„Í byrjun var þetta bara skrýtið áhugamál“

Eyrún Ævarsdóttir sirkuslistamaður sérhæfir sig í loftfimleikum í reipi og hefur haft nóg að gera frá því hún lauk fjögurra ára BA-námi í sirkuslistum frá virtum skóla í Hollandi fyrr á þessu ári. Hún viðurkennir að loftfimleikarnir geti verið hættulegt starf og oft þarf að vega og meta hvort eitthvað geti farið úrskeiðis.

 

Eyrún Ævarsdóttir lauk fyrr á þessu ári fjögurra ára námi við skirkusskóla í Rotterdam í Hollandi. Hún er nú með BA-gráðu í sirkuslistum og sérhæfð í loftfimleikum í reipi. Sjálf titlar hún sig einfaldlega sirkuslistamann, enda er hún í fullu starfi sem slíkur. Skólinn sem hún útskrifaðist úr heitir Codarts og er einkar virtur, enda námið strembið og alls enginn leikur, þó að einhverjir gætu haldið sirkuslistir snérust um skrípalæti og fíflagang.

„Ég vissi eiginlega ekkert út í hvað ég var að fara. Námið var vissulega erfitt, bæði líkamlega og andlega. Það var oft sem ég hugsaði hvað ég væri eiginlega að gera þarna. En mig langaði aldrei að gefast upp. Ég vildi verða betri í því sem var að gera og hafði ekki áhuga á að gera eitthvað annað. Þannig að stundum varð ég að bíta á jaxlinn,” segir Eyrún, en hún var að frá morgni til kvölds í náminu. Það var enginn miskunn.

Sá bara skólabyggingarnar

Úti í Rotterdam lifði hún algjörlega og hrærðist í sirkusheiminum í kringum námið. „Ég mætti ég í skólann klukkan níu og fór heim klukkan hálfsjö. Þá borðaði ég, fór í sturtu og að sofa. Þannig voru allir dagar. Þetta var það eina sem ég gerði. Ég átti mér ekkert annað félagslíf. Ég hafði hvorki orku né tíma í eitthvað annað. Samnemendur mínir voru því eina fólkið sem ég þekkti. Ég umgekkst bara sextíu manns í þessi fjögur ár og þau urðu eins og fjölskyldan mín. Allir voru að hugsa um það sama,” segir Eyrún og hlær. Hún upplifði því ekki mikið meira af Hollandi en skólabyggingarnar í Codarts, þar sem sirkusnemendur voru alveg út af fyrir sig.
„Ég er samt mjög glöð að hafa fengið að kynnast þessum heimi. Þegar ég fór út þá vissi ég ekki neitt. Ég vissi hvað Cirque du soleil var og þegar ég kom út fékk ég alveg sjokk. Ég var ekki búin að átta mig á því hvað var til.“

Enginn grunnur í fimleikum

Það var því ekki þannig að Eyrúnu hafi dreymt um að verða loftfimleikakona þegar hún var lítil stelpa. Hún leiddist hægt og rólega út í þetta óvenjulega áhugamál og þegar hún heillaðist af loftfimleikum þekkti hún lítið sem ekkert til í þeim heimi.

„Þegar ég var að klára grunnskólann þá kynntist ég krökkum sem voru nýbyrjaðir að mæta á æfingar hjá Sirkus Íslands, sem var þá að verða til, þannig ég hef eiginlega verið með frá byrjun,” segir Eyrún sem tók virkan þátt í sirkusnum á meðan hún var í menntaskóla, og þegar kom að því að fara frekara nám hafði hún áttað sig á því að hægt væri að fara í sérhæft háskólanám í sirkuslistum. „Mér fannst það mjög spennandi og ákvað að kýla á það. Í byrjun var þetta bara skrýtið áhugamál, en hægt og rólega þá fórum við að þróa gigg og fá pening fyrir, svo byrjuðum við að vera með sýningar og þá fór ég að hugsa með mér að ef ég eyddi nógu miklum tíma í þetta þá yrði ég kannski nógu góð til starfa við þetta,” segir Eyrún en hún kennir einnig sirkuslistir, bæði í Æskusirkusnum á vegum Sirkus Íslands og í dansskóla í Hafnarfirði.

