Hvað viltu afreka á nýju ári 2018?

Setur þú þér áramótaheit?  Sem fer svo algerlega út um þúfur!

Þannig var það hjá mér fyrir margt löngu en eftir að ég fór að vinna við að efla fólk þá var ýmislegt sem ég breytti í eigin lífi. Jú ég lærði mikið af fólkinu sem ég vann með og af þeirri fagmenntun sem ég hef.

Til dæmis hætti ég að gera áramótaheit sem voru dæmd til þess að fara út um þúfur með tilheyrandi niðurbroti fyrir sjálfsmyndina.

Ég fór að setja mér markmið, þrepaskipt markmið þar sem ég var með stórt markmið sem ég skipti niður í lítil markmið sem vörðuðu leiðina að stóra markmiðinu.

Viti menn það virkar og er skemmtilegt.

Þessi aðferð gerir það að verkum að sjálfið verður ekki fyrir hnjaski en það þarf líka að passa að litlu markmiðin séu yfirstíganleg.

Annað sem er sniðugt að gera í upphafi árs er að skrifa niður á litla miða það sem þig langar að afreka á árinu. Setja svo miðana í fallega krukku og kíkja á miðana á Gamlársdag og sjá hverju þú hefur áorkað og setja niður markmið fyrir það sem þú átt eftir að klára ?

Skil eftir hér eitt dæmi um markmið.

Ég setti mér það að markmiði að ganga á 7 fell fyrir fjórum árum, þá í engu formi og stór-reykingakona.

Ég byrjaði á því að ákveða að fara út að ganga tvisvar í viku og bara 500 metra. Það gekk eftir svo næstu viku ákvað ég að fara þrisvar í vikunni og ná kílómetra. Já það gekk og svona smá jók ég lengdina og fór aldrei minna en þrisvar í viku. Eftir einhverjar vikur fór ég að  leggja á fellinn, byrjaði á Lágafelli í mosó tók svo fellinn þar í kring og áður en sumarið var liðið hafði ég klárað þessi sjö fell. Sum þeirra gengið oftar en einu sinni, mjög ánægð með mig!

 

Síðan þá hef ég gengið mörg hundruð kílómetra og á fjölda fjalla og það sem best er hætt að reykja. Það átti engin von á því að ég hætti að reykja.

Þvílíkt frelsi.

Stóra markmiðið mitt 2018 er að bræða af mér aukakílóin sem ég hef bætt á mig eftir að ég hætti að reykja. Ég datt í nammiskálina fyrsta árið og fékk breytingaskeiðið í hausinn og viti menn ég græddi fullt af kílóum en hey meira til af mér.

Þegar ég hætti að reykja gaf ég mér þrjú ár þar sem ég var sátt við að fitna eitthvað og væri farin að bræða af mér aftur mörinn. Það verða þrjú ár í júlí 2018 svo eins gott að setja niður lítil markmið og varða leið að þeiri þyngd sem ég vill ná.

Ég get það!!

 

Ást og friður

SHARE