Hvernig getum við náð markmiðum okkar á nýju ári og árangri til frambúðar?

Ég hélt á stjörnuljósi, rétti höndina upp til himna og lofaði sjálfri mér að með nýju ári myndi líf mitt breytast, ég ætlaði að létta mig um 10 kg, ég ætlaði að vera duglegri í ræktinni og ég ætlaði að svo sannarlega að taka mig á mataræðinu.  Nú ætla ég og það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að áætlun mín takist.

Nýársheitin byrja alltaf svona, á hugsun og það er eina leiðin sem við getum byrjað.  En hugsunin nægir ekki til, framkvæmd verður að fylgja.  Fyrir suma er það nóg að hugsa um markmið komandi árs, fyrir aðra virkar það betur að skrifa þau niður.  Mörg okkar taka fyrsta skrefið, sérstaklega eftir áramótin.  Við byrjum árið full vonar og eftirvæntingar um að þetta ár verði betra en það síðasta og að í þetta skiptið fari allt að áætlun.

Við byrjum í ræktinni, mataræðið er tekið fyrir og okkur líður æðislega en einhvers staðar á leiðinni verður þetta allt saman of erfitt að viðhalda.  Stundum eru það aðstæður sem breytast, erfiðleikar koma upp eða þá að við sjáum ekki árangur erfiðis.  Við tökum hlé yfir helgi sem síðan færist að næstu helgi og áður en við vitum af er komið að næstu áramótum.  Ný áramótaheit eru sett og við hefjumst handa rétt eins og áður full eftirvæntingar og vonar.  Hjá flestum styttist sá tími stöðugt sem við höldum okkur við efnið og á réttri braut þar til að sá tími verður að engu og við hættum að reyna.

Svo hér erum við komin, árið 2014 rétt gengið í garð og ný áramótaheit hafa verið sett.  Ennþá eru það margir sem eru vongóðir að í þetta sinn gangi allt af óskum.  En svona til að horfa fram á við með raunsæisaugum, hefur þá eitthvað breyst frá því í fyrra eða frá því árinu þar áður?  Ertu búin/n að ráða þjálfara, næringarráðgjafa eða búin að skrá þig á námskeið?  Hvers konar stuðning hefur þú núna sem sem þú hafðir ekki í fyrra?  Hvernig veistu fyrir víst að þú komir ekki til með að gefast upp? Hversu viss ertu um að þú eigir eftir að halda áætlunina út árið?  Ertu með nýja áætlun sem getur ekki brugðist?  Ertu með nýja hugmynd sem þú trúir og treystir á?

Sorglegt en satt, flest okkar eru ekki með áætlun sem er neitt öðruvísi en sú sem við studdumst við árinu áður.  Sum okkar hugsa ekki einu sinni svo langt að setja upp áætlun.  Við höldum að það sé nóg að taka ákvörðun og þá gangi allt að óskum.  Við höldum að ákveðni okkar og drifkraftur á þessari stundu verði okkur til framdráttar.  En hugsanir okkar og tilfinningar breytast og geta breyst frá degi til dags.  Einn daginn ertu í stuði til að vinna að markmiðum þínum, hinn daginn ertu það ekki.  Við gleymum að reikna með erfiðleikum, neikvæðum tilfinningum, löngun í óhollustu og öðru því sem getur fleygt okkur af réttri braut á svipstundu.  Við gleymum því að mannleg hegðun stýrist af því að við sækjum í ánægju og reynum að forðast sársauka og á meðan að reynsla okkar af nýju lífsmynstri er meira tengd sársauka en ánægju er engin mannleg leið að halda nýja mynstrinu til streitu.

Hvað er þá til ráða? Hvernig getum við náð markmiðum okkar og árangri til frambúðar? Hvernig förum við að því að taka skrefið alla leið?

Hér fyrir neðan eru nokkur ráð sem þú getur nýtt þér til að taka skrefið til fulls.  Þetta eru fyrstu 3 ráðin sem ég kenni af 16 sem ég kenni á námskeiðinu ‘Nýársheitin og hvernig á að standa við þau’.

1. Að skrifa niður nýársheitin er fyrsta skrefið en að sjálfsögðu ekki nóg.   Þau markmið sem þú setur þér á árinu verða að vera nákvæm og hnitmiðuð.  Ef þú vilt breyta lífsstílnum er ekki nóg að ákveða að borða hollan mat og hreyfa sig.  Hverju nákvæmlega ætlar þú að breyta og hvernig ætlar þú að gera það?  Það er ekki nauðsynlegt eins og margir halda að ákveða fyrirfram hvert einasta skref að settu marki heldur er það nóg að þú ákveðir markmið vikunnar eina viku í senn.  Á meðan að þú færist fram á við í viku hverri getur þú verið viss um að ná settu marki á einhverjum tímapunkti.

2. Einblíndu á markmið vikunnar og jafnvel á markmið dagsins í stað þess að hugsa um lokamarkmiðið.  Ef þú ætlar þér að léttast um 30 kg hugsaðu um 1 kg í einu eða jafnvel bara hálft. Einnig mæli ég frekar með að þú einblínir á hegðunar markmið frekar en útkomu markmið sem þýðir að það þú einblínir frekar á að breyta ákveðnu hegðunarmynstri í viku hverri í stað þess að einblína á að missa ákveðinn kílóa fjölda.  Þú gætir til dæmis sett þér það sem markmið að fara í ræktina 3 sinnum þá vikuna, borða 2 skammta af grænmeti á hverjum degi og drekka 2 litra af vatni.  Ef þú nærð þessum markmiðum og heldur þeim svo við hefur þú tekið skrefið í átt að bættum og betri venjum.  Næstu viku getur þú svo sett þér ný hegðunarmarkmið sem þú einnig heldur við í áframhaldinu.  Það getur hjálpað þeim sem eru með vigt- maníu (þ.e.a.s  þeir sem stíga á vigt á hverjum degi og láta svo útkomuna ráða skapgerð dagsins) að henda vigtinni út og einblína frekar á hvernig líðan breytist og hvernig lífstíllinn hefur breyst..

3. Einblíndu á þann mat sem þú veist að kemur til með að hjálpa þér að ná settu marki í stað þess að einblína á þann forboðna.  Þegar ég byrjaði feril minn í Ræktinni  Seltjarnarnesi fyrir 16 árum síðan man ég að ég gaf þeim viðskiptavinum sem komu á fitubrennslunámskeið hjá mér 2 matarlista, einn innihélt allan þann mat sem ég vildi að þeir forðuðust og hinn listinn bar þann mat sem ég mælti með.  Síðan bað ég fólk um að hengja báða listana á ísskápinn.  Það sem gerðist var að í stað þess að neyslan minnkaði á þeim mat sem ég bað fólk um að forðast jókst hún.  Ég lærði það síðar að það sem við einblínum á langar okkur í og með því að hafa bannlistann fyrir augunum í hvert sinn sem ísskápurinn var opnaður jókst að sjálfsögðu löngunin.  Því ráðlegg ég að setja engan mat á bannlista heldur einblína og hugsa um það sem þú ætlar að bæta við mataræðið frekar en það sem þú ætlar að taka út.

Mundu að breyta um lífsstíl fjallar um að breyta og bæta rótgrónum venjum.  Það tekur tíma og þolinmæði þar sem þú þarft að forrita heilann upp á nýtt.  Með því að taka eitt skref í einu, einblína á skammtíma markmið og tengja jákvæðar tilfinningar nýjum lífsstíl eykur þú líkurnar margfalt á því að á næsta ári getir þú sett þér NÝ markmið í stað þeirra sem þú hefur nú unnið að í fjölda ár án þess að sjá árangur erfiðis.

Höfundur: Helga Marin Bergsteinsdóttir.

Helga Marin er heilsu og íþróttafræðingur,sem búsett er í Dubai er komin hingað til lands í stuttan tíma til að vera með fyrirlestra og námskeið. Síðustu þrjú skipti sem Helga var á landinu hélt hún yfir 90 fyrirlestra og námskeið með metaðsókn.  Helga rekur sitt eigið fyrirtæki, Health, Mind and Body í Dubai og hefur unnið sér þar sess sem þekktur heilsufræðingur fyrir þær óhefðbundnu leiðir sem hún fer.  Helga hefur útbúið fjölda námskeiða sem fyrirbyggja og veita lausnir gegn sjúkdómum, sjálfseflingarnámskeið, streitu-lausnir og aðhaldsnámskeið.

SHARE