Hvað veldur ristruflunum? – Hvað er til ráða?

Ef þú átt erfitt með að láta þér rísa hold þannig að ekki sé hægt að tala um viðunandi kynlíf þá er kominn upp nokkur vandi. En þótt um stinningarvanda sé að ræða þýðir það ekki að þú sért ófrjór og getir ekki haft sáðlát eða fengið fullnægingu.

Tengist þetta aldrinum?

Já, það er augljóst samhengi þarna á milli. Tíðni þessa vanda eykst með aldrinum, en stinningarvandi er ekki eðlileg og óumflýjanleg afleiðing þess að eldast. Miklu fremur er hér um að ræða afleiðingu sjúkdóma og aðstæðna sem fylgja hækkandi aldri.

Sjá einnig: 11 staðreyndir sem þú þarft að vita ef þú stundar kynlíf

Hér er æðakölkun mikilvægt atriði. Við æðakölkun þrengjast æðar og verða ekki eins teygjanlegar og áður. Því verður blóðstreymið minna. Æðakölkun hefur áhrif á allar æðar í líkamanum – líka æðarnar í limnum. Minnkandi blóðstreymi í lim hefur í för með sér vanda við stinningu.

Er unnt að meðhöndla vandann?

Það má meðhöndla ristruflun hjá langflestum. Margar leiðir til meðhöndlunar eru fyrir hendi og því engin ástæða til að sætta sig bara við að búa við þessi vandkvæði.

Hvað get ég gert sjálfur?

Það er ýmislegt hægt að gera:

  • Mikilvægast er að geta rætt þennan vanda við maka og einnig við lækni. Margir karlar halda að þeir séu þeir einu sem eiga við þetta vandamál að stríða, þetta sé bara „eitthvað sem kemur með aldrinum“. Það er kannski ekki auðvelt að ræða þetta mál en því fyrr sem tekið er á því, þeim mun fyrr er hægt að komast að því hvaða meðhöndlun hentar best.
  •  Ef þú reykir eða neytir mikils áfengis getur það aukið á vandann. Þú gætir rætt við lækninn um að fá aðstoð hans við að minnka eða hætta reykingum og drykkju.
  • Ýmis lyf geta orsakað vanda við stinningu eða aukið á þann vanda sem fyrir er. Einkum er um að ræða lyf við háum blóðþrýstingi, flogaveiki og þunglyndi auk vatnslosandi lyfja. Ef þú álítur að vandinn tengist nýjum lyfjum sem þú hefur fengið er mikilvægt að láta lækninn vita.

Sjá einnig: 8 atriði sem hann myndi vilja að þú vissir um kynlíf

Hvers konar meðhöndlun er um að ræða?

Læknirinn getur leiðbeint þér um möguleika til meðhöndlunar. Það er yfirleitt ekki þörf á að fara í miklar rannsóknir áður en meðhöndlun hefst. Þú þarft hins vegar að ræða við lækni um hvað hafi angrað þig og hvaða lyf þú tekur. Þú skalt einnig láta taka hjartalínurit (EKG) og mæla blóðþrýsting.

Það er óhætt að taka lyf við ristruflun ef þess er gætt að:

  • fá lyfin með lyfseðli frá lækni.
  • ræða við lækni um fyrri sjúkdóma og önnur lyf áður en meðhöndlun hefst.
  • ræða við lækni ef aukaverkanir koma fram.
  • fylgja ráðum læknis um skammtastærð.

Hvað er til ráða?

Það eru til ýmsar meðferðir við stinningarvanda og níu af hverjum tíu karlmönnum finna einhvern árangur af meðferðinni. Töflumeðferð er algengasta leiðin en þær verka þannig að blóðflæði til getnaðarlimsins eykst sem veldur því að við kynörvun verður limurinn líklegri til að ná stinningu.

Til eru nokkrar gerðir af töflum við stinningarvanda og mismunandi hvort þær hafa verkun til lengri eða skemmri tíma. Algengasta leiðin er að taka eina töflu áður en fyrirhugað er að stunda kynlíf en ef langverkandi lyf er notað verður minni þörf á því að skipuleggja kynlífið fyrirfram.

Aðrar meðferðaleiðir við stinningarvanda eru til en mun minna notaðar í dag.

Sjá einnig: Kynhvöt karla og kvenna – Hvað dregur úr kynhvötinni?

  • Til er lyfjagjöf í sprautuformi en þá er lyfinu sprautað með mjög fínni nál í hliðina á limnum.  Lyfið veldur stinningu án kynörvunar.
  • Viðtalsmeðferð getur komið að gagni ef vandamálið er af sálrænum toga.
  • Ef lyfjameðferð virkar ekki eða hentar ekki af einhverjum ástæðum má prófa risdælu. Hún virkar þannig að dælunni er komið fyrir utan um liminn og með dælunni er myndaður undirþrýstingur sem veldur því að blóð sogast fram í liminn og stinning verður. Til að stinning haldist þarf að koma teygju fyrir við rót limsins áður en dælan er fjarlægð.
  • Stinningarvanda er líka hægt að meðhöndla með aðgerð. Þetta er ekki algeng leið og ekki framkvæmd nema önnur úrræði hafi brugðist.

 

SHARE