Hver er ábyrgð kaupmannsins? – Vangaveltur föður um laugardagsnammi

Ég hef oft á tíðum velt þessari spurningu fyrir mér en aldrei fengið neitt almennilegt svar við henni. Kannski er þetta bara eitthvað væl í mér og forræðishyggjan í hámarki en samt hef ég talverðar áhyggjur af þessari þróun.

Ég byrjaði spá virkilega í þessu þegar ég gerði þá heiðarlegur tilraun að bjóða tveimur dætrum mínum að sleppa laugardagssælgætinu og kaupa þess í stað fullt af ferskum ávöxtum. Eftir langar og strangar samningviðræður komumst við að þeirri niðurstöðu að þær máttu velja sér nokkrar týpur af ávöxtum alveg sama hvað þeir hétu eða hvernig þeir líta út.

Laugardagsnammið hafði til þessa verið valið á nammibar í matvöruverslun þar sem að maður fékk 50% afslátt og pokarnir okkar fylltir á kannski rétt um 1000 kr. En þar sem börnunum mínum finnast ávextir svo góðir ákvað ég að reyna á þetta. Við fórum í góðum „fíling“ útí búð og sú yngri fékk að stjórna kerruni (mini-kerru). Svo komum við að kælinum með öllum flottu og fínu ávöxtunum og völdum ávexti sem enginn okkar hafði áður smakkað og svo eitthvað af jarðaberjum og vínberjum, þessu klassíska. Svo var komið að því að borga, við öll í góðum skapi og svaka stemning hjá okkur en svo heyrðist afgreiðslustúlkunni ……4850 kr………ég fékk vægt sjokk. Lét að sjálfsögðu engan taka eftir því og borgaði bara „laugardagsnammið“ okkar en það sem ég sá á eftir þessum pening.

Það er akkúrat það sem sjokkeraði mig. Að sjá eftir því að hafa ekki farið með þær bara í nammibarinn í alla þessa gríðarlegu óhollustu og klárað bara laugardagsnammið fyrir 1000 kr. Þarna langaði bara einum „saklausum“ pabba að stuðla að hollustu fyrir dætur sínar án þess að eyðileggja „nammidaginn“. En manni er bara refsað með himinnháum reikning.

Það sem ég er að velta fyrir mér er, af hverju eru engar reglur um þetta eða er hægt að setja einhverjar seglur um þetta. Það eru alltaf að koma fréttir um það hvað ungir krakkar borða óhollan mat og að við séum að verða ein feitasta þjóð í heimi. Samt er óhollustinni otað að okkur í gríð og erg sama hvar maður er. Sælgæti fær öll bestu plássin í búðunum og ég veit ekki um þá matvöruverslun sem ekki hefur sælgæti við búðarkassana svo að fólk geti örugglega gripið eitt súkkulaðistykki svona til að toppa innkaupin.

Að sjálfsögðu er ábyrgðin fyrst og fremst hjá hverjum og einum sem kaupir sér alla þessa óhollustu en einhverstaðar heyrði ég að ef það væri verið að finna upp “sykur” í dag væri hann án efa bannaður eins og hvert annað „fíkniefni“.

Snýst þetta EKKERT um samfélagslega ábyrð kaupmannsins eða heildsalanna? Ég man ekki eftir því að hafa nokkurntímann kvartað yfir því hvað sælgæti er orðið dýrt og trúið mér í kvarta mikið yfir verðlaginu á Íslandi í dag. Er sælgæti bara svona miklu ódýrara í framleiðslu og innkaupum heldur en ávextir og annar hollur matur? Eða er kaupmaðurinn, heildsalan og framleiðandinn vísvitandi að negla niður verðum á sælgæti vitandi það að að sykur kallar á meiri sykur og þar af leiðandi minni framleið en miklu meiri sala.

En auðvitað snýst þetta bara um viðskipti og þessi góðu og söluvænu pláss við búðakassana SELJA og SELJA enda þurfa sælgætisframleiðindunir að borga sérstaklega fyrir þessi pláss.

Það er þessi þróun sem ég hef áhyggjur af og veit ekki alveg hvernig hún endar ef ekkert verður gert því mér líður svolítið þannig að fjármagnsins vegna neyðist ég til að versla frekar óhollan mat handa börnunum mínum og mér og ég fæ góða aðstoð við það frá kaupmanninum.

SHARE