Hugsanlegar ástæður þess að þú ert orkulaus – Rangt mataræði gæti valdi orkuleysi

Stundum erum við orkulaus. Þá óska þess eflaust margir að orkan væri svolítið meiri. Fólk hefur það nokkurveginn á hreinu að það þarf nægan svefn, góða hreyfingu og reyna að lifa lífi þar sem stressi er haldið í lágmarki. Það er þó ekki auðvelt fyrir alla enda hafa flestir ýmislegt á sinni könnu og stress fylgir oft daglegu lífi og krefjandi vinnu. Það gæti þó verið að það sé eitthvað í mataræði okkar sem rænir okkur orku. Norine Dworkin McDaniel birti pistil á health.com þar sem hún fór yfir nokkur atriði í mataræði okkar sem gæti valdið orkuleysi. Líkami okkar fær orku og næringuna úr matnum sem við borðum. Þess vegna skiptir máli hvað og hvernig við borðum. Hún leggur til að fólk spái í eftirfarandi þætti:

1.    Það líður langt á milli þess að þú borðar 

ATH! Fáðu þér millibita!

Blóðsykurinn lækkar þegar meira en tveir tímar líða milli þess að þú fáir næringu- og það er ekki gott fyrir okkur.  Ástæðan er þessi: Maturinn gefur líkamanum sykrur, sem eru sú gerð af sykri sem blóðið flytur. Frumur okkar nota sykrur til að búa til orku  (adenosine triphosphate (ATP)).  Heilinn þarf á þessari orku að halda, vöðvarnir verða að fá hana, allar frumur líkamans þurfa orkuna. Þegar blóðsykurinn lækkar hafa frumur líkamans ekki þetta efni til að búa til orkuna. Hvað gerist þá? Þá hægir á allri starfsemi líkamans og fólk verður þreytt, hungrað, „pirrað“ og heldur ekki einbeitingu. Þess vegna er ráð að fá sér smábita á tveggja til fjögurra tíma fresti svo að blóðsykurinn falli ekki. Fáðu þér bita fljótlega eftir að þú vaknar á morgnana því að þá er blóðsykurinn hvað minnstur.

2.    Þú borðar aðallega hvítt brauð á morgnana 

ATH: Spáðu í að fá þér trefjaríkari mat!

Orka- óvinur  þinn er sykraður morgunmatur, klattar, hveitibrauð, múffur og fleira í þeim dúr. Byrjaðu daginn með trefjum sem þú færð t.d. úr haframjöli, bankabyggi og hnetum.  Þessar matartegundir hafa það m.a. sér til ágætis að þær hægja á  upptöku sykurs og jafna þannig blóðsykursgildin.  Það er því góð hugmynd að fá sér morgunkorn sem er trefjaríkt.

3.    Þú borðar ekki rétta tegundir af grænmeti 

ATH: Fáðu þér meira brokkolí og kál!

Auðvitað er ekkert „rangt“ grænmeti en sumt er hagstæðara en annað. En með tilliti til orku skaltu fá þér brokkolí, hvítkál, rósakál og blómkál.  Þessar tegundir eru allar meinhollar  og ótrúlegir orkugjafar.  Þegar þú ferð að nota þær finnurðu að þær passa eiginlega alls staðar  á diskinn þinn hvort sem þú vilt hella smáediki út á rifið hvítkál, henda brokkolí út í pottrétt,  strá túrmeriki á blómkál eða…………

4. Þú borðar ekki rautt kjöt
     ATH: Fáðu þér járnauðuga fæðu!

Borðar þú aðallega grænmeti? Hefurðu miklar blæðingar? Drekkurðu hvorki te né kaffi?  Ef svo er getur vel verið að járnbúskapur líkamans sé léglegur og þú þurfir meira járn því að  járnið er lykillinn að orku og úthaldi.  Um 12 % kvenna á aldrinum 20-49 ára líða járnskort.  Ef þig vantar járn vantar þig líka orku, hvað sem þú borðar hollan mat.  Konur þurfa góðan, daglegan  skammt af járni.  Nautakjöt er mjög góður járgjafi en líkaminn fær líka  járn úr ýmsum flokkum úr jurtaríkinu eins og t.d. nýrnabaunum og spínati.  Líkaminn á auðveldara með að taka til sín járnið úr fæðunni þegar fólk neytir líka fæðu sem er auðug af C vítamíni, (t.d. appelsínusafi, ber og tómatar). Þá er rétt að bíða með að fá sér kaffi eða te í klukkustund eftir máltíðina af því að sýrur í þessum drykkjum geta komið í veg fyrir upptöku járns.

5. Þú sleppir of miklu af kolvetnum
     

Líkaminn þarfnast kolvetna og það er miður hvað illa er talað um þau!  Rannsókn var gerð við Tufts háskólann til að athuga hvaða áhrif það hefði á minni fólks þegar það fékk mjög lítið af kolvetnum. Í ljós kom að kolvetnasvelti hafði mjög slæm áhrif á minnið. Þegar hópurinn fékk aftur eðlilegan dagskammt af kolvetnum lagaðist minnið aftur. Flestir næringafræðingar telja að hagstæð samsetning daglegrar fæðu sé 50-55% samsett  kolvetni, 20-25% prótín og 25% fita.  Þeir hvetja fólk  til að  neyta hollrar fæðu og forðast  unninn mat og hvers konar skyndibita.

 

 

SHARE