Þróun á sviði getnaðarvarna hefur leitt til þess að nú er hægt að velja um miklu fleiri aðferðir til að koma í veg fyrir getnað en nokkru sinni fyrr. Þess vegna hefur þú möguleika á að velja einmitt þá aðferð til getnaðarvarna sem hentar þér best. Þú verður vafalaust vör við að þarfir þínar fyrir ólíkar tegundir getnaðarvarna breytist með tímanum.

Hormónastafurinn er ný getnaðarvörn sem hentar vel ef þú óskar eftir þægilegri langtímavörn. Það er fljótlegt að koma hormónastafnum fyrir og lyfið veitir vörn gegn getnaði í 3 ár.

Hvað er hormónastafurinn?

Hormónastafurinn er langtímagetnaðarvörn sem inniheldur aðeins gestagen (estónógestrel). Lyfið er í mjóum staf sem er 2 mm í þvermál og 4 sm langur. Lyfinu er komið fyrir rétt undir húðinni innan á upphandlegg.

Hvaða konur mega nota hormónastafinn?

Allar konur, sem óska eftir langtímavörn gegn getnaði, geta notað hormónastafinn. Til dæmis ef kona óskar eftir að fresta fyrstu þungun vegna náms, starfsframa síns eða lengja tímann milli þungana. Hormónastafurinn er einnig góð lausn fyrir konur sem vilja ekki eignast fleiri börn eða eru að hugsa um ófrjósemisaðgerð. Hormónastafurinn hentar vel konum sem þola ekki estrógen.

Sjá einnig: Frjósemi og getnaður – Hvenær á að leita til læknis?

Hve lengi endist hormónastafurinn?

Hormónastafurinn endist í 3 ár. Eftir það dregur smám saman úr virkni lyfsins. Þess vegna ber að fjarlægja hormónastafinn að þrem árum liðnum og koma nýjum hormónaþræði fyrir eða nota aðra getnaðarvörn ef þú óskar ekki eftir því að verða þunguð.

Hvernig kemur hormónastafurinn í veg fyrir þungun?

Hormónastafurinn losar frá sér stöðugt magn af hormóni (gestagen) sem kemur í veg fyrir mánaðarlegt egglos. Hormónið hindrar einnig að sæðisfrumur berist inn í legið. Ef ekkert egg er til staðar, sem getur frjóvgast, verður engin þungun. Vörn gegn getnaði verður strax virk eftir að stafnum hefur verið komið fyrir og endist í 3 ár.

Geta önnur lyf, t.d. sýklalyf haft áhrif á öryggi hormónastafsins?

Nokkrar tegundir lyfja hafa áhrif á hormónastafinn. Þess vegna áttu alltaf að segja lækni frá því að þú notir hormónastafinn ef öðrum lyfjum er ávísað fyrir þig. Ef þú ferð í meðferð á sjúkrahús, skaltu muna eftir að segja sjúkrahússlæknunum frá því að þú notir hormónastafinn.

Hve öruggur er hormónastafurinn?

Fleiri en 2.000 konur hafa tekið þátt í rannsóknum á hormónastafnum. Rannsóknirnar hafa leitt í ljós að hormónastafurinn er mjög örugg getnaðarvörn. Fram til þessa hefur ekki orðið þungun á meðan hormónastafurinn er notaður.

Hve öruggur er hormónastafurinn ef ég fæ magaverk eða niðurgang?

Hormónastafurinn kemur í veg fyrir þungun jafnvel þótt þú fáir magaverk eða niðurgang. Ástæðan er sú að lyfinu er komið fyrir í handlegg þar sem það berst beint inn í blórásina og fer því eki gegnum meltingarkerfið.

Sjá einnig:Vissirðu þetta um getnaðarvarnir? – Myndband

Hvernig er hormónastafnum komið fyrir?

Eins og við á um aðrar aðferðir til getnaðarvarna, þarftu að fara í almenna læknisskoðun svo að læknirinn komist að raun um hvort hormónagjöf til getnaðarvarna henti þér. Fljótlegt er að koma hormónastafnum fyrir. Fyrst þarf að staðdeyfa svæðið á handleggnum þar sem stafurinn á að vera.Eftir innsetningu hormónastafsins er bundið um handlegginn til að draga úr líkum á mari. Þú verður að gæta þess að svæðið kringum bindið haldist þurrt og hreint í ein sólarhring en síðan máttu fjarlægja það.

Þarf ég að fara í skoðun reglulega?

Farðu til læknis eins og þú ert vön og ræddu við hann ef einhverjar spurningar vakna.

Sést að ég er með hormónastafinn í handleggnum?

