„Í mínum heimabæ stóð ég ein“ – Misnotuð 14 ára af tveimur strákum

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is 

———————

Ég eignaðist vinkonu í sumar, vinkonu sem er mér mjög kær. Þegar hún var lítil var hún beitt kynferðislegu ofbeldi. Mig hafði oft langað að koma frá mér minni reynslu, hún er ekki eins, en hún er ljót samt sem áður. Þessi vinkona mín birti grein í sumar, grein um sitt mál og sagði öllum heiminum frá sinni reynslu. Ég er stolt af því að eiga hana að, en það var hún sem sagði mér hversu sterk ég er og það sem best var, hún dæmdi mig ekki.

Ég er búin að sitja og skrifa í margar vikur, alltaf stroka ég út og byrja upp á nýtt. Ég stóð sjálfa mig af því að skammast mín, aldrei fannst mér nógu gott það sem ég var að skrifa, ég hugsaði um afleiðingarnar af þessu bréfi, mun fólk dæma mig? mun ég upplifa allt eineltið aftur? mun bærinn minn verða að martröð eins og hann var fyrir mér á erfiðustu tímum lífs míns?.

Ég vil trúa því að fólk dæmi mig ekki, ég vil trúa því að þessir aðilar hafi þroskast eftir öll þessi ár.

Ég var misnotuð kynferðislega þegar ég var 14 ára gömul af tveimur strákum, jú ég var ölvuð en það gefur þeim engan rétt. Einhvernvegin þá virðist sumu fólki finnast það bara í lagi að segja „æjhh hún bauð bara uppá þetta“ og nú vitna ég í eina af „vinkonum“ mínum sem fór í skýrslutöku vegna þessa máls.

Ég fór á skrifstofu ríkissaksóknara fyrir stuttu og óskaði eftir að fá skýrslur úr 11 ára gömlu nauðgunarmáli, mig hafði oft langað að fá þessi gögn en einhvernvegin fékk ég mig ekki í það.
Að sitja með pappír í höndunum og lesa hvað gerendur, vinkonur þínar og fólk sem við kom þessu máli á sínum tíma hafði að segja um mann er allt annað en auðvelt, ég varð reið og á sama tíma virkilega sorgmædd og í rauninni vissi ég ekki hvernig ég átti að haga mér, mig langaði að grenja eins og smákrakki en á sama tíma langaði mig að skemma eitthvað. Sem betur fer á ég fallegt fólk í kringum mig sem hjálpaði mér að takast á við þetta.

Þegar ég las yfir skýrslurnar virtust einhvernvegin engar frásagnir stemma, hvorki hjá gerendum né öðrum vitnum. Frásagnir vinkvenna minna einnkenndust af skoðanaskiptum og því sem þær höfðu heyrt í kjaftagangi og það fannst mér sárast, mér fannst sárast að hafa treyst þessum stelpum fyrir öllu mínu en mér hefur þó verið svarað þeim spurningum sem ég hef velt fyrir mér í langan tíma.

Mitt mál var kannski ekkert svo frábrugðið öðrum málum, ríkissaksóknari felldi það niður eins og 80% svona mála. Þegar skýrslan var tekin af mér var ég sett inn í herbergi með konu sem ég hafði aldrei hitt. Hún benti mér á hina og þessa lampa í herberginu og sagði að inní þeim væru myndavélar og á bakvið myndavélarnar væru lögmenn þeirra. Það lokaðist fyrir allt, gjörsamlega allt. Ég kom ekki upp heilli setningu. Málið var dautt.

Ég var 14 ára gömul og þeir 18-19ára, ég var hrein mey. Ég hafði aldrei sofið hjá og varla kysst strák, þeir notfærðu sér ölvun mína og þetta kvöld sviptu þeir mig öllu því sakleysi sem ég hafði. Ég hugsaði alltaf „svona mun aldrei koma fyrir mig“ en það gerðist samt. Að vera niðurlægð á þennan hátt er skelfilegt og það á enginn að þurfa að upplifa það. Að vera þröngvað í kynlíf er aldrei réttlætanlegt og það er alltaf nauðgun.

