Hvað er kynlífsfíkn? – Þarf ekki að vera á afbrigðilegu sviði

Í tímans rás hefur mönnum líka lærst að neyta og framleiða ýmis efni sem kalla fram svipaða eða magnaðri sæluvímu, örvun og slökun. Allir vita að menn geta orðið háðir slíkum efnum, oft með hörmulegum afleiðingum. Heróínfíklar líkja til dæmis vímunni sem næst með heróínsprautu við kynferðislega fullnægingu í æðra veldi. Það ætti því ekki að koma á óvart að kynlíf, sem kallar fram vímu, örvun og slökun, er vanabindandi. Náttúran kom því þannig fyrir að fólk sækist í það bæði vegna þessara jákvæðu áhrifa og eins hins, að fólk finnur fyrir eirðaleysi og pirringi ef það líður of langur tími milli skammta. Við köllum þetta einfaldlega kynhvöt og sættum okkur bæði við rósir hennar og þyrna.

Í ljósi þess má fullyrða að flestir, ef ekki allir, séu í raun kynlífsfíklar; háðir sínum skammti, sem þeir hafa þó myndað ákveðið þol gagnvart, sæki reglulega í hann og finni fyrir fráhvörfum fáist hann ekki. Spurningin er bara hvað fólk er langt leitt og á hvaða sviði fíknin er. Svo eru sumir að vísu óvirkir. Venjan er þó sú að tala ekki um fíkn nema um vandamál sé að ræða.

Einhverra hluta vegna hefur þó reynst erfiðara að sannfæra almenning og fræðimenn um að ávanabinding á þessu sviði geti leitt fólk út í jafnmiklar hörmungar og sú fíkn sem skapast af neyslu fíkniefna. Á því leikur þó enginn vafi. Sé kynlífsfíknin á háu stigi eða óvenjulegu sviði á kynlífsfíkill á hættu að missa eitt eða allt af eftirfarandi: samband við maka og börn, ómældan tíma, ómælt fé, vinnu, heilsu (kynsjúkdómar o.fl.), sálarró, æruna, frelsið og jafnvel lífið (alnæmi, bílslys vegna sjálfsfróunar í akstri, sjálfsvíg o.fl.) o.s.frv. Afleiðingarnar geta þannig verið félagslegar, andlegar, fjárhagslegar og líkamlegar.

Því er haldið fram að ávanabinding sé eðlilegasti hlutur í heimi, öll erum við háð alls konar hegðunum (eða áhrifum hennar) en það verður bara sjaldan til stórkostlegra vandræða (og kallast þá fíkn). Sumir eru greinilega háðir vinnu sinni, aðrir áhugamálum, vinum, fjölskyldu, sjónvarpi, skemmtunum o.s.frv. Á íslensku segjum við að fólk sé í viðjum vanans, á ensku að manneskjan sé „a creature of habit”.

Ánetjun kynlífs getur verið til vandræða (og telst þá fíkn) þegar hún er á mjög háu stigi eða beinist í óvenjulegan eða jafnvel glæpsamlegan farveg. Karl, sem þarf á samförum að halda mörgum sinnum á dag, lendir í klemmu ef maki hans er ekki á sömu bylgjulengd, sé hann til staðar. Sá sem háður er klámi ver e.t.v. í það ómældum tíma og fjármunum og sá sem sækist í kynlíf með börnum á útskúfun yfir höfði sér og fangelsisvist.

Á hvaða sviðum birtist kynlífsfíkn?

Margir halda að kynlífsfíkn hljóti að vera á einhverju afbrigðilegu sviði, þar séu öfuguggar á ferð, en svo þarf alls ekki að vera. Fíknin getur verið til vandræða þótt hún sé á viðurkenndu sviði svo sem sókn í samfarir, sjálfsfróun, klám og vændi. Annað svið er svo á gráu svæði svo sem sókn í að sýna sjálfa(n) sig, gægjast á glugga, klæmast í síma eða á netinu, hafa mök við dýr o.s.frv. Þriðja sviðið er svo sókn í hegðun sem er beinlínis hættuleg og glæpsamleg, svo sem sifjaspell, misnotkun barna og nauðgun.

Við rannsóknir hafa greinst ellefu nokkuð aðskildir hegðunarflokkar kynlífsfíkla en þeir eru:

  1. Kynórar

    Kynhegðun í þessum flokki einkennist af því að verja löngum stundum í hugsanir um ástarævintýri. Það tapast gríðarlega mikill tími í fantasíur um atburði í framtíðinni og fortíðinni.

