Hvað er persónuleikaröskun? – Einkenni og úrræði

Það er sérstaklega einkenni persónuleikaraskana, ólíkt því sem er í hugsýki (neurosis) eða geðveiki (psykosis), að einkenni þeirra eins og þau koma fram í atferli viðkomandi einstaklings, koma niður á öðru fólki, jafnvel samfélaginu sem slíku, fremur en honum sjálfum. Hann lagar sig illa að siðum og reglum, hefur laka stjórn á hvötum sínum og löngunum og á erfitt með að tengjast öðrum nánum tilfinningaböndum. Hann er hins vegar oftast í eðlilegum veruleikatengslum og hugsun hans er rökræn. Oftast líður honum bærilega með sína skapgerð og skynjar ekki hve truflandi áhrif hann hefur á aðra. Flestar eða allar tegundir persónuleikaraskana hafa sem megineinkenni truflanir eða þroskastöðnun í geðtengslamyndun.

Persónuleikaröskun getur tekið á sig margar myndir. Hún getur komið fram í því hvernig menn hugsa og skynja, viðhorfi til annars fólks og túlkun á atburðum. Hún getur komið fram í tilfinningalegri tjáningu, samskiptum við aðra og stjórn á eigin löngunum og hvötum. Hin afbrigðilegu skapgerðareinkenni þurfa að hafa verið til staðar frá unglingsárum eða lengur til þess að örugglega megi greina þau sem persónuleikatruflun.

Til eru alþjóðleg flokkunarkerfi sem greina gerðir persónuleikaraskana. Hér er stuðst við slíkt flokkunarkerfi og að einhverju leyti við íslenskar þýðingar á heitunum.

Aðsóknar persónuleikaröskun (paranoid)

Einkenni þessarar röskunar er tortryggni út í annað fólk og tilhneiging viðkomandi til að túlka allt sem sagt er eða gert á verri veg, sem illvilja í sinn garð. Tiltekinn fjöldi einkenna þarf að vera til staðar til greiningar á þessari röskun og eru þessi þau helstu:

 • Hann grunar, án þess að ástæða sé til, að aðrir vilji nota sig, blekkja sig eða gera sér illt.
 • Hann efast stöðugt um tryggð og heiðarleika vina sinna eða samstarfsmanna gagnvart sér.
 • Hann trúir öðrum ekki fyrir hugmyndum sínum af ótta við að þær séu notaðar gegn honum.
 • Hann les ógnandi eða niðurlægjandi merkingu úr orðum annarra.
 • Hann ber kala og gremju til annarra og fyrirgefur ekki minnstu ávirðingar gagnvart sér.
 • Honum finnst hann stöðugt verða fyrir árásum annarra án þess að aðrir sjái tilefnið, og er fljótur að bregðast við með reiði eða gagnárás.
 • Hann óttast stöðugt að maki hans haldi framhjá honum án sjáanlegrar ástæðu

 

Kleyfhuga persónuleikaröskun (schizoid)

Einræna getur farið út fyrir viðtekin mörk og nefnist þá persónuleikaröskun af kleyfhugagerð, sem er ekki það sama og geðklofi. Hún lýsir sér m.a. á eftirfarandi hátt:

 • Viðkomandi er ómannblendinn og snauður í geðbrigðum.
 • Hann hefur enga þörf eða ánægju af mannlegum samskiptum, jafnvel ekki innan eigin fjölskyldu.
 • Hann hefur fá áhugamál sem hann iðkar í einrúmi.
 • Hann hefur lítinn áhuga fyrir kynlífi.
 • Hann er lítt næmur fyrir hrósi eða gagnrýni.
 • Hann er almennt í litlum geðtengslum við annað fólk.
 • Hann lifir gjarnan í óraunsæjum dagdraumum og hefur oft undarlegar hugmyndir þótt veruleikaskyn sé í lagi.

 

Geðklofalík persónuleikaröskun (schizotypal)

Þessi tegund röskunar er um margt mjög lík kleyfhugaröskun er er miklu nær geðklofa í einkennum sínum.  Hún einkennist einnig af erfiðleikum í geðtengslum og miklum kvíða í nánum samskiptum.

Meðal einkenna eru:

 • Aðsóknarhugmyndir sem jaðra við ranghugmyndir.
 • Undarlegur, oft magískur hugsunarháttur, m.a. á eigin, yfirnáttúrlegar gáfur.
 • Tortryggni.

