Í örvæntingu og vanlíðan gerum við hluti án þess að hugsa þá til enda – Það er alltaf annað tækifæri

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

 

Við lendum öll í að líða eins og allt sé á botninn komið, og það sé ekki möguleiki á að falla dýpra niður – þangað til við föllum lengra og sársaukinn ristir inn að beinmerg. Við gerum mistök og við gerum þau aftur. Loks þegar við höfum lært okkar lexíu þá finnum við aðra leið til að gera fleiri mistök og ferlið endurtekur sig. Fólk kemur og fólk fer og það er særandi að geta stundum ekkert gert í því. Sérstaklega ef það fór af röngum ástæðum eða vegna þess að þú breyttir rangt.

Það sem stingur mest er að ákveðin lykt getur minnt þig á einhvern sem þú elskaðir, staðir sem voru ekki það merkilegir einu sinni hafa allt aðra merkingu í dag og ljósmyndir fá hjartað í þér til að stökkva yfir húsið og hverfa. Þú saknar og þú elskar, söknuðurinn í smá ljósgeisla verður yfirþyrmandi og þú ert tilbúin/n til að gera allt til að taka allt sem þú gerðir og sagðir til baka – bara fyrir það eitt að geta byrjað upp á nýtt og gera hlutina rétt.

„Af hverju gerði ég þetta?“

Mistök hræða okkur sama hversu stór eða smá þau eru, þau gera okkur viðkvæm og örvæntingarfull. Í örvæntingu og vanlíðan gerum við hluti án þess að hugsa þá til enda – heiðarlegustu tilraunir til að laga það sem úrskeiðis fór getur oft gert illt verra og þú finnur sjálfa/n þig enn þjakaðari af samviskubiti og eftirsjá en áður. Og aftur ferðu að hugsa; „Af hverju í ósköpnum gerði ég þetta?“ Það er svo auðvelt að vera vitur eftir á, en þú mátt ekki festast í þeirri hugsun því hún mun á endanum rífa þig niður.

„Ef ég hefði…“

Ég hef sært fólk og ýtt góðu fólki frá mér, fundið góða hlutinu í lífinu og eyðilagt það. Ég get ómögulega talið næturnar sem ég hef legið andvaka og hugsað hvernig ég hefði getað gert hlutina öðruvísi, og alltaf hljómar það eins; „Ef ég hefði bara gert þetta rétt frá byrjun þá hefði ég ekki klúðrað þessu, ef ég hefði bara ekki klúðrað þessu þá væri ég á öðrum stað.“ Hvað og ef eru tvö saklaus orð þangað til þú setur þau saman – saman hafa þau máttinn til að stinga þig það djúpt að þig verkjar.

En veistu, það gerist allt af ástæðu. Fólk kemur og fólk fer, góðir hlutir falla saman en það er lærdómur í öllu. Ég gerist stundum sjálf sek um að hugsa að það muni aldrei neitt betra koma í staðinn, ég festist stundum á sama stað, kemst ekki upp úr mýrinni og enda oftast á því að klúðra málunum enn frekar í slíkum aðstæðum. Ég reyni of mikið og segi of mikið – en ég hef lært að það er betra að segja það sem þig langar til að segja frekar en að byrgja það inni. Sama hversu stórkostlega þér finnst þú hafa klúðrað öllu og tapað baráttunni þá er alltaf leið upp.

Það er alltaf annað tækifæri

Þegar kemur að því að taka áhættu þá er það aldrei of seint, það er alltaf annað tækifæri. Ef það tækifæri er ekki með manneskjunni sem þú saknar, þá áttu eftir að kynnast fullt af nýju fólki sem færir þér hamingju og sýnir þér hliðar á heiminum sem þú hefur ekki séð áður. Það er sárt að sakna, en það segir þér að þú elskaðir og þú getur gert það aftur. Þú getur gert allt sem þig langar til að gera – þú þarft bara að fara á eftir því og gefstu ekki upp þótt það blási á móti! Erfiðleikarnir styrkja þig og þú átt ekki að eyða einni mínútu í viðbót í að velta þér upp úr vandamálunum. Fólkið sem vill vera í lífinu þínu gefst ekki upp á þér þótt þú gerir mistök, því það skilur að allir gera mistök. Þeir sem labba í burtu frá þér eru að gera mistökin, ekki þú. Þú ert fullkomin/n eins og þú ert og þú átt ekki að sætta þig við neitt minna en það sem þú átt skilið.

Leyfðu hjartanu að ráða för

Kannski er hamingjusami endirinn þinn fólginn í því að þú frelsir þig frá fólkinu og aðstæðunum sem draga þig niður. Þegar þú sleppir takinu á fortíðinni opnast heill heimur af skemmtilegri ævintýrum, svo af hverju að missa af því? Leyfðu hjartanu að ráða för – taktu tækifærinu þegar það býðst og segðu já. Þú hefur engu að tapa.

Skilaboðin mín til þín eru þessi: Vertu hugrökk/hugrakkur, slepptu því sem var ekki ætlað þér og taktu reynsluna með þér sem veganesti. Slepptu sársaukanum, frelsaðu þig frá honum og hugsaðu um allt hitt góða sem þú átt. Það er alltaf eitthvað gott í öllu slæmu, það er reynsla og þroski í hverjum mistökum – við þurfum bara að horfa aðeins betur til að sjá það. Sama hversu stórkostlega þú heldur að þú hafir klúðrað öllu, þá er alltaf annað tækifæri. Það er það frábæra við það! Haltu áfram, því heimurinn bíður þín.

Takk fyrir að lesa, og vonandi er lítið bros á vörunum þínum ☺
Elín

SHARE