  2. Daðurkynlíf.

    Kynhegðun í þessum flokki einkennist af því að vera í mörgum samböndum á sama tíma eða hverju á eftir öðru, tæla aðra til lags við sig. Fíkn á þessu sviði hefur verið skipt í sex undirhópa. Þótt talað sé um karla á hið sama við um konur. Á öðrum enda skalans eru menn sem sofa helst bara einu sinni hjá hverri konu og vilja jafnvel ekki skilja eftir símanúmer sitt hjá henni þegar þeir kveðja (hitters). Í öðrum hópi eru þeir sem fara nokkrum sinnum út með sömu konunni og eru með henni í nokkrar vikur án þess að vilja festast (drifters). Þá koma þeir sem eiga í stormasömum samböndum í nokkra mánuði (romantics) áður en þau fjara út eða enda með sprengingu. Fjórða hópinn skipa þeir sem hreiðra um sig með einni konu árum saman en fara svo frá henni eins og hendi væri veifað, fyrirvaralaust (nesters). Í fimmta hópnum eru menn sem hafa alltaf að minnsta kosti tvær í takinu og skipta tíma sínum og athygli á milli þeirra (jugglers). Í síðasta hópnum eru svo menn sem eru með mökum sínum árum og áratugum saman en halda stöðugt fram hjá (tomcats).

  3. Kynlíf með ókunnugum.

    Einkennandi hegðun í þessum flokki eru mök við ókunnuga.. Slíkt kynlíf er ólíkt því þegar fólk nær sér í bólfélaga á börum og slíkum stöðum þar sem ekki er reynt að láta sem einhver áhugi sé fyrir hendi á mótaðilan um, annar en kynferðislegur. Allir, sem hlut eiga að máli, eru aðeins að sækjast eftir kynlífi.

  4. Borgað fyrir kynlíf.

    Einkennandi hegðun í þessum flokki er að hringja og klæmast í síma, nýta sér fylgdarþjónustu eða símatorg, borga einhverjum fyrir kynferðislega tilburði, auglýsa eftir rekkjunautum og sækja nuddstofur eða slíka staði. Skýrasta dæmið um kynlíf í þessum flokki er vændi.

  5. Sala á kynlífi.

    Auk andlegs og líkamlegs ofbeldis og vanlíðunar reynist smitun kynsjúkdóma, svo sem alnæmis og lifrarbólgu mjög algeng á meðal þeirra sem stunda vændi. Þá eru sjálfsmorð og sjálfsmorðstilraunir algengari hjá þeim sem stunda vændi en öðrum.

  6. Gægjukynlíf.

    Gægjukynlíf felst í því að sækjast eftir djörfum tímaritum, vefsíðum eða myndböndum, eiga klámsafn heima eða í vinnu, sækja reglulega í bókabúðir sem sérhæfa sig í klámefni og nektarsýningar, nota sjónauka til að fylgjast með einkalífi fólks, líta inn um glugga á íbúðum og húsum, hugsa kynferðislega um fólk á almannafæri, hugsa kynferðislega um efni sem er fæstir telja djarft.

  7. Sýnikynlíf.

    Sýnikynlíf felst í því að bera sig svo aðrir sjái. Menn með sýniþörf sýna sig á heimilum sínum og úr bílum eða með því að klæðast djörfum fatnaði til að kalla fram kynferðislega örvun.

  8. Kynferðisleg áreitni.

    Kynhegðun í þessum flokki getur verið allt frá því að snerta manneskju án þess að hún taki eftir því og upp í það að nauðga annarri manneskju. Í báðum tilfellum er þó sóst eftir kynferðislegri örvun. Þvingun eða nauðgun getur líka átt sér stað innan hjónabandsins og er kannski algengasta afbrigði kynferðislegs ofbeldis.

  9. Kvalalosti.

    Kvalalosti felst í því að láta skaða sig eða meiða á meðan á kynlífi stendur til að auka á kynferðislega fróun, valda öðrum skaða eða sársauka til að auka á kynferðislega fróun, að gefa viljandi frá sér stjórn eða að leika fórnarlamb í kynlífi.

  10. Munalosti.

    Í þessum flokki er hegðun sem felst í því að fróa sér með einhverjum tækjum eða munum, klæða sig í föt af hinu kyninu til að auka á kynferðislega fróun, nota hluti, t.d. flíkur eða líkamshluta, sem blæti í kynferðislegum tilgangi, vera með kynferðislega tilburði í frammi við dýr.

