Hvað er besta líkamsræktin á meðgöngu?

Er líkamsrækt holl fyrir barnshafandi konur?

Já, í dag er álitið heilnæmt og gott fyrir barnshafandi konur að stunda líkamsrækt alla meðgönguna ef hún er eðlileg. Mild regluleg hreyfing minnkar líkurnar á óþægindum í vöðvum, liðamótum, liðböndum, maga, þörmum og hvað varðar blóðrás. Ef þú hreyfir þig reglulega er auðveldara fyrir þig að halda þyngdaraukningunni innan þeirra marka, sem mælt er með, og þú ert hressari og í betra formi í fæðingunni.

Sjá einnig: Meðganga konu á heilum sex sekúndum

Mundu samt að þegar þú átt von á barni hefurðu einnig þörf fyrir að hvílast af og til. Leggðu þig einu sinni eða tvisvar á dag, með hátt undir fótunum og slakaðu vel á. Sambland hreyfingar og hvíldar stuðlar að vellíðan á meðgöngunni.

Get ég áfram stundað hvaða íþrótt sem er?

Þú getur ástundað flestar íþróttir en með gætni. Það þýðir:

  • forðastu harða þjálfun sem getur valdið óþægindum. Hættu alltaf þegar þú finnur fyrir vanlíðan. Ekki láta púlsinn fara yfir 140-145 slög á mínutu til að ofreyna ekki hjartað. Hjartað þarf að dæla mun meira blóði en venjulega á meðgöngunni, einnig um fylgjuna.
  • gerðu teygjuæfingar með sérstakri aðgát, því að allir liðir og liðbönd eru mun lausari í sér en venjulega, vegna hormónabreytinganna. Ástæða þess að hormónar valda losi í liðum og liðböndum er sú að líkaminn er að undirbúa sig fyrir sjálfa fæðinguna svo að grindin gefi nægilega eftir til að höfuð barnsins komist í gegn.
  • Vertu dugleg að drekka vökva áður, á meðan og eftir að þú stundar líkamsræktina. Þú svitnar meira á meðgöngunni og þarft mikinn vökva til að þér líði vel.

Sjá einnig: Meðganga og hægðatregða – Hvað er til ráða?

Hvaða íþróttir á að forðast?

Sumar íþróttagreinar er best að forðast á meðgöngunni þar sem talsverð hætta er á að þú eða barnið getið beðið af þeim tjón t.d. við árekstra eða tæklingar. Þær íþróttir, sem þú átt að forðast eru:

  • knattspyrna
  • körfubolti
  • handbolti.

Aðrar íþróttir geta verið skaðlegar vegna þess að þeim fylgir of mikið álag á líkamann og hjartað og geta valdið þér og barninu óþægindum og álagi. Þær eru:

  • hörð vaxtarrækt
  • hörð þrekþjálfun.

Hvenær er hreyfing óholl fyrir þungaðar konur?

Farðu alltaf eftir heilbrigðri skynsemi og taktu mark á því sem líkami þinn segir þér. Ef þú finnur fyrir óþægindum eða öðrum einkennum skaltu hætta strax og ef þau líða ekki hjá skaltu hafa samband við lækni eða ljósmóður. Ef þú færð blæðingar áttu strax að leita læknis. Hættu líkamsæfingum ef:

  • þú finnur fyrir vanlíðan
  • þú finnur fyrir svima
  • þú færð verki
  • þér fer að blæða
  • fyrri meðgöngur hafa verið vandkvæðum bundnar
  • þú ert haldin sjúkdómi og læknirinn eða ljósmóðirin ræður þér frá líkamsrækt.

Er til einhver hreyfing sem er mild?

Sund er milt en samt áhrifaríkt. Ef þú hefur ekki stundað sund fyrr skaltu byrja hægt með því að synda rólega í 5-10 mínútur fyrstu þrjú skiptin. Eftir það lengirðu tímann í rólegheitum upp í 20 mínútur á eðlilegum hraða 2. – 3. sinnum í viku. Mælt er með að synda í 18-25 gráðu heitu vatni. Ekki er talið ráðlegt að fara í freyðibað eða mjög heita potta, þar eð barnið getur skaðast af of háu hitastigi og þú sjálf getur fengið sveppasýkingu í leggöngin. Það er talsverð bakteríu- og sveppaflóra í slíkum pottum og á meðgöngunni breytist sýrustigið í leggöngunum vegna hormónabreytinga þannig að þér er hættara við sýkingum.

Sjá einnig: Meðgangan er ferðalag – Einstaklega skemmtilegt myndband

Rösklegir göngutúrar í 30 mínútur, 2 – 3 sinnum í viku, eru einnig vel til þess fallnir að halda þér í góðu líkamlegu formi. Ef þú átt í vandræðum með fæturna geturðu hjólað í stað þess að ganga. Ráðfærðu þig þó við lækninn eða ljósmóðurina ef þú ert með grindargliðnun.

Hvers vegna á ég að stunda líkamsrækt á meðgöngunni?

Ástæðan fyrir því að mælt er með skynsamlegri hreyfingu á meðgöngunni er sú að þú verður miklu hraustari og liðugri ef þú hreyfir þig. Þér er líka síður hætt við óþægindum frá vöðvum, liðamótum, liðböndum, maga, þörmum og æðakerfi og þú átt auðveldara með að hafa stjórn á þyngdaraukningunni.

Mundu að fæðingin er heilmikil líkamleg áreynsla. Það fer talsverður kraftur í að þrýsta barni út, sérstaklega ef þú ert að fæða í fyrsta sinn, eða ef mörg ár hafa liðið milli fæðinga. Þess vegna er ráðlegt fyrir þig og barnið þitt að vera vel á ykkur komin á fæðingarstund. Ef þú hefur einhverjar efasemdir um að þér sé hollt að hreyfa þig skaltu ævinlega ræða það við lækninn eða ljósmóðurina áður en þú ferð af stað.

Fleiri greinar á doktor.is logo
SHARE