjá Krisztinu. Í slíkum tímum fer fram fræðsla um hreyfiþroska ungra barna og sýndar eru einfaldar æfingar sem örva hreyfi- og málþroska barna.

Hreyfifimi  er ætluð börnum frá 12 mánaða til 3 ára.  Hreyfifimi fyrir 2-3 ára er kennd á þriðjudögum kl: 16:30 en fyrir 1-2 ára á fimmtudögum kl 16:30 á Eiðistorgi en einnig verða í boði tímar á laugardögum í Ásgarði í Garðabæ.

Í Gþ-fimi eða grunnþjálfunarfimi fyrir börn á aldrinum þriggja til sex ára er lögð áhersla á iljar, bak og hryggsúlu , bætt jafnvægisskyn og samhæfingu hreyfinga. Kennt verður tvisvar í viku og verða hóparnir aldursskiptir.

Í samstarfi við Íslenska Fitness Félagið mun Hreyfiland bjóða FitKid tíma fyrir börn á aldrinum 6 til 12 ára. FitKid er byltingakennd alhliða þjálfun þar sem styrkur, hraði, sveigjanleiki, jafnvægi, frelsi og sjálfsagi eru í fyrirrúmi og brúar bilið á milli margra ólíkra íþróttagreina.  FitKid er kennt þrisvar í viku.

Zumba hefur farið sigurför um heiminn á undanförnum árum enda frábær alhliða skemmtun og hreyfing.  Hreyfiland býður nú upp á zumbatíma tvisvar sinnum í viku á mánudögum og miðvikudögum og lofum við miklu fjöri.

Í tilefni þess að Hreyfiland er 10 ára verður veittur 10% afsláttur af námskeiðum á haustönn.

Unnt er að nálgast allar nánari upplýsingar á heimasíðunni www.hreyfiland.is og hjá Krisztinu í síma 868 0863.

SHARE