Það að hafa verið nauðgað er nóg útaf fyrir sig, en það sem eftirá kom er eitthvað sem ég bjóst aldrei við, aldrei bjóst ég við að fólk gæti verið svona illgjarnt.
Það var herjað á mig, ég fékk skítköst og var uppnefnd. Fallega bæjarfélagið mitt breyttist í martröð, allavega fyrir mér. Önnur stelpnana sem hittu mig fyrir utan húsið það sem atvikið átti sér stað snérist gegn mér. Sögurnar byrjuðu að koma og ég varð aðhlátursefni bæjarins, eða mér fannst það.
Ég var stoppuð útí bæ og sagt hversu ógeðsleg ég væri, að enginn myndi vilja sofa hjá mér hvorteðer. Mér var hótað að ég hlyti verra af ef ég myndi ekki hætta við kæruna, ég var króuð af útí horni og hótað að berja mig fyrir utan heima hjá mér. Í mínum heimabæ stóð ég ein.

Á hálfu ári breyttist ég úr, að ég myndi halda, venjulegum ungling í vandræðakrakka. Ég fór í uppreisn, ég drakk og svaf hjá. Ég var rosalega reið innra með mér, ég fór að skera mig og strauk sífellt að heiman. Lögreglan þurfti endalaust að hafa afskipti af mér. Ég fór á neyðarvistina á Stuðlum, langtímadvöl og í Rauðakrosshúsið. Ég flutti á milli landshluta og reynt var hvert úrræðið á fætur öðru og íhugað var að setja mig inn á BUGL (Barna&unglinga geðdeild) en ekkert varð úr því. Á endanum var ég, 16 ára gömul , send í götusmiðjuna og dvaldi þar í hálft ár. Það tók mig langan tíma að ná mér niður. Ég var uppfull af reiði og sorg, ég hafði sært alla í kringum mig og verst af öllu vanrækti ég sjálfa mig og mínar þarfir.
Í fyrsta sinn gat ég farið að vinna í mínum málum, ég fékk frábæran ráðgjafa og á ég henni margt að þakka fyrir það hvernig manneskja ég er í dag. Starfsfólkið þar á hrós skilið fyrir vinnuna sem það sinnti og börnunum sem þau hjálpuðu.

Ég get ekki sagt að líf mitt hafi verið dans á rósum upp frá því, ég átti enþá eftir að vinna í mínum málum og það mun sjálfsagt taka mig allt mitt líf. Ég fór í fíkniefnaneyslu og reyndi hvað sem ég gat að kalla á hjálp.
Það var ekki fyrr en ég var 18ára að ég kom niður á jörðina, ég kynntist yndislegum manni sem tók mér eins og ég var. Hann hefur frá fyrsta degi staðið við hlið mér eins og klettur, alveg sama hvað.

Í dag rek ég fyrirtæki, ég á hús og 4 yndislega drengi, líf mitt einkennist af stöðuleika – ást og umhyggju en fyrst og fremst á ég fallegt og hamingjusamt líf.
Í dag er ég tilbúin, tilbúin að segja ykkur hver ég er.
Í dag vil ég segja við ykkur þarna úti. Þetta er ekki ykkur að kenna og þögnin er versti óvinurinn.
Í dag er ég tilbúin að fyrirgefa, fólk sem gerir svona hluti hlýtur að líða illa svo það er mitt að vorkenna þeim og sýna þeim skilning.

Ég er sátt við sjálfa mig og þá manneskju sem ég er í dag og ég vona svo innilega að þið sem hafið lent í svona lífsreynslu komist á þann stað sem ég er á í dag. Það er yndislegt 🙂

Takk fyrir mig
Ást til ykkar –

-HBR.

SHARE