  11. Kynlíf með börnum.

    Kynlíf með börnum felst í því að deila óviðeigandi kynferðislegum upplýsingum með börnum, sýna börnum kynhegðun fullorðinna, þvinga barn til samræðis og horfa á barnaklám.

Fáir fíklar beita sér aðeins að einum flokki. Flestir eru með blöndu af þremur til fjórum flokkum og sumir allt upp í sex eða sjö. Fíklar eiga sér þó alltaf uppáhaldshegðun eða blöndu af hegðunum.

Hvenær er ávanabinding kynlífs orðin sjúklegt eða greinilegt vandamál, kynlífsfíkn?

Enn sem komið er telst kynlífsfíkn ekki geðröskun samkvæmt handbókum fræðimanna. Reyndar hafa slík greiningarviðmið verið nokkuð ófullkomin þar sem áfengissýki og eiturlyfjaánetjun, matarfíkn og spilafíkn hafa ólík viðmið og teljast til mismunandi raskana. Í meistaraverkefni mínu í sálarfræði, sem fjallaði um kynlífsfíkn, lagði ég til að eftirfarandi greiningarviðmið verði notað við hvers konar fíkn (það er byggt á greiningarviðmiði bandarískra geðlækna á efnaánetjun (chemical dependency)):

Ef hegðun (í þessu tilfelli kynhegðun) veldur verulegri óstarfhæfni og vanlíðan ásamt jákvæðum svörum við þremur eða fleiri af eftirtöldum viðmiðunaratriðum á sama tólf mánaða tímabili er um fíkn að ræða:

  1. Aukið þol gagnvart áhrifum hegðunar sem einkennist annað hvort af:
    a. Þörf fyrir aukið magn hegðunarinnar til að fá sömu áhrif.
    b. áberandi minni áhrif með sama magni hegðunarinnar.
  2. Fráhvörf sem lýsa sér annað hvort með:
    a. dæmigerðum fráhvarfseinkennum viðkomandi hegðunar.
    b. gripið er til sömu eða mjög svipaðrar hegðunar til að koma í veg fyrir eða milda fráhvarfseinkennin.
  3. Hegðunin gengur lengra eða varir í lengri tíma en ætlað var í fyrstu.
  4. Viðvarandi löngun eða misheppnaðar tilraunir til að minnka eða stjórna hegðuninni.
  5. Miklum tíma er varið í að koma sér í þá aðstöðu að geta komist í hegðunina, í hegðunina sjálfa eða í að jafna sig eftir hana.
  6. Fjölskylda eða vinna er vanrækt vegna hegðunarinnar eða hætt er við eða dregið úr ýmsum heilbrigðum venjum eða tómstundum.
  7. Hegðuninni er við haldið þótt viðkomandi geri sér grein fyrir að hún veldur viðvarandi eða endurteknum líkamlegum eða andlegum veikindum.

Almennar niðurstöður

Niðurstöður rannsóknar minnar á þessu fyrirbæri voru þær að kynlífsfíkn er vissulega til, ekkert síður en efnaánetjun, matarfíkn og spilafíkn. Einkenni hennar er endurtekin kynhegðun (alltaf sama hegðunarmynstur), allt að því áráttukennt ef hún er á háu stigi. Fíknin getur verið á mismunandi stigi. Það tekur ákveðinn tíma fyrir hana að myndast og svo festist hún í sessi, stundum er hún í sókn og stundum í rénun. Þar að auki má tala um bráðastig, þegar fíknin er yfirþyrmandi og svo krónískt stig þegar hún er allsráðandi. Fíknin getur verið acute; ólíkum sviðum (eðlilegu, afbrigðilegu og glæpsamlegu) og hana má greina í ólíkum hegðunarflokkum. Þessu er við haldið þrátt fyrir neikvæð áhrif á heilsu, fjárhag, fjölskyldu, vinnu og tómstundir og getur jafnvel leitt til dauða bæði beint og óbeint. Ef afleiðingarnar eru orðnar of neikvæðar reynir fíkillinn oft að hætta en mistekst það gjarnan. Í kjölfarið koma fram ranghugmyndir, réttlætingar á hegðuninni og reynt er að gera gera lítið úr henni eða áhrifum hennar. Fíkillinn ver oft miklum tíma í þráhyggju sem yfirskyggir daglegt líf, tilfinningar og sjálfsmynd. Þegar fíkillinn finnur að hann ræður ekki við hegðunina og er ósáttur við hana finnur hann fyrir skömm og þunglyndi, sem getur leitt til sjálfsmorðshugsanna og jafnvel sjálfsvígs. Sé hegðuninni hætt koma fram fráhvarfseinkenni og fíknin (craving) kallar á fíkilinn. Hegðunin getur verið óvægin (gagnvart fíklinum sjálfum og öðrum) og brýtur oft í bága við eigin gildi gerandans og jafnvel heilbrigða skynsemi. Ef fíknin er á sviði sem þykir óviðunandi eða á mjög háu stigi, fer fíkillinn að lifa tvöföldu lífi og beitir bæði lygi og óheiðarleika, sem aftur leiðir til meiri skammar og vanlíðunar. Fíkillinn leggur oft heilmikið á sig til að halda andlitinu út á við; reynir að ná langt í sínu fagi eða fyllist miklum trúarmóði. Fjölskyldu- og vinatengsl fara í annað sæti á eftir fíkninni. Hegðunin getur haft í för með sér töluverðan kostnað vegna minnkaðra afkasta, aukinnar notkunar á heilsugæslu og kaupa á hvers kyns klámefni, hjálpartækjum, kynlífsþjónustu, utanlandsferðum o.s.frv.

