Hvað er hjartaögn/hjartakveisa?

Hvað er hjartaögn/hjartakveisa?

Mikill þrýstingsverkur eða samanherpandi tilfinning, venjulega bak við bringubeinið. Verkurinn getur leitt út í báða handleggi, oftast vinstri handlegg, upp í háls, kjálka og niður í kvið. Kemur fyrir bæði hjá konum og körlum.

Hjartaöng verður helst vart í tengslum við of mikla líkamlega áreynslu, andlega streitu eða vegna áhrifa frá kulda. Verkurinn hverfur oftast í hvíld eftir 2 til 10 mínútur.

Hver er orsök hjartakveisu/hjartaöng?

Í langflestum tilvikum er orsök hjartakveisu að finna í kransæðum hjartans. Hlutverk þessara æða er að sjá hjartavöðvanum fyrir blóði, sem sér hjartanu fyrir súrefni og næringarefnum. Kölkun í kransæðunum orsakar þrengingar í þeim þannig að minna magn af blóði berst til hjartans. Þar með fær hjartað of lítið súrefni við áreynslu. Þetta orsakar brjóstverk eða hjartaverk sem kallast hjartaöng eða hjartakveisa (angina pectoris).

Aðrar orsakir

Aðrir sjúkdómar geta valdið því að hjartakveisan versnar, svo sem blóðleysi, aukin efnaskipti við ofstarfsemi skjaldkirtils, hjartsláttartruflanir, hjartalokugallar eða sýking í hjartalokum.

Þar að auki getur hjartakveisa stafað af krampakenndum samdrætti (spasma) í kransæðum án verulegrar æðakölkunar.

Áhættuþættir

Æðakölkun herjar á flestalla einstaklinga. Hún byrjar yfirleitt um tvítugt og ágerist með aldrinum. Allmargir áhættuþættir sem ýta undir æðakölkun eru þekktir.

Tóbaksreykingar

Ef æðakölkun þekkist í fjölskyldunni.

Karlmönnum er hættara við æðakölkun en konum.

Sykursýki (insúlinháð og insúlínóháð).

Hár blóðþrýstingur.

Hátt kólesteról í blóði.

Offita.

Streita.

Hreyfingarleysi

Hver eru einkennin?

Þrýstingur fyrir brjósti eða í öllum brjóstkassanum, oftast við áreynslu eða andlegt álag.

Sár verkur út í handleggina, einkum vinstri, upp í kjálka, tennurnar, eyrun, niður í maga eða aftur á milli herðablaðanna.

Köfnunartilfinning

Andþyngsli verða meiri en venjulega, koma jafnvel skyndilega.

Þyngslatilfinning , dofi eða tilfinningaleysi í handlegg, öxl, olnboga eða hendi, oftast í vinstri hlið.

Hvað er hægt að gera til að forðast Hjartaöng?

Íhugaðu hvort þú hafir eitthvað af áðurnefndum áhættuþáttum.

Borða hollan, grófan, fitulítinn og fjölbreyttan mat. Forðastu mettaðar fitusýrur.

Borða mikið af grænmeti.

Hætta að reykja.

Vera sem næst kjörþyngd

Hreyfa sig meira (t.d. hálftíma göngutúr á dag)

Þeir sem þjást af sykursýki (insúlínháðri eða óháðri) eða af of háum blóðþrýstingi, þurfa að fylgja réttri meðferð eftir.

Fylgja læknisráðum

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Sjúkdómsgreiningin er byggð á ofangreindum einkennum, hjartalínuriti (EKG) og að tungurótartöflur(sprengitöflur) sem innihalda nítróglyserín slá oftast samstundis á verkinn.

Þar að auki getur læknirinn sent þig í áreynslupróf til þess að ganga úr skugga um hvort verkirnir koma frá hjartanu.

Í sumum tilvikum er þörf á að rannsaka kransæðarnar nánar með s.k. hjartaþræðingu. Þessi rannsókn felst í því að skuggaefni er sprautað inn í kransæðarnar og er hún alltaf framkvæmd á sjúkrahúsi.

Framvinda sjúkdómsins

Hjartaöng getur stundum þróast yfir í og endað með blóðtappa í hjartanu – kransæðastíflu. Þar að auki getur hún leitt til hjartabilunar með tilheyrandi vökvasöfnun í líkamanum eða hjartsláttartruflunum. Ef áðurnefnd hjartaþræðing sýnir verulega þrengingu á vel afmörkuðu svæði í einni eða fleiri kransæðum, eins og oft er raunin, er hægt að víkka út viðkomandi svæði. Þannig er hægt að auka blóðflæði til hjartavöðvans með hjálp blástursaðgerðar (blaðra sett inn í æðina og hún blásin upp til að víkka hana). Ef um verulega útbreiddar kransæðakalkanir er að ræða kemur til greina að gera opna hjartaaðgerð með framhjátengingu (By-pass operation)sem einnig eykur blóðflæði til hjartans. Mjög góður árangur er af báðum þessum aðgerðum sem draga verulega úr tíðni innlagna á sjúkrahús og áfalla.

Hvað getur læknirinn gert?

Fyrst og fremst að benda á áhættuþætti og hjálpa sjúklingnum að minnka þá eða fækka þeim.

Bjóða viðeigandi lyf.

Ef nauðsyn krefur vísar læknirinn sjúklingnum í frekari rannsóknir hjá sérfræðingi eða á sjúkrahúsi.

Það getur jafnvel verið nauðsynlegt að gangast undir blástur á kransæðunum eða framhjátengingu (by-pass operation), þar sem nýjar æðar eru saumaðar við hjartað og taka við hlutverki þröngu kransæðanna.

doktor.is logo

 

Tengdar greinar:

Hjartsláttarköst, andþyngsli og sviti

9 fæðutegundir sem draga úr streitu

7 leiðir til að hreinsa líkamann án þess að fara öfgafullar leiðir

SHARE