Hvað er LSD?

Lýsergíð (LSD) og efni með lýsergíðlíka verkun

Langþekktasta efnið í þessum flokki er lýsergíð betur þekkt sem LSD. Af öðrum efnum með lýsergíðlíka verkun má nefna psílócín og meskalín.

Lýsergíð – LSD (lýsergsýrudíetýlamíð)

Í sveppi sem kallast krondrjóli (Claviceps purpurea) og vex aðallega á rúgi er að finna fjölda efna sem áhugaverð eru til lyfjagerðar. Úr korndrjóla eru t.d. unnin tvö velþekkt lyf. Annað þeirra nefnist ergótamín og er notað við meðferð á mígreni. Hitt nefnist ergómetrín og er notað til að draga saman leg eftir fæðingu. Í þessum efnum er sýra sem nefnist lýsergsýra. Hún inniheldur köfnunarefni og er þannig í senn plöntubasi og lífræn sýra. Lýsergíð og fleiri lýsergsýrusambönd sem unnin hafa verið úr korndrjóla má framleiða út frá lýsergsýru. Á slangurmáli er efnið oft nefnt “sýra“.

Árið 1938 bjó Svisslendingur til lýsergíð úr lýsergsýru. Hann prófaði nokkrum árum síðar efnið á sjálfum sér og komst að því að lýsergíð hefði djúpstæða verkun á miðtaugakerfið í mjög litlum skömmtum við inntöku.

Skömmu fyrir 1950 birtust fyrstu vísindalegu athuganirnar á verkunum lýsergíðs hjá mönnum. Sýnt þótti að það væri hið dæmigerða hugvíkkandi eða psýkedelíska lyf eða efni (sbr. lýsingu á lýsergíðvímu og með því mætti hugsanlega kanna djúp sálarinnar, fá fyllri upplýsingar um tilurð hegðunar eða afbrigða í hegðunarmynstri og einnig beita því við geðlækningar og við könnun á tilurð geðsjúkdóma.

Sjá einnig: Eiturlyfjaneysla hefur áhrif á útlit – Fræga fólkið fyrir og eftir dópneyslu

Á árunum frá 1950 og fram yfir 1960 varð lýsergíð vinsælt meðal ýmissa lækna og meðal sálfræðinga, sumra rithöfunda og listamanna. Sjálfstilraunir með efnið urðu grundvöllur hástemmdra lýsinga á verkun lýsergíðs. Vímunni var lýst sem ferðum (“trips“) um ókunna stíga innra sjálfs og sem flugi um ytri víðáttur með ótal tilbrigðum skynjana og kennda. Upp úr 1960 varð hins vegar deginum ljósara að notkun lýsergíðs gæti leitt til geðveikikenndra viðbragða og rangskynjana, ótta og árásarhneigðar og jafnvel enn annarra afbrigðilegra fyrirbæra.

Lýsergíð er nær alltaf tekið um munn. Algengt er að því sé dreift í formi taflna sem stundum eru litaðar og dreift ólöglega eða þá innþornuðu í pappírsbútum eða ferningum sem oft eru litaðir eða skreyttir myndum.

Eftir töku 100 míkróg af lýsergíði (1 míkróg = 1/1000 úr mg) yrði fyrstu einkenna líklega vart um 15-30 mínútum síðar. Blóðþrýstingur hækkar, líkamshiti hækkar, tíðni hjartsláttar eykst, öndunartíðni eykst, klígja kemur fyrir og jafnvel uppsala, sjáöldur víkka, skjálfti og doði gerir vart við sig sem og ósamræmi í hreyfingum og kvíði eða spenna og fleira mætti nefna. Eiginleg víma byrjar um 30 mínútum eftir töku lýsergíðs eða ef til vill fyrr.

Víman byrjar gjarnan með því að hlutaðeigandi finnst sem margs konar kenndir og hugsanir bærist með honum, ýmist saman eða hver á fætur annarri. Oftast er þó um að ræða vellíðan. Hugsanir fara úr böndum og virðast koma og fara stjórnlítið eða stjórnlaust. Atriði sem skiptu áður litlu máli fá nú meiri þýðingu. Neytandinn getur orðið spenntur og í viðbragðsstöðu gagnvart því ástandi sem hann er í. Oft dregur hann sig í hlé og situr eða liggur með augun aftur til þess að reyna að hemja hugsanir sínar og kenndir. Eftir um 1-2 klukkustundir fara skynbrenglanir að verða ríkjandi.

Skynbrenglanir eru margs konar. Tímaskyn brenglast, þannig að tíminn virðist líða seinna, og einnig fjarlægðarskyn. Heyrnin verður skarpari og e.t.v. einnig bragð. Langmest áberandi eru þó brenglaðar sýnir, s.s. á litum, formi hluta og útliti eigin íkama. Svokallaðar eftirmyndir eru mjög algengar en þá skilja hlutir eftir sig mynd eftir að hætt er að horfa á þá. Víxlskynjanir eru líka algengar. Vanalega gerir neytandinn sér grein fyrir því að rangskynjanirnar eru af völdum lýsergíðs. Þetta getur breyst eftir töku stærri skammta og er þá talað um “ekta“ rangskynjanir. Þá veit neytandinn ekki hvers vegna hann er í þessu sérkennileg ástandi. Hann getur þá orðið óttasleginn og hræddur og fyllst ofsahræðslu og ofsóknarkennd. Þetta má telja geðveikikennt ástand sem nær vanalega hámarki um leið og neytandinn verður á síðari stigum vímunnar var við rof eigin persónumörkunar. Segja má að lýsergíðvíman sé í hámarki 3-5 klukkustundum eftir töku efnisins. Hlutaðeigandi finnst þá sem mörk milli hans og umhverfisins séu rofin og hann geti samlagast náttúrunni eða alheiminum og verði fyrir einhvers konar almættisreynslu og komist í snertingu við tilverusvið utan seilingar venjulegs manns í holdlegum líkama. Þegar víman er upplifuð á þennan hátt er talað um að “trippið“ heppnist vel. Ef hins vegar “trippið“ heppnast ekki vel kann neytandinn að verða skelfingu lostinn yfir því að hann sé í pörtum og brotum og komist aldrei aftur til sjálfs sín. Honum finnst að festa hans í fyrri veruleika sé brostin og hann verði aldrei samur aftur. Honum finnst jafnvel að hann mæti andúð og hatri sem aftur getur leitt til árásargjarnra viðbragða af hans hálfu.

