Hversu oft og hvernig skoða vegfarendur brjóstin á þér?

Öfugt við það sem margir karlar áætla, er flestum konum það pínlega ljóst þegar nærstaddir stara á brjóstin á þeim. En gera konur sér fyllilega grein fyrir því hversu margir í raun gjóa augunum á brjóstin á þeim? Eitt augnablik? Brot úr sekúndu? Þegar enginn sér til?

Forsvarsmenn Nestlé Fitness fengu fyrirsætu til að festa falda myndavél, örsmáa að stærð, við brjóstahaldarann og í framhaldi af því gekk fyrirsætan um götur Lundúnaborgar og viti menn; viðbrögðin (og laumulegar augngoturnar) létu ekki á sér standa.

Reyndar var áhorfið nær viðstöðulaust … eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan. Sumir voru þó öllu lymskari en aðrir og konur reyndust jafn líklegar til að stara laumulega (gægjast jafnvel örskotstund) á brjóst fyrirsætunnar, sem svo aftur skrásetti allt samviskusamlega gegnum falda myndavélina meðan á göngu hennar um götur Lundúnarborgar stóð.

Tilgangur Nestlé er þó allt annar en sá að fletta ofan af öfuguggahætti og laumustörum hins almenna borgara heldur er uppátækið hluti af markaðsherferð sem miðar að því að hvetja konur til að skoða sín eigin brjóst í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að krabbamein nái að taka sér bólfestu í líkamanum; en með reglubundinni sjálfsskoðun brjósta má uppgötva mein í brjóstum á upphafsstigum sjúkdómsins og þannig jafnvel bjarga eigin lífi.

„Brjóstin á þér eru skoðuð á hverjum degi,” segir að lokum í herferðinni. „En hvað er langt síðan þú skoðaðir þín eigin brjóst?”

Á vefsíðunni brjostakrabbamein.is má lesa hagnýtar leiðbeiningar um sjálfsskoðun brjósta en hér fer myndbandið sem Nestlé gaf út fyrir skömmu og hefur vakið ómælda athygli:

SHARE