Hvernig þjálfun hentar börnum?

Langflest börn hafa gaman af að hreyfa sig. Munurinn á hreyfingu barna og fullorðinna er helst sá að hinir fullorðnu skipuleggja hreyfinguna. Við tökum frá sérstakan tíma, förum í viðeigandi fatnað og hreyfum okkur í ákveðinn tíma við álag sem okkur þykir nægjanlegt. Eftir þessa stund erum við sátt, daglegri hreyfingu er lokið og við snúum okkur aftur að okkar kyrrsetu- lífsstíl. Börnin hreyfa sig hins vegar í stuttum sprettum og hægja svo á á milli. Þau elska leiki eins og eltingaleik, stórfiskaleik, eina krónu, boltaleiki, bannað að stíga á strik og svo mætti lengi telja. Þau hafa vel flest líka gaman af leikjum sem byggja á keppni s.s. kapphlaup. Börn leita í þrautir, vilja ganga á kantsteinum, klifra utan í grindverkum og klifra upp á allt. Þau eru alltaf að ögra sér og það hvarflar ekki að þeim að ganga á malbikuðum stígnum. Vandinn er sá að við gefum ekki börnunum tíma til að reyna á sig, ólum þau niður í bílana og berum þau upp tröppurnar.

Mikilvægt er að byrja strax á skipulagðri hreyfingu og mættu fleiri leikskólar vera í samstarfi við íþróttakennara með slíka leikfimi. Það er þó skilyrði að börnunum þyki hreyfingin skemmtileg. Ekkert barn og reyndar fáir fullorðnir endast í að stunda hreyfingu sem það hefur enga ánægju af. Þegar við förum með börnin í sund mætti byrja á að æfa sundtökin og synda nokkrar ferðir. Þegar barnið þreytist á því fær það að leika í sundlauginni. Ef við förum með barnið á skíði og það þreytist fljótt getur verið jafn góð hreyfing og útivera að taka skíðin af og ærslast í snjónum eða gera snjókarl.

Fátt finnst börnum meiri hvatning til að hreyfa sig en þegar mamma og pabbi taka þátt. Í nútímaþjóðfélagi þar sem vinnudagurinn er langur og krefjandi vill það oft verða svo að við sendum börnin út að leika, inn að horfa á sjónvarp eða leika í tölvunni svo við fáum frið til að sinna heimilisstörfunum sem bíða. Þegar að matartímanum kemur og fjölskyldan á loks stund saman eru fréttir í bakgrunninum og oft verður lítið um skemmtilegar samræður um atburði dagsins hjá barninu.

Hálf klukkustund sem fjölskyldan eyðir saman í leik getur stuðlað að auknu heilbrigði allrar fjölskyldunnar. Ávinningurinn er ekki einungis aukin líkamleg hreysti sem myndar heilbrigðan lífsstíl barnsins. Heldur gefast þarna um leið kjörin tækifæri til samskipta og spjalls um daginn og veginn. Þegar upp er staðið gefa samverustundirnar okkur dýrmætustu minningarnar.

Skipulögð hreyfing fyrir ung börn

Flest íþróttafélög bjóða upp á íþrótta- og leikjanámskeið fyrir börn. Það getur verið góð leið til að þjálfa barnið að leika í hóp og taka tillit til annarra. Hjá Hreyfigreiningu eru í boði námskeiðið Hreyfibærinn fyrir 4-7 ára börn þar sem sérstök áhersla er lögð á að hafa alla hreyfingu skemmtilega fyrir börnin og að þau læri að virkja ímyndunarafl sitt í hreyfileikjunum. Markmið námskeiðsins er að efla hreyfiþroska, samhæfingu og úthald. Þar geta foreldrar nýtt tímann og farið sjálfir á æfingu á meðan börnin þjálfa sér að kostnaðarlausu.

Sundnámskeið fyrir börn eru víða í boði svo og dansnámskeið svo eitthvað sé nefnt. Það getur verið sniðugt að hafa fastan tíma einu sinni í viku þar sem barnið fer í hóp sem er sérstaklega skipulögð hreyfing en við skulum aldrei vanmeta einfalda leiki heima þar sem best er að mamma og pabbi séu með.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

 

 

SHARE