Eyrún hafði engan grunn í fimleikum þegar hún ákvað að sérhæfa sig í loftfimleikum, en hún æfði alltaf einhverjar íþróttir þegar hún var yngri og var mikið í leiklist. „Ég byrjaði ekki að spá í loftfimleika fyrr en ég var 16 ára. Í fyrstu sýningunni hjá sirkusnum var ég trúður, en annar meðlimur var þá með loftfimleika. Það var fyrsta loftfimleikaatriðið sem ég sá, og það í sýningu sem ég tók þátt í sjálf. Þetta er það nýtt á Íslandi. Það breytti alveg minni hugsun og ég fann strax að mig langaði að geta gert þetta. Í kjölfarið byrjaði ég að æfa mig í silki, sem eru tveir borðar, en þegar ég komst inn í skólann þá breytti ég yfir í reipi, sem er einn kaðall sem hangir úr loftinu.“

 

Vill byggja upp sirkusmenningu

Eyrún er að eigin sögn annar Íslendingurinn sen nælir sér í BA-gráðu í sirkuslistum, en sú sem fetaði slóðina á undan henni hefur lítið sem ekkert starfað hér á landi. „Mín tenging inn í Sirkus Íslands gerir að verkum að ég get komið heim og gengið inn í vinnu. Síðan ég kom heim hef ég verið mjög upptekin, sem er mjög óvenjulegt fyrir fólk sem er nýskriðið út úr skóla,“ segir Eyrún. En þó að hún sé komin heim og spennt fyrir því að starfa hér á landi þá vill hún ekki einangrast sem sirkuslistamaður á Íslandi. „Ég vil vera hluti af umheiminum og þekki mikið af fólki út um allan heim sem var með mér í skólanum, þannig það er alveg líklegt að starfi eitthvað úti. En mér finnst mjög spennandi að byggja upp sirkusmenningu á Íslandi. Mér finnst það áhugavert og verðugt verkefni. Í bili er ég samt til að vera hérna heima og sjá hvað gerist.”

Sirkus Íslands hefur verið starfandi í tíu ár og er alltaf með einhver verkefni í gangi, bæði stór og smá. Nú er til að mynda verið að undirbúa stóra afmælissýningu fyrir næsta sumar og um jólin verða sýningar á fullorðinssirkusnum Skinnsemi. „Svo snýst þetta líka um að búa sér til verkefni sem henta, eins ég og einn annar úr hópnum bjuggum til stutta jólasýningu sem við sýnum hér og þar.“

Tók smá stund að kyngja þessu

Fólk verður eðlilega oft hissa þegar Eyrún segir hvað hún gerir, en fleiri og fleiri eru þó að átta sig á því að það sé starfandi sirkus á Íslandi og einhver þarf að kunna loftfimleika. Ættingjar og vinir tóku því flestir vel í það þegar hún sagðist vera á leið í sirkusskóla á sínum tíma. Fólk var meira forvitið heldur en það væri nokkurn tíma að draga úr henni kjarkinn. „Foreldrar mínir voru smástund að kyngja því og átta sig á því að ég væri virkilega á leið í sirkusskóla og þau hafa stutt mig ótrúlega vel í gegnum námið. Ég hefði örugglega aldrei getað farið í þetta nám nema fyrir þeirra stuðning. Mér finnst fólk svolítið líta á sirkusstarfið sem nýsköpun. Þetta er ný hugmynd, sem enginn hefur prófað á Íslandi. Mér finnst enginn vera neikvæður gagnvart þessu.“
Eyrún brosir hálf feimnislega þegar blaðamaður spyr hvaða hæfileikum góð loftfimleikakona þurfi þurfi að vera gædd. Hún hugsar sig um áður en hún svarar. „Fyrsta árið í náminu snérist rosalega mikið um að koma sér í form og vera fær um gera eitthvað líkamlegt sjö tíma á dag. Maður þarf að vera sterkur til að geta lyft sér á hvolf og klifrað upp kaðal. Svo er ekki verra ef maður er liðugur. Öll líkamleg færni hjálpar. En það kemur mikið með æfingunum,” segir hún frekar hógvær, eins og hún sé alveg ómeðvituð um hvað það er virkilega magnað að hún geti sveiflað sér í kaðli hátt uppi í lofti og framkvæmt ótrúlegar listir, jafnvel hangandi á hvolfi.

