Hvað er Psoriasis?

Psoriasis er langvinnur, síendurtekinn húðsjúkdómur. Sjúkdómsferlið getur verið mjög mismunandi, allt frá vægum einkennum, þar sem sjúklingurinn gerir sér jafnvel ekki grein fyrir að um psoriasis sé að ræða, til tilfella sem geta haft félagslega örorku í för með sér og jafnvel verið beinlínis lífshættuleg.

Psoriasis er ekki smitandi en getur hins vegar verið ættgengt. að baki er mjög flókið erfðafræðilegt mynstur, sem menn hafa enn ekki áttað sig á, en þetta tengist einnig því að sjúkdómurinn virðist vera algengari hjá einstaklingum í ákveðnum vefjaflokkum.

Psoriasis getur herjað á alla aldurshópa, en er algengastur hjá einstaklingum á aldrinum 15-40 ára. Orðið psoriasis er dregið af gríska orðinu psora, sem þýðir kláði.

Hver er orsökin?

Ekki er nákvæmlega vitað hver orsök sjúkdómsins er. Menn geta borið psoriasis í erfðavísunum og ekki er víst að sjúkdómurinn komi fram. Psoriasis smitast ekki. Ef einn eða fleiri af þeim þáttum sem ýta undir myndun psoriasis eru til staðar, til að mynda hálsbólgaaf völdum streptokokkabakteríu, alkóhól, ákveðin lyf, staðbundin erting eða skemmd í húðinni, getur komið fram psoriasis ef það er í erfðavísunum.

Psoriasis er skipt í tvær tegundir: psoriasis vulgaris og psoriasis pustulosa, sem síðan er hægt að flokka í fleiri undirflokka, eftir umfangi útbrota, endingu þeirra, staðsetningu útbrotanna og áferð þeirra.

Um það bil 6% psoriasis-sjúklinga fá svokallaða psoriasisliðagigt. Liðagigtin leggst aðallega á fingur og tær, en getur einnig lagst á hryggjarliðina.

Hver eru einkenni psoriasis vulgaris?

  • Psoriasis vulgaris er algengasta mynd sjúkdómsins. Fyrstu einkennin eru rauðir hnúðar eða skellur á húðinni. Svæðin stækka og hrúður myndast. Efsta lag hrúðursins dettur af, en neðsta lagið er fast. Ef þú kroppar í svæðið er hætta á smávægilegum blæðingum.
  • Psoriasis vulgaris getur lagst á öll svæði líkamans, en algengast er að hann leggist á olnboga, hné, klof, handleggi, fætur, hársvörð og neglur. Sjúkdómurinn leggst yfirleitt á sama stað báðum megin á líkamanum (þ.e. hann er samhverfur).
  • Psoriasis í nöglum lýsir sér sem litlar dældir í nöglunum, sem minna á dældir fingurbjargar. Þessu fylgir hins vegar ekki þykkildi í nöglunum, þannig að þær molna og detta af.
  • Inverse psoriasis (sprungusóri) leggst á húðfellingar, eins og handakrika, undir brjóstum, í húðfellingum á maga, umhverfis klof og á rasskinnar. Þetta lýsir sér ekki í hrúðurmyndun heldur rauðum ertandi skellum og oft kemur sveppasýking (af völdum sveppsins Candida albicans) í þá.
  • Psoriasis Guttata (dropasóri) getur orðið mjög bráður, sérstaklega eftir hálsbólgu af völdum streptokokkabakteríunnar, ásækir sér í lagi börn og ungt fólk. Þessi sjúkdómur lýsir sér í dropalöguðu hrúðri um allan líkamann. Oftast hverfur hann af sjálfu sér.
  • Erfitt getur verið að greina psoriasis í hársverði frá erfiðu flösuþrefi (seborrhoisk dermitatis). Stundum birtast þessir húðkvillar samtímis. Psoriasis getur einnig valdið útbrotum í andliti.

    Hver eru einkenni psoriasis pustulosa?

  • Psoriasis pustulosa er sjaldgæf mynd sjúkdómsins. Hún lýsir sér í blöðrumyndun á húðinni auk hefðbundinna útbrota. Misjafnt er hversu mikið er um útbrot og blöðrumyndun eru.

Hverjir eru í áhættuhópi?

Einstaklingar í fjölskyldum þar sem psoriasis hefur oft skotið upp kollinum, sbr. erfðaþáttinn. Það eykur líkurnar ef viðkomandi þjáist af streitu eða utanaðkomandi þáttum (svo sem alkóhólisma, sýkingum, lyfjameðferð o.s.frv.)

Hvað er til ráða?

  • Mikilvægt er að sjúklingur sætti sig við þá staðreynd að psoriasis er langvinnur sjúkdómur. Einkennandii fyrir sjúkdómsferlið eru tímabil án útbrota sem taka við af tímabilum með miklum útbrotum.
  • Ef það er eitthvað sem eykur líkur á útbrotum eða gerir þau verri ber að forðast áreitið.
  • Hægt er að meðhöndla allar myndir sjúkdómsins. Meðferðin felur ekki í sér lækningu en gerir sjúklingnum lífið bærilegra.
  • Varast ber skottulækningar og leita frekar viðurkenndra úrræða eins og t.d. böð í Bláa lóninu eða ferð til sólarlanda.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

  • Greiningin er yfirleitt byggð á sjúkdómseinkennum.
  • í vafatilvikum tekur læknirinn vefjasýni til rannsóknar.

Batahorfur

  • Sumir fá sjaldan einkenni en aðrir eru meira og minna alltaf hrjáðir af útbrotum. Þar á milli eru til alls kyns myndir af sjúkdómsferlinu.

Hver er meðferðin?

Æskilegast er að við meðferð sé haft samráð við húðsjúkdómalækni. Hún er annaðhvort svæðis- eða kerfisbundin og fer eftir aldri og heilsu sjúklingsins sem og eðli sjúkdómsins. Auk þess getur hún einnig falist í ljósameðferð (PUVA), tjöruböðum, hitameðferð, t.d. dvöl á sólríkum stöðum. Stöðugt er verið að þróa nýja meðferðarmöguleika.

  • Lyf til svæðisbundinnar meðferðar.
  • Smyrsl sem innihalda tjöru.
  • D-vítamín afleiður.
  • Væg hormón sem draga úr ofnæmisáhrifum.
  • Sterk og mjög sterk hormón sem draga úr ofnæmis áhrifum.
  • Bólgueyðandi hormón til kerfisbundinnar meðferðar.
  • Ónæmisbælandi lyf til kerfisbundinnar meðferðar við erfiðu psoriasis.
  • Lyf sem gera húðina næma gegn ljósum sem eru gefin með ljósameðferð við erfiðu psoriasis.

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

 

SHARE