Svo sem við er að búast er manni í lýsergíðvímu öll hugvinna erfið. Hann á erfitt með að nema, hugsa rökrétt, tjá sig í orðum o.s.frv. Nýminni bilar talsvert. Vafasamt er þó hvort það er með sama hætti og eftir kannabis.

Þol myndast mjög fljótt gegn verkunum lýsergíðs. Eftir töku í litlum skömmtum í 3-4 daga myndast mjög mikið þol gegn vímugefandi verkunum þess. Þetta þol er svo mikið að jafnvel mjög stórir skammtar megna ekki að framkalla vímu. Fyrst eftir nokkurra daga hlé má búast við að lýsergíð sé virkt á ný. Mjög mikið krossþol er milli lýsergíðs og flestra efna með lýsergíðlíka verkun (psílócín, meskalín o.fl.). Með krossþoli er átt við að þol gegn einu lyfi eða efni leiði til þols gegn verkunum annars lyfs og gagnkvæmt. Krossþol er lítið eða ekkert milli lýsergíðs og tetrahýdrókannabínóls eða milli lýsergíðs og amfetamíns. Er það talið merkja að verkunarháttur þessara efna sé innbyrðis mismunandi.

Óvíst er hvort fráhvarfseinkenni koma fyrir eftir töku lýsergíðs. Svefnleysi er þó þekkt eftir LSD “tripp“. Vafasamt er hvort fíkn myndist í lýsergíð og í raun mælir hin hraða og mikla þolmyndun gegn því að svo geti verið.

Endurhvarf (“flashback“) er furðulegt fyrirbæri sem þekkist eftir töku lýsergíðs. Það er í því fólgið að verkun lýsergíðs hverfur til neytandans löngu eftir að það hefur skilist út og án þess að það sé tekið á ný. Endurhvarf er algengara hjá þeim sem hafa tekið lýsergíð oft en stendur yfirleitt stutt yfir. Algengustu einkennin eru brenglaðar sýnir.

Dauðsföll beinlínis af völdum lýsergíðs virðast ekki vera þekkt. Dauðsföll sem óbeint er talið að rekja megi til töku lýsergíðs eru hins vegar þekkt og verða oft vegna brenglaðs fjarlægðarskyns. Morð í lýsergíðvímu eru líka þekkt.

Lýsergsýra og lýsergíð eru fjarskyld boðefninu serótóníni að gerð. Verkun lýsergíðs í miðtaugkerfinu tengist með einhverjum hætti verkunum serótóníns og meginverkun þess virðist vera að draga úr losun serótóníns úr taugungum.

Óvíst er hvort lýsergíð getur valdið langvarandi geðveikikenndum viðbrögðum hjá þeim sem voru heilbrigðir fyrir eða aðeins orðið til þess að uppgötva dulda geðveiki. Lítið sem ekkert er vitað um áhrif langvarandi töku lýsergíðs á getu manna til hugvinnu þegar neyslu er hætt, á milli, eða á önnur líffærakerfi en miðtaugakerfið. Að öllum líkindum veldur lýsergíð ekki fósturskemmdum hjá mönnum, né skaðar erfðaeigindir.

Fyrstu heimildir um notkun lýsergíðs hér á landi eru frá því um 1970. Notkun þess virðist ætíð hafa verið sveiflukennd og aldrei hafa verið mikil. Psílócín og meskalín

Psílócín en einkum forstig þess, psílócýbín, finnst í vissum tegundum sveppa, einkum Psilocybe mexicana. Neysla þessa svepps var þekkt í Mexíkó og víðar í Mið-Ameríku fyrir meira en 3000 árum. Þessi vímugjafi var notaður við ýmsar félagslegar og trúarlegar athafnir. Psílócín (myndast út frá psílócýbíni í líkamanum) verkar að mestu eins og lýsergíð en er 100-200 sinnum veikara ef miðað er við milligrömm. Efnið er lítið notað nú en indíánar í Mexíkó nota þó sveppina að einhverju leyti enn.

Sveppir af tegundinni Psilocybe semilanceata vaxa hér á landi (m.a. í Reykjavík) og í þeim finnst nokkuð magn af psílócýbíni. Er því hugsanlegt að menn geti komist í vímu af því að neyta þessara sveppa.

Meskalín er vímugefandi efni sem finnst í peyote kaktusi (Lophophora williamsii) er vex í Mexíkó og sunnanverðum Bandaríkjunum. Heiti meskalíns er eftir indíánaþjóðflokki nokkrum en efnið hefur verið notað um aldaraðir sem vímugjafi við trúarathafnir í Mexíkó. Meskalín finnst einnig í berserkjasveppi (Amantia muscaria). Meskalín verkar í stórum dráttum eins og lýsergíð en er um 4000 sinnum veikara í milligrömmum talið.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE