Hvernig lýsir meðvirkni sér?

Erfitt getur reynst að koma sér út úr vítahring meðvirkni

Fyrirmyndarfjölskylda. Allt getur litið vel út á yfirborðinu í fjölskyldu alkóhólista, enda er oft þagað um vandamálið. Þeir sem alkóhólistanum tengjast verða engu að síður fyrir áhrifum af fíknsjúkdóminum og þróa oft með sér hegðunarmynstur með það að markmiði að takast á við líf sem ekki er heilbrigt.

Þrátt fyrir að meðvirkni hafi ekki verið skilgreind læknisfræðilega sem sjúkdómur er meðvirkni hegðunarmynstur, sem ber að taka alvarlega. Kjarninn snýst nefnilega um að sá meðvirki stjórnar ekki hugsunum sínum. Hann á þar af leiðandi ákaflega erfitt með að taka ákvarðanir og þarf sífellt á viðurkenningu annarra að halda til að sinna sjálfum sér og vera til. Lágt sjálfsmat, samskiptaörðugleikar, færniskerðingar hvað varðar allar athafnir daglegs lífs og minnkuð lífsgæði geta svo auðveldlega orðið fylgifiskar meðvirkni, sem leitt getur til þess að fólk endar uppi í rúmi með kvíða og þunglyndi, segir Kristjana Milla Snorradóttir, iðjuþjálfi við Heilsugæsluna í Grafarvogi. Hún starfar þar í meðferðarteymi sem er að fást við geð- og sálfélagsleg vandamál barna og unglinga og hefur Milla, eins og hún kýs að kalla sig, að undanförnu farið á milli framhaldsskóla og flutt fyrirlestra um meðvirknina, sem hún segir að sé ákaflega algeng og birtist í fjölmörgum myndum. Persónulega kannast Milla við fyrirbærið meðvirkni því hún segist hafa verið alin upp við mikinn alkóhólisma, en hafi í seinni tíð náð að vinna sig eilítið út úr henni með hjálp fagaðila og sjálfshjálparhópa.

Sjá einnig: Meðvirkir karlmenn

Allt í fína í minni fjölskyldu

„Ég var elsta systkinið á heimilinu og var auðvitað alltaf alveg bullandi meðvirk og er enn. Það er því svolítið skondið að ég skuli hafa valið mér starfsvettvang sem felst í því að fræða og freista þess að hjálpa öðrum í sömu aðstæðum. Ég tók ábyrgðina í mínar hendur, passaði að systkini mín mættu á réttum tíma í tómstundirnar, passaði að öllum liði vel og að öll fjölskyldan rúllaði frá degi til dags tiltölulega snurðulaust til að sýna fram á að það væri sko allt í fína lagi í minni fjölskyldu. Kjarni vandamálsins var þagaður í hel enda nærist alkóhólistinn á því að um hann er ekki rætt enda algjört „tabú“ að tala um tilfinningar. Þegar komið var fram á fullorðinsár átti ég orðið erfitt með að mæta í vinnu og var farin að einangra mig félagslega þó ég hafi í eðli mínu afskaplega ríka þörf fyrir félagsleg samskipti. Svo endaði þetta í tómu þunglyndi hjá mér,“ segir Milla, sem nú er 29 ára gömul. „Ég er orðin mér meðvitandi um eigin meðvirkni og því búin að ná ákveðnum bata, en er samt alltaf meðvirk. Ég er t.d. skíthrædd um hvað fólki finnst um mig og segi um mig og ef mömmu minni líður illa, þá líður mér líka ofboðslega illa, meira en eðlilegt getur talist.“

Atferli og hegðun til að lifa af

Meðvirkni kom fyrst fram sem hugtak í meðferðargeiranum á áttunda áratugnum þótt menn hefðu löngu áður áttað sig á tilvist þess. Meðferðaraðilar og aðstandendur fíkla höfðu áttað sig á að sá sem tengdist og varð fyrir áhrifum einstaklings með fíknsjúkdóm þróaði með sér hegðunarmynstur með það að markmiði að takast á við líf sem var ekki heilbrigt. Rannsóknir bentu til að andlegt, líkamlegt, sálrænt og tilfinningalegt ástand hjá mörgum aðstandendum væri svipað ástandi áfengissjúklinga. Aðstandendur sem áttu það sameiginlegt að vera í nánum tengslum við áfengissjúkling upplifðu þetta ástand þrátt fyrir að vera ekki sjálfir haldnir fíkn. Í ljós hefur komið að fleiri en þeir sem tengjast áfengissjúklingum glíma við meðvirkni og virðast flestir eiga það sameiginlegt að hafa þróað með sér hegðunarmynstur og atferli til að lifa af. Meðvirk hegðun birtist nefnilega líka hjá aðstandendum geðsjúkra, annarra langveikra, hjá aðstandendum matar- og kynlífsfíkla, fórnarlamba ofbeldis og einstaklinga sem hafa alist upp eða búið við „óæskilegar“ aðstæður, að sögn Millu, sem hefur líka orðið vör við það að meðvirkni getur grasserað í vina- og systkinahópum.

