Hreyfing léttir lífið

Group of older mature people lifting weights in the gym

Gildi líkamsþjálfunar fyrir eldri borgara

Undanfarin ár hefur þekking á áhrifum hreyfingar á líf og heilsu aukist til muna. Jafnframt hefur þeim eldri borgurum fjölgað sem taka reglulega þátt í hvers kyns hreyfingu og þjálfun. Sá ávinningur sem eldra fólk hefur af hollri hreyfingu er m.a.:

  • Lífsgleði eykst því hreyfing vinnur gegn þunglyndi
  • Róandi áhrif sem draga úr streitu
  • Möguleikar á félagsskap sem vinnur gegn einmanaleika og of mikilli inniveru
  • Aukinn vöðvastyrkur og liðleiki sem bætir hreyfigetuna
  • Hjarta- og lungnastarfsemi batnar, blóðþrýstingur helst stöðugur
  • Efnaskipti batna og auðveldara er að halda æskilegri líkamsþyngd
  • Bein styrkjast og hætta á beingisnun og beinbrotum minnkar
  • Jafnvægi batnar og síður er hætta á að fólk detti

Hæfileg hreyfing hefur þau áhrif að fólk eldist betur og getur séð um sig sjálft lengur en ella. En þrátt fyrir jákvæð áhrif sýna kannanir að enn er stór hópur eldra fólks sem hreyfir sig ekki svo að gagn sé að.

Fyrir þá sem hafa hug á að þjálfa sig má benda á að hreyfing eins og ganga, sund, leikfimi og dans er góð til að auka úthald. Æskilegt er að hreyfingin standi yfir í 20-60 mín. í senn en henni má líka skipta niður í nokkrar 10 mínútna eða lengri lotur yfir daginn. Ráðlegt er að hreyfa sig 3 – 5 daga vikunnar og hafa áreynsluna svipaða og í röskri göngu. Auk þess er gott að gera styrkjandi og liðkandi æfingar tvisvar til þrisvar í viku til að viðhalda hreyfigetu.

Flest eldra fólk getur tekið þátt í hæfilegri þjálfun, en ef fólk er haldið einhverjum sjúkdómi eða fötlun er öruggara að hafa samráð við lækni. Í langflestum tilvikum er aukin hreyfing til bóta. Til marks um það eru ummæli níræðrar konu sem sagði æfingarnar vera hreina og beina upplyftingu fyrir sig – og gigtin væri miklu verri þegar hún væri ekki í leikfimi. Flestir eldri borgarar tala einmitt um þá almennu vellíðan sem þjálfunin veitir þeim.

Víða hefur eldra fólk myndað með sér gönguhópa og jafnvel leikfimi- og danshópa sem eru öllum opnir. Einnig er starfandi Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra undir kjörorðinu ,,Það er aldrei of seint að byrja”.

Gangi ykkur vel og munið að allt er betra en ekkert.

ds.

Höfundur greinar:

Svandís Sigurðardóttir, lektor í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands.

Allar færslur höfundar

 

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

SHARE