 

Andfélagsleg persónuleikaröskun (antisocial)

Ein alvarlegasta tegundin er persónuleikatruflun af andfélagslegri gerð, sérstaklega af því að hún kemur verst niður á öðrum. Meðal einkenna má nefna:

 • Tillitsleysi við aðra og hneigð til að brjóta á öðrum í eiginhagsmunaskyni.
 • Virðingarleysi fyrir siðum, reglum og lögum sem leiðir oft til afbrota.
 • Viðkomandi beita ofbeldi ef það þjónar eigin stundarhagsmunum.
 • Beita lygum og blekkingum auðveldlega.
 • Hafa litla stjórn á löngunum, framkvæma fljótt það sem þeim dettur í hug en sjá ekki fyrir afleiðingarnar og læra ekki af reynslunni.
 • Hafa grunnar tilfinningar og hafa ekki samúð með öðrum nema á yfirborðinu.
 • Hafa ekki hæfileika til að tengjast öðrum tilfinningaböndum.
 • Samviskuleysi.
 • Siðblinda.

Borderline persónuleikaröskun

Borderline persónuleikaröskun er sjúkdómsástand á einhvers konar jaðarsvæði í geðsjúkdómakerfinu. Megin einkenni þessarar röskunar eru:

 • Óstöðugleiki í mannlegum samskiptum.
 • Óljós sjálfsmynd.
 • Stjórnlitlar tilfinningar.
 • Hvatvísi.
 • Sjálfseyðileggjandi hegðun, ss. stjórnlaus eyðsla, óhóflegt kynlíf, ofneysla áfengis og lyfja, ofát.
 • Sjálfsvígstilraunir og hótanir um slíkt.
 • Tilfinningasveiflur miklar.
 • Erfitt með að stjórna reiðitilfinningu, kenna öðrum um, finnst aðrir á móti sér.
 • Háður öðrum, leitar eftir nánd en á erfitt með að nýta sér hana.

 

Geðhrifa persónuleikaröskun (hystrionics)

Helstu einkenni:

 • Ýkt geðbrigði.
 • Athyglissýki.
 • Framkoma þeirra hefur stundum á sér kynferðislegt yfirbragð

 

Sjálflæg persónuleikaröskun (narcissistisk)

Einkenni:

 • Sjálfmiðaðir og sjálfumglaðir einstaklingar.
 • Hafa lítið innsæi í eigið sálarlíf.
 • Eiga erfitt með að setja sig í spor annarra og taka tillit til þeirra.
 • Eiga erfitt með að taka gagnrýni og sjá yfirleitt ekki sök hjá sjálfum sér.

Þegar þessir eiginleikar verða mjög áberandi í fari manns, sérstaklega ef þeir hafa truflandi áhrif á samskipti hans við annað fólk, flokkast það undir persónuleikaröskun.

Hliðrunar persónuleikaröskun (avoidant)

 

Einkenni:

 • Hlédrægni í félagslegum samskiptum.
 • Vanmetakennd.
 • Mikil viðkvæmni fyrir gagnrýni.

Fólk með þessa röskun forðast störf sem hafa í för með sér mikil samskipti við aðra vegna ótta við gagnrýni eða höfnun. Þeir þora ekki að blanda geði við fólk nema vera vissir um að fólki líki vel við þá. Þeir þora yfirleitt ekki að taka neina áhættu í félagslegu tilliti.

Hæðis persónuleikaröskun (dependent)

 

Einkenni:

 • Þörf fyrir að vera háðir öðrum.
 • Forðast að taka ábyrgð á sjálfum sér.
 • Aðskilnaðarkvíði.
 • Skortur á frumkvæði.

 

Þráhyggju – áráttu persónuleikaröskun (obsessive-compulsive)

Einkenni:

 • Ákaflega uppteknir af reglusemi og smámunum.
 • Fullkomnunarárátta, týna sér í smáatriðum.
 • Mikil samviskusemi og yfirmáta fastheldni.
 • Taka vinnuna fram yfir tómstundir og vináttutengsl.
 • Eiga erfitt með að henda, sanka oft að sér hlutum.
 • Varfærnir í eyðslu og oft nískir.

Munurinn á þráhyggju-áráttu sem persónuleikaröskun annars vegar og hugsýki hins vegar er fyrst og fremst sá að sem persónuleikaröskun er þetta lífsstíll, sem veldur ekki kvíða nema brugðið sé út af honum. Í hugsýkinni eru það einkennin (t.d. sífelldur handþvottur) sem veldur sjúklingnum vanlíðan og óþægindum.

Passive-agressive persónuleikaröskun

 • Vanmetakennd sem leitar útrásar í því að upphefja sjálfan sig eða kenna öðrum um.
 • Gremju sem leitar út í samskiptum við aðra t.d. í þrjósku eða undirróðri (passiv) eða í reiðiköstum og jafnvel ofbeldi (agressive).
 • Stjórn á hvötum ábótavant.
SHARE