„Í loftfimleikunum þarf maður alls ekki að vera minna fimur en til dæmis í fimleikum, en samt er maður ekki að keppa. Það hentaði mér rosa vel. Þegar ég var í íþróttum sem barn þá hafði ég aldrei gaman af því að keppa. Þá er alltaf einhver sem tapar. Í sirkusnum fær maður þessa líkamlegu útrás og er að gera eitthvað spennandi og nýtt, en samt keppir maður bara við sjálfan sig. Svo eru heldur engar reglur um það hvernig sýningin á að vera, þannig það eru engin takmörk fyrir því hvað er hægt að gera.“

Vissulega hættulegt

Eyrún var tvítug þegar hún komst inn í sirkuskólann og er 24 ára í dag. Hún segist hafa verið á góðum aldri til að hefja námið og hefði hvorki vilja vera yngri né eldri. „Ef ég hefði verið yngri þá hefði ég ekki verið nógu vel búin undir námið, hvorki líkamlega né andlega. Maður þarf líka að hafa ákveðinn þroska til að fara í listnám og geta nýtt það vel. En ef ég hefði verið eldri þá hefði námið verið líkamlega erfiðara. Þá eru meiri líkur á því að maður slasi sig. Það er stórt vandamál í sirkusskólum. Fólk er oft að glíma við meiðsli.”

Sjálf hefur hún verið mjög heppin hvað meiðsli og slys varðar, en á meðan hún var í náminu glímdi hún stuttlega við smá vandamál í öðrum úlnliðnum, sem þykir nokkuð vel sloppið.
„Ég get ekki neitað því að þetta er vissulega hættulegt, en maður reynir að fara eins varlega og maður getur og reynir að vera sniðugur í að útfæra hlutina. Nota dýnur og spotta ef maður þarf. Eins og í mínu lokaatriði í skólanum þá hafði ég dýnu undir því það var möguleiki á því að ég gæti ekki gripið reipið. En maður þarf að vega og meta hversu líklegt það er að eitthvað geti farið úrskeiðis. Ef manni finnst maður öruggur þá sleppir maður kannski dýnunni til að láta atriðið virðast flottara,” segir Eyrún sposk á svip.

En eru ekki einhver aldurstakmörk í loftfimleikunum, eða sér hún fyrir sér að dingla í reipi fram á elliár? „Það skiptir miklu máli að fara vel með sig í þessu starfi, enda mjög líkamlegt starf. Líkaminn er vinnutækið mitt. En það eru ekki margir í þessu yfir fimmtugt. Þá verður maður bara að finna sér aðrar leiðir. Það er alveg hægt að starfa í þessum geira þó maður sé ekki að klifra upp í loft. Maður getur til dæmis verið í kennslu, leikstjórn eða skipulagningu. Það er margt í boði. Þannig ég hef ekki miklar áhyggjur af því að eldast. Ég veit að ég mun ekki alltaf vera að gera mest „hardcore trikkin“. Ég þarf bara að aðlaga erfiðleikastigið að aldri og getu.”

 

Mynd/Rut

SHARE