Hvað var ég að spá?

Ég er fífl!

Ég er þvílíkt fífl að stundum hreinlega átta ég mig ekki á því hversu mikill fáviti ég get verið. Mér hefur tekist að eyðileggja það besta sem hefur komið fyrir mig og ég skal segja þér hvernig. Ég efast reyndar um að þú munir trúa orði af þessu, enda er þessi saga mín lyginni líkust. Ef ég hefði ekki lent í þessu sjálfur þá hefði mér fundist þessi frásögn mín ekki í litlu lagi ótrúverðug.

Það er nokkuð síðan ég skrifaði síðasta pistil og ég veit að ég lofaði að segja frá brúðkaupinu mínu. Í stuttu máli sagt þá fór það fram í Háteigskirkju að viðstöddu fjölmenni. Veislan fór fram í félagsheimili Seltjarnarness og heppnaðist líka svona svakalega vel. Allir skemmtu sér konunglega og endaði veislan á dansleik og ekta íslensku fjöri. Í raun var dagurinn alveg stór vel heppnaður. Meira að segja gula fíflið lét sjá sig rétt á meðan myndatökunni stóð.

Vandræði mín hófust ekki fyrr en daginn eftir, á sunnudeginum. Nú, eins og venja er til, þá opnuðum við gjafirnar þá og fengum nær allt sem við, eða öllu heldur hún, höfðum sett á gjafalistann og tvennt af sumu, ég á til að mynda tvær sósukönnur. Rétt um fjögur hringdi síminn minn og ég svaraði.

„Já, er þetta Friðrik?“ spurði kona feimnislega.

„Já, það er hann,“ svaraði ég.

„Jú, komdu sæll. Ég heiti Ásdís,“ sagði konan. „Ég veit ekki hvort þú munir eftir mér.“

„Nei, ég get ekki sagt það,“ svaraði ég undrandi.

„Sko, við hittumst á Austur í júní 2010 og fórum heim saman,“ sagði þessi Ásdís og ég lýg því ekki, en tíminn stóð kyrr. Ég hef aðeins einu sinni haldið framhjá og það var með þessari konu. Ég fór á eitthvað skrall með félögunum og endaði einhvern veginn einn á Austur, þar sem ég fór að spjalla við þessa konu. „Sko, ég þarf eiginlega að segja þér svolítið.“

„Nú?“ stamaði ég og fannst hjartað slá svo hratt í brjósti mér að það hlyti að heyrast um alla íbúð.

„Jú, þannig er með mál með vöxtum að ég varð ólétt og á yndislega þriggja ára stelpu…,“ sagði hún en ég heyrði ekki meira. Fyrir augum mér dönsuðu svartir blettir og mér fannst ég eiga erfitt með andardrátt. Ég skellti á og sagðist þurfa að skjótast aðeins. Þegar ég var kominn inn í bíl og ekinn af stað náðu ég áttum á ný. Ég ók um borgina í um tvo tíma áður en ég áræddi að hringja í bróður minn. Ég sagði honum frá málavöxtum og hann ráðlagði mér að leggja spilin á borðið.

Að lokum manaði ég mig upp í að snúa aftur heim, þar sem mætti mér ekki lítið undrandi eiginkona, enda hafði ég varla kvatt hana áður en ég hljóp út. Eins og gefur að skilja þá hefði ég allt eins getað kastað handsprengju inn í íbúðina, því hún varð brjáluð, algjörlega snar og henti mér öfugum út með loforði um að hjónabandinu væri lokið. Ég endaði heima hjá mömmu og fékk að gista á sófanum hjá henni, eftir að hún hafði hellt sér yfir mig og kallað mig nöfnum sem ég vissi ekki einu sinni að væru til í íslensku.

Nokkrum dögum síðar heyrði ég aftur í Ásdísi, hún óskaði eftir því að ég færi í faðernispróf. Ég samþykkti það án þess að spá eitthvað frekar í það og mætti á uppgefnum tíma í blóðprufu. Um viku síðar heyrði ég aftur í Ásdísi.

„Sæll, Friðrik,“ sagði hún. „Jæja, þá eru niðurstöðurnar komnar og ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að segja þér þetta en … þú ert ekki faðirinn!“

„Ha? Hvað áttu við?“

„Jú, sko, við vinur minn sváfum saman sömu helgi en notuðum smokk. Þar sem við notuðum ekki neina getnaðarvörn þá hélt ég að þú værir faðirinn.“

„Þannig að …,“ sagði ég en komst ekki lengra. Ég var í senn afar ánægður með þessa niðurstöðu en um leið afar reiður. „Bíddu, ha? Við notuðum smokk. Þú margheimtaðir það, ef ég man rétt.“

„Ha, var það? Æ, ég hlýt þá að hafa ruglað ykkur Sigga saman,“ svaraði Ásdís.

Ég lagði á. Ég vildi ekki segja það sem ég var að hugsa. Þannig er nú staðan hjá mér, mín fyrrverandi hefur þegar sótt um skilnað hjá sýslumanni og hent öllu dótinu mínu út. Ég fæ ekki hitta börnin mín, af því að hún vill það ekki og þar sem við erum ekki með neinn samning í gangi um umgengni eða forræði þá er ég einhvern veginn valdalaus. Ég sef á sófanum hjá mömmu í gamalmennahúsinu þar sem hún býr og vorkenni sjálfum mér á kvöldin. Hvernig gat ég verið svona heimskur?

SHARE