Ólíklegt er að aðrir komi auga á hormónastafinn. Þú getur sjálf fundið fyrir honum með fingurgómunum. Það er mikilvægt að læknirinn finni hormónastafinn ef þreifað er á upphandleggnum svo hann geti fundið stafinn þegar kemur að því að fjarlægja hann.

Hvenær á að koma hormónastafnum fyrir?

Læknirinn ráðleggur hvenær best er að koma hormónastafnum fyrir. Besti tíminn er fyrstu fimm dagana sem þú hefur blæðingar.

Er sárt að setja hormónastafinn undir húðina?

Ef staðdeyfing er notuð þegar hormónastafnum er komið fyrir er ekki sárt að setja stafinn inn. Þar sem stafurinn er settur undir húðina geta komið fram eymsli og bólga þegar deyfingin hættir að verka.

Getur hormónastafurinn færst úr stað?

Skömmu eftir að hormónastafnum hefur verið komið fyrir myndast svolítið bandvegslag utan um stafinn sem gerir það að verkum að hann færist ekki úr stað.

Veldur hormónastafurinn aukaverkunum?

Eins og með önnur getnaðarvarnarlyf eru dæmi um nokkrar aukaverkanir. Um þær er fjallað í næsta kafla. Nákvæmar leiðbeiningar um aukaverkanir hormónastafsins er að finn a í leiðbeiningum fyrir sjúklinga og eru þær afhentar með lyfinu. Óæskilegar aukaverkanir, sem kunna að koma fram, eru m.a. bólur á húð, höfuðverkur, þyngdaraukning og eymsli í brjóstum. Sjaldgæfar aukaverkanir eru m.a. hárlos, skapbreytingar, breytingar á kynlífslöngun, magaverkir og verkir við blæðingar. Þegar hormónastafnum er komið fyrir eða hann fjarlægður, getur komið fram svolítil staðbundin erting, verkur og kláði. Ef þú verður vör við aukaverkanir við notkun hormónastafsins skaltu hafa samband við lækni.

Hefur hormónastafurinn áhrif á húðina?

Rannsóknir leiddu í ljós að sumar konur (14%) fengu bólur á húðina við notkun hormónastafsins, hins vegar lagaðist húðin á 59% kvenna sem höfðu bólur fyrir notkun hormónastafsins. Í um 10% tilvika ágerðust bólur á húðinni af völdum hormónastafsins.

Hvaða áhrif hefur hormónastafurinn á skapið?

Dæmi eru um höfuðverk, ógleði, brjóstverk og geðsveiflur við notkun hormónalyfja til getnaðarvarna. Þessar aukaverkanir komu jafn oft fram hjá konum sem gefin var lyfleysa. Geðsveiflur hafa komið fram hjá 2,5% kvenna sem hafa notað hormónastafinn.

Veldur hormónastafurinn þyngdaraukningu?

Um 6,4% kvenna hafa tilkynnt þyngdaraukningu við notkun hormónastafsins. Á tveggja ára tímabili var fylgst með konum sem notuðu annaðhvort hormónastafinn eða hormónalausa getnaðarvörn og í báðum hópunum urðu sumar kvennanna varar við þyngdaraukningu.

Hefur hormónastafurin áhrif á mánaðarlegar blæðingar?

Hormónastafurinn hefur vafalaust áhrif á mánaðarlegar blæðingar og að öllum líkindum verða þær óreglulegar. Þetta er þó afar misjafnt frá einni konu til annarrar. Hjá sumum verður aðeins minni háttar breyting á blæðingum, þær hætta eða verða aðeins stundum. Hjá öðrum konum aukast blæðingarnar og/eða vara lengur en áður. Blæðingar þínar breytast e.t.v. einnig á meðan þú notar hormónastafinn. Hjá flestum konum, sem nota hormónastafinn dregur úr tíðaverkjum.

Sjá einnig: Blessaðir túrverkirnir

Hvað um öryggi?

Rannsóknir hafa leitt í ljós að hormónastafurinn hefur ekki nein klínísk áhrif á storknunareiginleika blóðsins eða önnur lífeðlisfræðileg kerfi. Í nokkrum tilfellum getur blóðþrýstingur hækkað.

Hvernig er farið að því að fjarlægja hormónastafinn?

Fljótlegt er að fjarlægja hormónastafinn. Læknirinn staðdeyfir, gerir síðan örlítinn skurð á handlegginn og dregur stafinn út. Síðan bindur hann um handlegginn til að draga úr hættu á marblettum.

Myndast ör þegar hormónastafurinn hefur verið fjarlægður?

Hugsanlega myndast svolítið ör þegar hormónastafurinn hefur verið fjarlægður.

En ég vil eignast barn?