Hvað er til ráða?

Ef þú eða einhver sem þú þekkir er hugsanlega eða örugglega kynlífsfíkill er fyllsta ástæða til að grípa í taumana þar sem litlar líkur eru til að ástandið batni af sjálfu sér. Þvert á móti eru líkur til að ástandið eigi eftir að versna og afleiðingarnar verði enn hörmulegri en orðið er.

Hér áður fyrr var alkóhólismi talinn aumingjaskapur, síðar persónuleikaröskun eða hvataröskun. Nú er hann viðurkenndur sem sérstakur sjúkdómur (geðröskun) sem kallast efnaánetjun. En áður en sú viðurkenning á vandanum náðist höfðu alkóhólistar komið sér upp sínum eigin sjálfshjálparsamtökum (AA-samtökunum, Alcoholics Anonymous) sem byggðust á hinu svokallaða tólf spora kerfi. Síðar sigldu spilafíklar í kjölfarið og komu á fót GA-samtökunum (Gamblers Anonymous) og matarfíklar OA-samtökunum (Overeaters Anonymous). Nú hafa kynlífsfíklar bæst í hópinn og þeir hafa stofnað nokkur samtök sem byggja á sömu nálgun (SA, Sexaholics Anonymous, SAA, Sex Addicts Anonymous, SLAA, Sex and Love Addicts Anonymous, SCA, Sexual Compulsives Anonymous og reyndar fleiri). Reynt hefur verið að koma á fundum SLAA-samtakanna hér á landi en fundir eru stopulir.

Besta leiðin til að takast á við fíkn er með algjöru bindindi eða svokölluðu fráhaldi (halda sig frá hegðuninni). En þar sem kynlífsfíkn er á sviði sem manninum er mjög eðlilegt, jafnvel nauðsynlegt (til að mynda eðlileg tengsl við maka og eignast fjölskyldu) þarf ekki að vera um algjört bindindi á kynlíf að ræða, rétt eins og matarfíklar þurfa ekki að hætta að borða. Bindindið eða fráhaldið beinist þá fyrst og fremst að þeirri hegðun, eða hegðunarmunstri, sem kallar fram greinilega fíkn (sjá flokkana hér að ofan). Slíkt er hægara sagt en gert og hættan á falli er stöðugt yfirvofandi, þó mest til að byrja með. Því er þörf á miklum stuðningi annarra fíkla, eins og í sjálfshjálparsamtökum, eða sérfræðings.

Aðalatriðið er að stíga aldrei fyrsta skrefið (alkóhólistinn drekkur ekki fyrsta sopann) í átt að fíknhegðuninni, taka einn dag í einu og lifa heilbrigðu lífi, læra að njóta alls hins sem lífið hefur sannarlega upp á að bjóða.

Til gamans eru hér nokkur nöfn sem menn hafa gefið kynlífsfíkn:

Sexual addiction, love addiction, Casanova complex, Clinton complex, Don Juanism, erotomania, hypereroticism, compulsive promiscuity, hyperlibido, hypersexuality, idiopathic sexual precocity, libertinism, Messalina complex, nymphomania, oversexuality, pansexual promiscuity, pathologic multipartnerism, pathologic promiscuity, satyriasis og sexual hyperversion.

Grein birt með góðfúslegu leyfi Doktor.is

SHARE