Hver er samferða þér í lífinu?

Samfylgd er dýrmætt fyrirbæri og ég hef verið svo lánsöm að fá að ganga samferða allskonar fólki í þessu lífi, fólki sem hefur staldrað við til langs tíma, sem hafa staldrað við um stund, sem hafa horfið um tíma og sem hafa vaxið frá mér og ég frá þeim en svo löngu seinna höfum við vaxið saman aftur.

Samfylgd er eins og annað í þessu lífi hún á sér upphaf og endir, fylgir manni í gegnum lífið og mín reynsla er sú að lífið sendir mér nákvæmlega það fólk sem ég þarf hverju sinni, eiginlega sníðir fólk að mér eftir verkefnum lífsins. 


Samfylgd getur verið erfið og skemmtileg en að mínu mati er hún alltaf dýrmæt. Fólkið sem á hlutdeild í lífi okkar á misjafnan stað í hjarta okkar og hefur misjafnan titil í hugum okkar. En allt það fólk sem fylgir okkur einhvern spöl í þessu lífi hefur tilgang inn í líf okkar. 

Allir samferðamenn í þessu lífi hafa eitthvað að kenna okkur og sumir reynast okkar stærsta þroskaverkefni. Með sumum njótum við að ganga en viljum gjarnan stytta gönguna með öðrum.


Það er gott fyrir mig að minna mig á þetta með tilganginn og muna að ég hef tilgang inn í líf fólksins sem ég geng samferða í þessu lífi og þess vegna vera dugleg að vanda mig í framkomu og að þakka fólki fyrir að fá að vera partur af þeirra lífi.  Það eru forréttindi að fá að taka þátt í lífi annara og ekki síðri forréttindi að hafa gott fólk sér við hlið í lífinu. 


Fyrir mig er mikilvægt að velja mér viðhorf í upphafi dags s.s hvort ég ætla að vera þakklát, glöð, fúl eða jafnvel full af sjálfsvorkun. Ég hef nefnilega tekið eftir því og lært það að ég fæ nákvæmlega það sem ég gef frá mér!!

Mér finnst frekar súrt að fá til mín neikvæða samfylgd svo betra að gefa af sér gott og fá gott til baka.

Ég ber ábyrgð á þeirri orku sem ég gef frá mér til samfylgdarmanna minna!


Þannig eru töfrar samfylgdarinnar í þessu lífi 

Ást og friður

SHARE