Þegar búið er að fjarlægja hormónastafinn hefjast blæðingar og egglos með reglulegu millibili. Flestar konur fá egglos innan þriggja vikna frá því að stafurinn er fjarlægður.

Hvenær á ég að láta fjarlægja hormónastafinn?

Þú færð lítið kort hjá lækninum þegar búið er að koma hormónastafnum fyrir. Á kortinu stendur hvenær á að fjarlægja stafinn. Þú geymir kortið í veskinu þínu svo þú munir eftir að athuga hvenær þú átt að láta fjarlægja stafinn.

Ef ég skipti um lækni. Getur hvaða læknir sem er fjarlægt hormónastafinn?

Aðeins þeir læknar, sem hafa reynslu af að setja hormónastafinn inn og fjarlægja hann ættu að gera það. Þú skalt spyrja lækninn þinn hvort hann hafi reynslu af þessari tækni. Ef ekki, skaltu snúa þér til annars læknis sem hefur reynslu af að setja stafinn inn og fjarlægja hann.

Hefur hormónastafurinn áhrif á það hvort ég get orðið þunguð?

Nokkrum dögum eftir að hormónastafurinn hefur verið fjarlægður hverfur hormónið, sem stafurinn sendir frá sér, úr líkamanum. Þá hefurðu sömu möguleika á að verða þunguð og þú hafðir áður en þú byrjaðir að nota hormónastafinn.

Hefur hormónastafurinn áhrif á brjóstagjöf?

Rannsókn á þessum þætti stendur yfir og þess vegna er ekki unnt að mæla með því að þú notir hormónastafinn ámeðan þú ert með barn á brjósti. Þó er vitað að virka efnið í hormónastafnum hefur hvorki áhrif á magn né gæði brjóstamjókur.

Hve fljótt má ég fara að nota hormónastafinn eftir að hafa fætt barn?

Ef þú hefur ekki barn á brjósti má koma hormónastafnum fyrir 21-28 dögum eftir fæðingu. Ef hormónastafnum er komið fyrir eftir það, ráðleggur læknirinn að notaður sé smokkur fyrstu 7 dagana.

Hvað um kynsjúkdóma?

Hormónastafurinn veitir ekki vörn gegn kynsjúkdómum, en það gerir smokkur hins vegar.

Eykur hormónastafurinn líkurnar á brjóstakrabbameini?

Líkur á brjóstakrabba aukast almennt með aldrinum. Áhrif hormóna til getnaðarvarna á myndun brjóstak rabba er einkum getið við notkun getnaðarvarnataflna, en þær innihalda bæði estrógen og gestagen. Hormónastafurinn inniheldur aðeins gestagen. Þær takmörkuðu upplýsingar, sem eru fyrir hendi um ýmsar aðferðir til getnaðarvarna með gestageni, benda til þess að hættan sé minni miðað við getnaðarvarnartöflur.

Getur hormónastafurinn brotnað?

Engin dæmi eru þess að hormónastafurinn hafi brotnað. Hormóninu í stafnum er dreift gegnum sérstakt plastefni sem stýrir losuninni. Til frekara öryggis er höfð himna utan um plastefnið.

Nú nota ég getnaðarvörn sem inniheldur aðeins gestagen (mínípillu eða innsprautun). Hvenær get ég skipt yfir í hormónastafinn?

Ræddu við lækni hvenær þú ættir að fá hormónastafinn.

Nú nota ég getnaðarvarnartöflur. Hvenær get ég skipt yfir í hormónastafinn?

Þú skalt ræða það við lækninn, en hann ráðleggur þér hvaða dag er best að koma hormónastafnum fyrir. Æskilegast er að koma hormónastafnum fyrir fyrsta daginn í hléinu sem tekið er á milli spjalda.

Nú nota ég lykkju. Get ég skipt yfir í hormónastafinn?

Já. Læknirinn þinn ráðleggur þér hvenær unnt er að fjarlægja lykkjuna og koma hormónastafnum fyrir. Best er að koma stafnum fyrir á fimm fyrstu dögum blæðinga. Fyrsti dagurinn er sá dagur þegar blæðingar hefjast.

Getur hormónastafurinn komið í stað ófrjósemisaðgerðar?

Hormónastafurinn getur komið í stað ófrjósemisaðgerðar. Hormónastafurinn hefur einnig þann kost að þér gefst tækifæri til að skipta um skoðun, t.d. ef fjölskylduaðstæður þínar breytast.

Vakna fleiri spurningar?

Ef þú hefur frekari spurningar um hormónastafinn, skaltu snúa þér til læknisins þíns.

Birt með góðfúslegu leyfi Organon

 

SHARE