Hún var kölluð „Djöflabarnið“ þegar hún var lítil –

Michaela DePrince er heimsfræg ballerína sem hefur komið fram með Boston Ballet og meira að segja dansað í myndböndum hjá Beyoncé og Madonnu. Hún lagði sig alla fram um að skapa sér feril sem dansari og foreldrar hennar hafa stutt hana og hvatt hana til dáða. Hinsvegar hefur Michaela ekki alltaf haft það gott, langt því frá.

Michaela fæddist í Sierra Leone árið 1995. Hún var skírð Mabinty en foreldrar hennar létust báðir og þá sendi frændi hennar hana á munaðarleysingjahæli þar sem hún varð bara „númer“. Í viðtali sagði hún frá lífi sínu á munaðarleysingjahælinu: „Þau númeruðu okkur frá 1 og upp í 27. Númer 1 var uppáhaldsbarn þeirra sem ráku munaðarleysingjahælið og númer 27 var í minnstu uppáhaldi.“ Michaela var númer 27 því hún var með húðsjúkdóminn vitiligo. Það var vegna þessa sem Michaela var kölluð „Djöflabarnið“ á munaðarleysingjahælinu.

Michaela fann huggun með bestu vinkonu sinni, sem hét líka Mabinty og var hún númer 26 á munaðarleysingjahælinu. Þær elskuðu báðar að syngja, leika sér í „þykjustuleik“ og segja hvor annarri sögur um það hvað þær ætluðu að gera ef þær yrðu einhverntímann ættleiddar.

Á sama tíma var kona sem heitir Elaine DePrince og bjó í New Jersey. Hana dreymdi um að ættleiða barn frá Afríku. Hún ætlaði að ættleiða Mabinty, sem var númer 26, en það varð einhver misskilningur og Michaela endaði með því að flytja til hennar. Í viðtali sagði Elaine: „Ég fékk símhringingu frá ættleiðingastofunni og þau spurðu hvora Mabinty ég ætlaði að ættleiða, því þær væru tvær.“ 

Þegar Elaine komst að því að Mabinty númer 27, Michaela, hafði verið hafnað af 12 fjölskyldum vegna húðsjúkdómsins, tók hún ákvörðun, hún ætlaði að ættleiða þær báðar. Elaine sagðist seint munu gleyma fyrsta skipti sem hún hitti Michaela því stúlkan var greinilega ekki að treysta því að Elaine væri að fara að ættleiða hana. „Hún stóð bara þarna með krossaða handleggi og virtist reið. Ég hugsaði bara að hún héldi að enn ein höfnunin væri í bígerð.“

Michaela með pabba sínum
Michaela og mamma hennar

Þegar Michaela var á munaðarleysingjahælinu hafði hún heillast af mynd af ballerínu sem hún hafði séð í dagblaðinu. Það var þá sem hún fór að dreyma um að verða atvinnudansari. Þegar hún kom svo á heimili foreldranna sem ættleiddu hana, sýndi hún mömmu sinni myndina og sagði henni að hana langaði að eiga skó eins og balletdansari. Elaine fannst þetta mjög sætt og gat á þeim tímapunkti ekki gert meira en að lofa henni að hún myndi, einn daginn, fara að dansa.

Lífið í Ameríku var allt mjög gott en í byrjun var Michaela mjög hrædd við að verða fyrir höfnun og svaf alltaf með kveikt ljósið. En ástin og umhyggjan sem foreldrar hennar veittu henni, hjálpuðu henni að láta sárin gróa og hún fann frið í hjartanu og það var þá sem hún byrjaði að elta drauminn sinn.

Michaela fór að þreifa fyrir sér og vinna í því að læra ballet en hún hafði alltaf áhyggjur af húðsjúkdómnum sínum. Áður en hún kom fram fyrst spurði hún mömmu sína hvort hún sæi blettina á líkama hennar þegar hún sat meðal áhorfenda. Elaine sagði: „Nei, eiginlega ekki. Þeir líta út eins og álfaryk.“ Þá sagði Michaela: „Ó það er gott. Þá get ég orðið atvinnuballettdansari.“

Þegar Michaela var 17 ára kom hún fram í Dance Theatre of Harlem í New York og var þá yngsta ballerínan til að dansa þar. Seinna var hún ráðin í Dutch National Ballet og býr nú í Amsterdam. Hún segir að draumur hennar hafi orðið að veruleika: „Þetta er ekki ævintýri, maður verður að leggja hart að sér og fórna ýmsu, en ég elska að koma fram!“

Eins og fyrr segir hefur Michaela komið fram í myndbandi hjá Madonnu og Madonna hefur lýst yfir áhuga á að gera bíómynd um líf ballerínunnar.

Heimildir: Betterme

SHARE