Hvítt hár og hlýir brúnir tónar verða í tísku í sumar

„Gráu litirnir sem hafa verið allsráðandi fara svolítið meira út í hvítt, þó auðvitað einhverjar kjósi að halda sig áfram í köldu litunum, þessum gráu sterku litum sem leita út í fjólublátt. Hvíti liturinn er það sem við erum að sjá koma sterkt inn núna, við getum sagt að þessi litur sé jafnvel út í glært – glærhvítur, “ segir Hermann Óli Bachmann Ólafsson eigandi Modus hár-, og snyrtistofu í Smáralind þegar hann er inntur eftir svörum um það heitasta í hártískunni í sumar.

Það virðast þó ekki allir átta sig á því að það er enginn hægðarleikur að lita hár grátt eða hvítt. „Það er mjög erfitt að ná hári til dæmis dökkgráu, nema viðkomandi sé alveg ljóshærð fyrir. Þannig að fyrir flesta er þetta mjög langt og kostnaðarsamt ferli að leggja upp í. Það eru margar sem ætla sér alla leið en gefast svo upp mjög fljótt í ferlinu. Að ætla sér í gráa hárið kostar mikinn tíma og peninga fyrir þær sem ekki eru mjög ljóshærðar fyrir, “ segir Hermann.

26744-Hemmi-02229-776x517

Það er þó óþarfi fyrir þær dökkhærðu að örvænta af þó þær geti ekki fylgt gráhærða straumnum. „Það sem við munum sjá á þeim dökkhærðu í sumar eru hlýrri litir en áður. Litir eins og „sand“ og „beige“ verða áberandi og þær sem eru svarthærðar fara að færa sig yfir í brúnni og hlýrri tóna. Ombre tískunni er svo langt frá því að vera lokið þó hún hafi aðeins breyst. Litaskilin í hárinu eru ekki eins skörp og áður og nú er hárið litað á mýkri hátt þannig að það sé eins og sólin hafi aðeins upplitað það. Við leikum okkur orðið meira með strípuefnin og engin skil verða í hárinu. Ljósi og dökki liturinn er látinn renna saman í eitt.“

Litagleðin sem réð ríkjum í hártískunni í fyrrasumar er ekki alveg búin að sögn Hermanns. „Það kom svolítið Crazy Colors æði í fyrra en það voru litir sem festust rosalega í hárinu en núna eru nýkomnar vegan næringar frá Maria Nila sem hægt er að fá í allskonar litum. Slíkar næringar er hægt að nota til þess að fá svolitla tilbreytingu án þess að lita hárið varanlega. Liturinn hverfur úr eftir 4-20 þvotta og þú ert ekki að skemma hárið með vörunum heldur næra það og styrkja.“

Lausar og fallegar hárgreiðslur í svolitlum bóhemstíl munu svo einkenna sumarið. „Hárgreiðslur í sumar verða fallegar, rómantískar og frjálslegar. Lausir snúðar eða hárið spennt lauslega upp, eins og hárið sé að losna en samt ekki. Dálítið úfið hár og „tjillað“. Þú greiðir þér en það á samt að líta út eins og þú hafir ekki endilega greitt þér,“ segir Hermann og hlær.

 

Birtist fyrst í …amk fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE