Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?

Það er ekki alltaf auðvelt að vera karlmaður og af einhverjum ástæðum eiga margir karlmenn erfitt með að fóta sig í samfélagi dagsins öfugt við það sem ýmsir halda. Þessir erfiðleikar birtast í mörgum myndum. Við sjáum þá strax skjóta upp kollinum í barnaskólanum þar sem drengir eru líklegri til þess að lenda upp á kant við kerfið en stúlkur. Drengir fá reyndar oft mun meiri athygli í skólakerfinu en stúlkurnar, en sú athygli er gjarnan af neikvæðum toga. Kannski eiga margir drengir svona erfitt með að finna sig í skólanum vegna þess að þá skortir þar fyrirmyndir. Langflestir kennarar eru konur og skólinn hlýtur þar af leiðandi að mótast mikið af hugsunarhætti kvenna. Það er allt gott um þann hugsunarhátt að segja í sjálfu sér, en eins og dæmin sýna þá passar hann ekki alltaf fyrir drengi sem verða gjarnan að hálfgerðum vandræðagemsum í skólanum, eingöngu vegna þess að þeir fá ekki að vera strákar í friði.

Þessi vandræðagangur heldur áfram þegar strákarnir stækka. Flestir ungir ökumenn sem lenda í árekstrum og slysum eru karlmenn. Efalaust eru ástæðurnar margar, en oft er hægt að kenna um töffaraskap og því að hinn ungi ökumaður vill ekki „missa andlitið” frammi fyrir félögunum sem mana hann til að gefa allt í botn. Og það er ekki bara í hárri slysatíðni sem karlmenn toppa konur. Í fangelsum landsins eru karlmenn í miklum meirihluta og hið sama má segja um þau sem leita sér hjálpar vegna misnotkunar áfengis og fíkniefna. Þar hafa karlmenn aftur forystuna.

Sjá einnig: Karlmaður prófar að ganga í háum hælum heilan dag og langar að deyja!

En þegar komið er að langskólanámi, þá eru það stelpurnar sem skjóta strákunum ref fyrir rass. Í flestum deildum Háskóla Íslands svo dæmi sé tekið, eru það konur sem eru í meirihluta. Ætli strákarnir hætti ekki fyrr í námi til þess að drífa sig út á vinnumarkaðinn? Nú er enginn maður með mönnum nema hann græði peninga og það sem mesta. Það þarf að ganga hratt fyrir sig og bókvitið verður ekki í askana látið eins og Íslendingar hafa vitað frá fornu fari. Sóknin í gróðann skiptir í dag öllu, þó hún kosti langan vinnudag fjarri fjölskyldu, stressi og þreytu. Ekki minnkar álagið ef illa gengur. Eitthvað verður undan að láta og oft endar þetta ástand með upplausn fjölskyldunnar, óhóflegri áfengisneyslu, depurð og vonleysi. Að undanförnu hafa verið að birtast sorglegar tölur sem sýna að þeim karlmönnum fer fjölgandi sem á miðjum aldri sjá ekki lengur tilganginn með tilverunni og kjósa því að svipta sig lífinu. Ástæðurnar geta verið margar og erfitt að vita hvað veldur því að ungir og hraustir karlmenn grípa til slíkra örþrifaráða. Þar er þunglyndi oftar en ekki undirrótin, þunglyndi sem svo aftur á sér líkar orsakir.

Já, það er oft erfitt að vera karlmaður og kannski hefur það sjaldan verið eins erfitt og á okkar tímum. Þar með er ekki verið að gera lítið úr jafnréttisbaráttu kynjanna. Konur eru vissulega enn í minnihluta í stjórnunarstöðum í þjóðfélaginu, eiga undir högg að sækja gagnvart karlaveldinu og eru á lægri launum en karlmenn. Þessu þarf að breyta. En það þjóðfélag gróðahyggju og markaðsdýrkunar sem við höfum komið okkur á fót fer ekki síður illa með karlmennina, eins og dæmin hér að ofan sanna. Það eru sífellt fleiri karlmenn sem brotna undan kröfum samfélagsins, brotna undan vinnuálagi og stressi, brotna undan ímynd sem enginn í raun ætti að þurfa að rísa undir. Og þegar það gerist eiga karlmenn í fá hús að venda, öfugt við konurnar sem eru vanari að tala saman um vandamál sín og áhyggjur. Til þess að snúa þessari þróun við er ekki nóg að skrifa út fleiri lyfseðla á þunglyndis og geðlyf. Það þarf hugarfarsbreytingu í þjóðfélaginu. Og það fyrr en seinna.

 

SHARE