Sjá einnig: Fleiri ráð fyrir þig sem elskar einhvern með ADD/ADHD

Hafa litla trú á eigin getu

Meðvirkni er mikið notað hugtak, kannski ofnotað, vannotað eða misnotað. Meðvirkni hefur verið skilgreind sem vanstarfhæft lífsmynstur sem lærist í gegnum þær reglur sem settar eru í fjölskyldukerfinu. Meðvirkir einstaklingar hafa litla trú á eigin getu og áhrifamætti, eiga erfitt með að taka ákvarðanir og sækjast því eftir viðurkenningu annarra til að fullnægja eigin þörfum. Meðvirkir einstaklingar hafa einnig lært að taka stjórnina af öðru fólki og aðstæðum til þess að milda áhrif erfiðra atburða, að sögn Millu.

„Meðvirkum einstaklingi finnst hann vera ófullkominn og lítur gjarnan á annað fólk sem uppsprettu eigin hamingju. Meðvirkur einstaklingur gengur um með lágt sjálfsmat. Hann þekkir ekki eigin tilfinningar, þarfir og vilja og þarf því stöðugt á viðbrögðum, stuðningi og viðurkenningu annarra að halda því hann lifir í stöðugum ótta við höfnun. Sá ótti getur leitt til fullkomnunaráráttu og hræðslu við að tjá skoðanir sínar auk þess sem meðvirkir geta átt það til að hagræða sannleikanum eða hylma yfir með öðru fólki. Þrátt fyrir öll einkennin og hegðunarmynstur áttar hinn meðvirki sig oft ekki á þeim aðstæðum sem hann glímir við. Honum líður ekki vel með sjálfan sig, á erfitt með að takast á við dagleg viðfangsefni jafnframt því sem hann á erfitt með að setja í orð hvað það er sem veldur kvíðanum og af hverju honum líður eins og honum líður.“

Traust á eigin tilfinningar

Meðvirkir einstaklingar lenda oft í vítahring sem erfitt er að rjúfa þar sem hinn meðvirki áttar sig bæði seint og illa á ástandi sínu. „Leiðin frá meðvirkni felst í því að einstaklingurinn geri sér grein fyrir því að hann hefur ekki stjórn á hugsun sinni og treystir ekki eigin tilfinningum. Viðkomandi þarf að einbeita sér að því að ná tökum á eigin hugsunum og læra að treysta á eigin tilfinningar í stað þess að lifa í gegnum annað fólk,“ segir Milla og bætir að lokum við að þeir sem glíma við meðvirkni geti leitað til fagaðila í heilbrigðiskerfinu sem og til sjálfshjálparhópa á borð við Coda, sem er fyrir fólk sem upplifir einkenni meðvirkni en hefur ekki endilega alist upp eða búið við alkóhólisma, og Al-anon-samtökin á Íslandi, sem fögnuðu 35 ára afmæli sínu nýlega og hafa þann göfuga tilgang að hjálpa fjölskyldum og vinum alkóhólista.

Einkennin

Meðvirkni hefur verið skilgreind sem mynstur þar sem einstaklingur er á kvalafullan hátt háður eða fastur í áráttukenndri hegðun og háður viðurkenningu annarra í þeirri viðleitni að öðlast öryggi, sjálfsvirðingu og heilsteypta sjálfsmynd.

Flestir upplifa einhvern tímann einkenni meðvirkni, en henni fylgir flókið safn einkenna. Einstaklingur getur þó verið mismeðvirkur í mismunandi aðstæðum, með maka, fjölskyldu, vinum eða samstarfsmönnum. Einkennum hefur verið skipt upp í afneitun, litla sjálfsvirðingu, undanlátssemi og stjórnsemi, en atferli einstaklings, sem glímir við meðvirkni, birtist meðal annars í eftirfarandi þáttum:

* Hann á erfitt með að gera sér grein fyrir líðan sinni.

* Hann gerir lítið úr sjálfum sér og breytir eða afneitar líðan sinni.

* Hann á erfitt með að taka ákvarðanir.

* Hann er dómharður við sjálfan sig og finnst að hann standi sig aldrei nógu vel í því sem hann tekur sér fyrir hendur.

* Hann fer hjá sér þegar hann fær viðurkenningu, hrós eða gjafir.

* Hann biður aðra ekki um að mæta þörfum sínum eða þrám.

* Hann breytir gildum sínum og heilindum til að forðast höfnun eða reiði annarra.

* Hann er næmur á líðan annarra og líður eins og þeim.

* Hann metur skoðanir og tilfinningar annarra meira en sínar eigin og er hræddur við að láta eigið álit í ljós.

* Hann setur áhugamál sín og tómstundir til hliðar til að gera það sem aðrir vilja.

* Hann sættir sig við kynlíf þegar hann vill ást.

* Hann reynir að sannfæra aðra um hvað þeim „á“ að finnast og hvernig þeim líður í „raun og veru“.

* Hann gefur öðrum ráð og leiðbeiningar óspurður.

* Hann hellir gjöfum og greiðum yfir annað fólk.

www.al-anon.is www.this.is/coda

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE